Skip to main content

Pistlar

veira og vírus

Orðin veira og vírus eru samheiti og vísa bæði til örsmárra einda sem eru sníklar í frumum og valda ýmsum sjúkdómum. Um bæði orðin má finna dæmi í Ritmálssafni Orðabókar Háskólans og í rafrænum gagnasöfnum er fjöldi dæma um þau.

 • er því lýst, hverja möguleika líkaminn hefur til þess að verjast utanaðkomandi lífverum, svo sem bakteríum og veirum.
 • Veirur eru örsmáar og hvorki lifandi eða dauðar.
 • Flestir þeir líffræðingar, sem fást við erfðafræði, telja hin svonefndu kon (gen) vera hina minnstu lifandi einingu, en álíta vírusana vera einskonar flökkukon, fyrirrennara sjálfra frumnanna. 
 • Einhver hefur stungið upp á því að kalla vírusana eitrur á íslenzku. 
 • Orðið vírus fer vel í málinu og beygist eins og prímus. 

Síðar víkkaði merking beggja orðanna út og þau eru nú einnig notuð um tölvuforrit sem dreift er til að valda truflunum eða skemmdum í annarra manna tölvum. 

 • Veira getur valdið skaða á vélbúnaði, hugbúnaði eða gögnum.
 • Nýr vírus er að hreiðra um sig á netinu um þessar mundir.

Orðin eru tiltölulega ung í íslensku. Elstu dæmi um vírus í Ritmálssafni Orðabókar Háskólans eru frá því um 1945. Það er oftast karlkynsorð, flt. vírusar, en í upphafi bregður því einnig fyrir sem hvorugkynsorði. 

 • Við vonuðumst til að þetta virus reyndist ekki lífshættulegt.

Dæmi um kvenkynsorðið veira eru yngri, þau elstu frá því um 1955. Það var Vilmundur Jónsson, landlæknir, sem stakk upp á að nota það orð í merkingunni ‘vírus’. Orðið veira var umdeilt í fyrstu og Vilmundur skrifaði af því tilefni fræga grein, Vörn fyrir veiru (1955), sem andsvar við grein Sigurðar Péturssonar í Náttúrufræðingnum árið áður. Aðrar uppástungur um nýyrði voru t.d. víra og eitra.

Orðið veira var til í eldri merkingu, ‘feyskinn, fúinn blettur í tré; brestur, sprunga’, en hefur tæplega verið algengt, t.d. eru engin dæmi um þá merkingu í ritmálssafninu. 

Þessi tvö orð eru ágætt dæmi um að tökuorð (vírus) og nýyrði (veira) með sömu merkingu lifi hlið við hlið í málinu. Ef marka má rafræn textasöfn frá síðustu árum er orðið veira þó margfalt algengara í samtímamáli, t.d. finnast næstum 12 þúsund dæmi í Risamálheildinni en aftur á móti tæplega 4.000 um vírus.

Birt þann 1. nóvember 2003
Síðast breytt 24. október 2023
Heimildir
 • Ritmálssafn Orðabókar Háskólans.
 • Íðorðabankinn. Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.
 • Íslensk nútímamálsorðabók. Ritstj. Halldóra Jónsdóttir og Þórdís Úlfarsdóttir. Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.
 • Íslensk orðabók. Reykjavík: Edda 2002.
 • Íslensk orðsifjabók eftir Ásgeir Blöndal Magnússon. Reykjavík: Orðabók Háskólans 1989. (sjá líka á málið.is)
 • Risamálheildin (2018) og Mörkuð íslensk málheild (MÍM): malheildir.arnastofnun.is.
 • Sigurður Pétursson. 1954. Vírusarnir og frumgróður jarðarinnar. Náttúrufræðingurinn 4/1954:145-157.
 • Vilmundur Jónsson. 1955. Vörn fyrir veiru. Frjáls þjóð 17/1955:5-7. (Endurprentuð í Með hug og orði. Af blöðum Vilmundar Jónssonar landlæknis. (Fyrra bindi.) Reykjavík: Iðunn 1985.)