COVID-19
COVID-19 er alþjóðlegt heiti á þeim sjúkdómi sem kórónuveiran (e. severe acute respiratory syndrome coronavirus 2 eða SARS-CoV-2) veldur. Það er stytting á coronavirus disease 2019.
Þar sem þetta heiti er upphaflega skammstöfun þá er rétt að rita það með hástöfum en ekki lágstöfum, það er COVID-19. Ekki eru ritaðir punktar í skammstöfunum sem ritaðar eru með hástöfum, til dæmis HÍ, BHM, DNA, SARS. Sjá gr. 22.6 í ritreglum Íslenskrar málnefndar.
Almennt eru læknisfræðileg hugtök (sjúkdómar og fleira) rituð með litlum upphafsstaf óháð því hvort þau eru dregin af sérheiti eða ekki, til dæmis asíuflensa, stokkhólmsheilkennið. Sjá gr. 1.3.3.2 d í ritreglum. COVID-19 er hins vegar skammstöfun og fellur því ekki undir þá reglu.
Ef COVID-19 er notað sem fyrri liður samsetningar þarf að hafa í huga að það er tengt eftirfarandi orði með bandstriki, til dæmis:
COVID-19-faraldurinn
COVID-19-áætlun
COVID-19-tilvik
Þetta er í samræmi við gr. 26.1.1 í ritreglum þar sem segir að bandstrik sé notað í samsettum og afleiddum orðum þar sem fyrri liðir eru tölur, tákn eða bókstafir eða skammstafanir og tilgreind dæmi eins og F-15-þota, AA-fundur.
Kórónuveira
Nokkuð hefur borið á því að ritað sé kórónaveira og fyrri hluti orðsins látinn vera óbeygður. Eðlilegra er hins vegar að beygja hann, þ.e. kórónuveira (eignarfallssamsetning) enda vísar útlit veirunnar til kórónu eða krans. Nánar má lesa um myndun þessa orðs í nýrri grein á Vísindavefnum eftir Ágústu Þorbergsdóttur, málfræðing á Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.
Vírus eða veira?
Elstu dæmi um vírus (tökuorð) eru frá 1945 og um veiru (nýyrði) frá 1955, sjá orðapistil Ástu Svavarsdóttur, rannsóknardósents á Árnastofnun. Vilmundur Jónsson landlæknir lagði til síðarnefnda orðið og fjallaði um í greininni Vörn fyrir veiru.
Social distancing – samskiptafjarlægð
Í tengslum við COVID-19-sjúkdóminn hefur mikið verið rætt um það sem á ensku nefnist social distancing, þ.e. það að minnka sem mest samneyti við aðra til að reyna að koma í veg fyrir útbreiðslu veirunnar. Ekki hefur fundist gott orð yfir þetta en Jóhann Heiðar Jóhannsson, formaður Orðanefndar Læknafélags Íslands, leggur til (í samtali) að þetta hugtak verði kallað samskiptafjarlægð. Dæmi um notkun þess í setningu: Landlæknir leggur til að allir hlíti reglum um samskiptafjarlægð.
Síðast breytt 24. október 2023