Skip to main content

Pistlar

Konur og karlar í Nýyrðum I

Árið 1952 kom út ritið Nýyrði I; orðasafn með um 6.000 nýjum íslenskum orðum. Björn Ólafsson menntamálaráðherra hafði falið Alexander Jóhannessyni, Einari Ól. Sveinssyni og Þorkatli Jóhannessyni að sjá um að hafist yrði handa við að safna nýyrðum og þeir réðu Svein Bergsveinsson til starfsins. Í formála Sveins kemur fram að nýyrðin í bókinni miðist yfirleitt við að þau séu „síðar fram komin en þau orð, sem prentuð eru í Orðabók Sigfúsar Blöndals“. Má því ætla að orðin í Nýyrðum I séu sótt í heimildir u.þ.b. frá tímabilinu 1920–1950.

Í Nýyrðum I er efnið greint í fáeina flokka, svo sem bifvélatækni, eðlisfræði, líffræði, sálarfræði o.fl. auk kafla með yfirskriftina Ýmis heiti.  

Í bókinni má finna fáein dæmi um flettur sem varða beinlínis karla og konur. Í kaflanum Sálarfræði – Rökfræði – Almenn fræðiheiti eru hugtökin karlmenning ‚menning, sem mótuð er af karlmönnum‘ og kvenmenning  ‚gagnst. karlmenning‘. Einnig eru þar fletturnar karlræði ‚Männerherrschaft‘ og kvenræði ‚Weiberherrschaft‘. (Íslensku nýyrðin í bókinni eru oft skýrð eingöngu með erlendu jafnheiti.) Í dæmunum hér á undan má sjá hvernig orðliðirnir karl- og kven- mynda merkingarleg orðapör þar sem kynferði er aðgreinandi merkingarþáttur.

Annað er upp á teningnum í Nýyrðum I þegar kemur að flettunni kvenhugsjón ‚kvindeideal‘. Aðeins er að finna samsetninguna með kven- enda er ekki að sjá að orðið karlhugsjón hafi verið komið fram þegar bókin varð tilOrðið kvenhugsjón kemur fyrir í ýmsum heimildum frá miðri 20. öldinni en helstu gagnasöfn sýna engin dæmi um orðið karlhugsjón fyrr en 1979 („með því séu þeir að tilbiðja sjálfs sín yfirburði og karlhugsjón“; úr ritdómi Erlends Jónssonar um Turnleikhús Thors Vilhjálmssonar).

Raunar er hugtakið mannshugsjón að finna í Nýyrðum I en þar er átt við ‚menneskeideal‘ og er því ekki um að ræða merkingarlega samsvörun við kvenhugsjón

Í kaflanum Ýmis heiti eru um 400 nafnorð af ýmsu tagi og minna mörg hver sterklega á þann tíma sem bókin sækir efnið til, t.a.m. andspyrnuhreyfing, innflutningsleyfi, lífsrýmimöndulveldiverkfallsbrjótur. Fá lýsingarorð eru í kaflanum; einkum er um að ræða ný litarheiti, t.d. bleikfjólublár ‚pink violet‘, sveskjublár ‚fjólublátt+svart‘ o.fl. en aðeins örfá annars konar lýsingarorð. Þau eru brynvarinn, hlutfallsbundinn, kerfaður ‚systematisk‘, misaldra, tugginn ‚banal‘ og loks þessi tvö: kvensællvera k ‚have kvindetrække‘, mannsæl (kona)vera m ‚have mandetrække‘.

Tvennt vekur athygli varðandi lýsingarorðin kvensæll og mannsæl(l); annars vegar að samsvörunin er ekki kven- karl-heldur kven- / mann-; hins vegar að gengið er frá lýsingarorðsflettunni í kvenkynsformi, þ.e. mannsæl (og til áréttingar er bætt við „kona“ í sviga).  Annars eru lýsingarorð tilgreind í karlkyni svo sem venja er í orðabókum. Frágangurinn „mannsæl (kona)“ ber með sér að ekki er gert ráð fyrir því að karlmaður hafi ‚mandetrække‘ – eða að það eigi a.m.k. ekki erindi á prent.

Birt þann 22. júní 2018
Síðast breytt 22. júní 2018