Skip to main content

Fréttir

Hús íslenskunnar heitir Edda

SSJ

 

Um 1580 tillögur frá hátt í 3400 þátttakendum bárust í nafnasamkeppni um heiti á nýju húsi Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og Íslensku- og menningardeildar Háskóla Íslands. Nafnið sem varð fyrir valinu er Edda. 

Í áliti dómnefndar segir meðal annars:

„Nafnið er fallegt, lipurt og séríslenskt; en það er einnig þekkt á alþjóðlegum vettvangi. Það vekur margbreytileg hugrenningatengsl við bæði fortíð og samtíð, er minnisstætt og hefur jákvæða vísun til hlutverks hússins og starfsemi þess í nútímasamfélagi. Þá fellur nafnið vel að heitum annarra bygginga á háskólasvæðinu.  

Nafnið Edda er opið og margrætt. Uppruni þess er ekki ljós og því fylgir nafninu ákveðin dulúð. Það á sér langa sögu en í fornmáli kemur nafnorðið edda meðal annars fyrir í merkingunni ‘formóðir’. Edda er vinsælt eiginnafn í samtímanum sem jafnframt vísar skýrt til menningararfsins: eddukvæða og Snorra-Eddu og þar með upphafs íslenskra fræða.“ 

Þátttaka í nafnasamkeppninni fór fram úr björtustu vonum en athygli vakti hversu margar fjölbreyttar tillögur voru sendar inn. Edda var þó langvinsælasta nafnið en 261 þátttakandi sendi inn tillögu að því. Þar næst kom nafnið Tunga en um það bárust 183 tillögur, þá Heimskringla með 80, Viska og Vagga með 29 hvort.

Dregið verður úr hópi þessara 261 þátttakenda og eiga fimm þeirra von á þakklætisvotti fyrir hlut sinn í nafngiftinni.

Í dómnefnd nafnasamkeppninnar sátu Guðrún Nordal forstöðumaður fyrir hönd Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, Sif Ríkharðsdóttir fyrir hönd rektors Háskóla Íslands og Kristrún Heiða Hauksdóttir fyrir hönd menningar- og viðskiptaráðuneytis. Til ráðgjafar voru Ásgrímur Angantýsson, prófessor í íslensku, og Aðalsteinn Hákonarson, verkefnisstjóri á nafnfræðisviði Árnastofnunar. Ritari dómnefndar var Ingibjörg Þórisdóttir kynningarstjóri Árnastofnunar.