Eins og kunnugt er, er dýrlingur í kaþólskri trú karl eða kona sem hefur gert eitthvað í lifanda lífi sem veitir honum eða henni sérstakan sess við hlið Guðs á himnum. Dýrlingar skiptast í tvo hópa, játara og píslarvotta sem létu líf sitt fyrir trúna. Meginhlutverk dýrlinga var að vera árnaðarmenn, þ.e. milligöngumenn fólks við Guð. Litið var á dýrlinga sem fyrirmynd um gott og rétt líferni hérna megin grafar en það skiptir einnig miklu máli að dýrlingar voru taldir hafa afl til að milda píslir annars heims.
Á miðöldum kynntust Íslendingar mörgum dýrlingum kaþólsku kirkjunnar og þýddu sögur sumra þeirra yfir á norrænu; kirkjur voru einnig helgaðar nokkrum þeirra. Flestir þeirra dýrlinga, sem vitað er að Íslendingar hafi heiðrað, voru karlar en nokkrar konur eru þó meðal þeirra. Eftirfarandi skrá yfir messudaga til minningar um kvendýrlinga er tekin af vef Almanaks Háskóla Íslands og birt hér með leyfi höfundarins, Þorsteins Sæmundssonar.
11. janúar: Brettívumessa, messa sem víða er getið í norskum og íslenskum heimildum. Um tilefnið er ekkert vitað.
21. janúar: Agnesarmessa, messa til minningar um rómversku meyna Agnesi sem talið er að hafi dáið píslarvættisdauða í Róm um 300 e. Kr.
1. febrúar: Brígidarmessa, messa til minningar um heilaga Brígidi sem var abbadís á Írlandi um 500 e. Kr. og er mjög í hávegum höfð þar í landi.
2. febrúar: Kyndilmessa, hreinsunardagur Maríu meyjar (þ. e. hreinsunardagur samkvæmt Gyðingatrú), 40 dögum eftir fæðingu Krists. Nafnið er dregið af kertum sem vígð voru þennan dag og borin í skrúðgöngu. = Maríumessa.
5. febrúar: Agötumessa, messa til minningar um meyna Agötu sem talið er að hafi verið uppi á Sikiley, líklega á 3. öld, og liðið píslarvættisdauða.
10. febrúar: Skólastíkumessa, messa til minningar um hina helgu mey Skólastíku (f. um 480, d. um 543), sem var systir Benedikts frá Núrsíu.
17. mars: Geirþrúðardagur, messudagur tileinkaður Geirþrúði abbadís í Nivelles í Belgíu (626-659 e. Kr.).
25. mars: Boðunardagur Maríu (Maríumessa á föstu), messudagur til minningar um að Gabríel engill vitraðist Maríu mey og boðaði fæðingu Krists.
1. maí: Valborgarmessa, messa til minningar um enska nunnu, Valborgu, sem gerðist abbadís í Heidenheim í Þýskalandi á 8. öld. Fólk hét á Valborgu til verndar gegn göldrum, og í Þýskalandi var það útbreidd trú að galdrakonur kæmu saman kvöldið fyrir messudaginn (Walpurgisnacht).
23. júní: Eldríðarmessa, messa til minningar um Eldríði abbadís sem stofnaði klaustur í Ely á Englandi á 7. öld.
2. júlí: Þingmaríumessa, vitjunardagur Maríu, minningardagur um það þegar María heimsótti móður Jóhannesar skírara; einn af messudögunum í minningu Maríu meyjar, tekinn upp á Íslandi á 15. öld. Nafnið er af því dregið að alþingi var haldið um þetta leyti árs.
13. júlí: Margrétarmessa, messa til minningar um Margrétu mey, sem óstaðfestar sögur herma að hafi verið uppi í Litlu-Asíu snemma á öldum og látið lífið fyrir trú sína. Margrétarmessa hin síðari er 20. júlí.
15. ágúst: Maríumessa hin fyrri (himnaför Maríu), dánardagur Maríu að kaþólskri trú.
8. september: Maríumessa hin síðari, fæðingardagur Maríu að kaþólskri trú.
21. október Kolnismeyjamessa, messa tileinkuð heilagri Úrsúlu og ellefu þúsund meyjum sem þjóðsögur segja að hafi látið lífið fyrir trú sína við Kolni (Köln) snemma á öldum.
21. nóvember: Maríu offurgerð, minningardagur þess að María hafi verið færð til musterisins sem barn og vígð guði til þjónustu.
22. nóvember: Sesilíumessa (Cecilíumessa), messa til minningar um Sesilíu sem talið er að hafi verið uppi í Róm snemma á öldum og liðið píslarvættisdauða.
25. nóvember: Katrínarmessa, messa til minningar um Katrínu píslarvott frá Alexandríu, sem margar sögur eru um, en engar áreiðanlegar og óvíst hvort hún hefur verið til.
4. desember: Barbárumessa, messa til minningar um Barbáru mey sem þjóðsögur herma að hafi dáið sem píslarvottur um 300 e. Kr.
8. desember: Getnaður Maríu, minningardagur um það að María hafi verið getin án erfðasyndar.
13. desember: Lúsíumessa, messa til minningar um meyna Lúsíu, sem talið er að hafi látið lífið sem píslarvottur á Sikiley um 300 e. Kr.
Síðast breytt 24. október 2023