Skip to main content

Pistlar

Af hverju eru íðorð mikilvæg?

Íðorð eru orð eða orðasambönd sem eru notuð í sérfræðilegri orðræðu. Fræðileg orðræða krefst nákvæmra íðorða og án þeirra er erfitt að miðla þekkingu og tala og skrifa um sérfræðileg efni.

Íðorðastarf miðar að skýrum og öruggum tjáskiptum. Með því að taka saman íðorðasöfn og skilgreina hugtök er unnið að því að draga úr mismunandi túlkun orða og hugtaka. Festa í orðanotkun auðveldar samskipti og kemur í veg fyrir glundroða. Forsenda þess að sérfræðingar skilji hver annan er að þeir hafi sama skilning á þeim orðum sem þeir nota. Það þarf með öðrum orðum að vera samkomulag meðal sérfræðinga um merkingu íðorða.

Skipta íslensk íðorð máli?

Aðalmarkmið íslenskrar málstefnu, Íslenska til alls,1 er að tryggja að íslenska verði notuð á öllum sviðum íslensks samfélags. Forsenda þess að það sé mögulegt er að til sé á íslensku allur nauðsynlegur orðaforði.

Tungumál sem á ekki fræðiorð á öllum sviðum verður fátækara tungumál fyrir vikið. Það eykur hættu á að það verði annars flokks tungumál sem ekki er unnt að nota í vísindalegu samhengi þar sem eðlilega er gerð krafa um nákvæmni. Staða íslenskrar tungu verður best treyst með því að hún sé notuð sem víðast í íslensku samfélagi og á sem fjölbreyttastan hátt þannig að engin svið verði út undan. Tungumál sem ekki er nothæft nema á sumum sviðum samfélagsins hefur veika stöðu og hætta er á að það verði undir í samkeppni t.d. við ensku.

Það þarf því að leggja rækt við íðorðastarf svo að auðvelt sé að ræða um sérhæfð viðfangsefni á íslensku. Mikilvægt er að til séu íslensk íðorð.

Það eru ekki aðeins sérfræðingar sem nota íðorð. Þau koma iðulega fyrir í almennri umfjöllun í fjölmiðlum, s.s. um umhverfismál eða fjármál. Oft þarf að vera hægt að fjalla um ýmsar sérgreinar svo að leikmenn skilji og þá er heppilegra að orðin séu til á íslensku. Íslensku orðin efnahagsreikningur og spilliefni eru væntanlega skiljanlegri almenningi en ensku orðin balance sheet og hazardous waste. Algengt er að íslensku íðorðin séu mynduð með því að tengja saman eldri orð eða orðhluta á nýjan hátt og oft má lesa út úr orðunum sjálfum vísbendingu um merkingu þeirra.

Samkvæmt lögum um háskóla nr. 63/2006 er hlutverk þeirra meðal annars að stuðla að miðlun þekkingar og færni til samfélagsins alls. En þekkingu og færni verður ekki miðlað til íslensks samfélags á öðru máli en íslensku. Íslenska þarf þess vegna að vera nothæf í vísindum og búa yfir þeim orðaforða sem nauðsynlegur er til þess að eðlileg samskipti geti orðið á milli þess sem þekkinguna hefur numið og þess sem tekur við henni.

Hvar er hægt að fletta upp íðorðum?

Aðgengi að íðorðum er lykilatriði en sérhæfð íðorð er sjaldnast að finna í almennum orðabókum. Til að finna upplýsingar um íðorð, t.d. um íslenska þýðingu á erlendu íðorði, er handhægt að leita í Íðorðabankanum hjá Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum þar sem fletta má upp í fjölmörgum íðorðasöfnum á einum stað endurgjaldslaust.

1: Íslenska til alls. Tillögur Íslenskrar málnefndar að íslenskri málstefnu samþykktar á Alþingi 12. mars 2009 Reykjavík: Mennta- og menningarmálaráðuneytið.

Birt þann 26. ágúst 2019
Síðast breytt 24. október 2023