Skip to main content

Pistlar

Rímur um konu varðveittar af konum

Rímurnar af Mábil sterku segja frá konu sem hegðar sér ekki eins og aðrar konur. Hún er riddari sem berst fyrir rétti sínum til erfða og sjálfstjórnar og er öllum körlum fremri, bæði að vitsmunum og afli. Varðveislusaga rímnanna er slitrótt en elsta handrit þeirra er Kollsbók (Codex Guelferbytanus 42.7. Augusteus Quarto) sem var skrifuð á síðari hluta 15. aldar og var hún seld úr landi eftir miðja sautjándu öld.

Mábilar rímur hafa verið orðnar fágætar þegar Þrúður Þorsteinsdóttir, eiginkona Björns Þorleifssonar Hólabiskups, fól Árna Magnússyni það verkefni að finna þær fyrir sig. Þetta má ráða af bréfaskiptum milli Árna og  biskups þar sem skilaboð fljóta með til Þrúðar, fyrst í mars árið 1703. Árni afsakar að sér gangi illa að efna loforð sitt frá liðnu sumri um að útvega henni þær en er vongóður um að það muni takast. Tveimur mánuðum síðar sendir hann henni rímurnar en afsakar að þær séu ekki vel varðveittar, aðeins níu rímur, og lofar jafnframt að leita betur. Næsta vor kemur enn bréf til biskups með kveðjum til maddömu Þrúðar og tíundu rímunni sem Árni segist hafa náð með erfiðismunum úr illa förnu kálfskinnskveri. Þrúður hefur verið fylgin sér og virðist hafa brýnt hann til enn frekari leitar því 31. mars 1705 svarar Árni og segist ekki muni geta fundið hana betri.

Myndin sýnir heimildina í Lbs 684 4to, bls. 184.

Nú er ekki vitað hvað varð af uppskriftunum sem Árni sendi Þrúði. Biskupshjónin voru mikið bókafólk en bókastofa sem Björn hafði látið byggja brann í nóvember 1709. Þar fór margt forgörðum og hugsanlega bækur Þrúðar þar með. Hins vegar eru vísbendingar um að nokkur ung handrit (Lbs 287 fol, Íb 302 4to, Lbs 3384 8vo, Lbs 4475 4to) eigi rót sína að rekja til uppskriftarinnar sem Árni sendi henni. Þau hafa aðeins níu rímur og aftan við þær hefur verið bætt lausamálstexta með orðalagi sem líkist mjög texta Árna í bréfinu til biskups. Tvö handrit (Sth papp 21 8vo og Lbs 684 4to) sem vitað er að eiga rót sína að rekja til Skagafjarðar hafa tíundu rímuna að auki og hið síðarnefnda einnig eftirmálann. Þar er hann lengri og ýtarlegri en í hinum handritunum og aðeins í því handriti er vitnað í heimildarkonur:

 

Mabils RÌmur seiga sumir 18 og þeir eru flestir sem seiga þær 24. enn sumir 30.
Þordÿs Jons dottir biskups seigist 18 heirt hafa
sÿnir Mabilar Sterku koma fram I Romallds Rÿmumm sonur Miediu
og blots nauts hennar var Klaufi er do I Vólundar husinu, ey hef eg
sied meira af þessum Rÿmumm og hefur helldur su saga mier til eirna
borid, enn sagt er ad Saluga Elín Sigurdar Dottir hafi kunnad 18 Mabils
Rymur ...

Sáluga Elín Sigurðardóttir hefur líklega verið prófastsfrúin á Grenjaðarstað sem var gift Skúla Þorlákssyni, móðurbróður Þrúðar. Hin heimildarkonan er Þórdís biskupsdóttir, vinkona Árna, sem Halldór Laxness gerði ódauðlega sem hið ljósa man Íslandsklukkunnar.

Hér sannast, eins og svo oft áður, að konur hafa gegnt mikilvægu hlutverki í varðveislu og miðlun menningararfsins. Þökk sé Þrúði Þorsteinsdóttur fyrir áhuga hennar á rímunum af Mábil sterku og konunum sem lærðu og kenndu.

Birt þann 22. júní 2018
Síðast breytt 22. júní 2018
Heimildir

Annálar = Annales Islandici Posteriorum Sæculorum. Annálar 14001800. I, II, IV. 1922–1948. Útg. Hannes Þorsteinsson og Jón Jóhannesson. Hið íslenzka bókmenntafélag. Reykjavík.

Arne Magnussons private brevveksling. 1920. Kommissionen for det Arnamagnæanske Legat. København.

Kollsbók. Codex Guelferbytanus 42.7. Augusteus Quarto. 1968. Útg. Ólafur Halldórsson. (Íslenzk handrit V). Handritastofnun Íslands. Reykjavík.

Valgerður Kr. Brynjólfsdóttir. 2004. Meyjar og völd : rímurnar af Mábil sterku. Reykjavík. MA-ritgerð við Háskóla Íslands.