Handrit það sem í daglegu tali er kallað Íslenska teiknibókin eða bara Teiknibókin, og ber safnmarkið AM 673 a III 4to, er einstætt meðal handrita í safni Árna Magnússonar. Teiknibók þýðir einfaldlega bók með teikningum og myndum af einhverjum toga.
Handritið, sem talið er gert af fjórum teiknurum (A, B, C og D) á bilinu 1330–1500, samanstendur af 21 skinnblaði auk snifsis af blaði 22, alls 44 síður og eru myndir beggja megin á blöðunum. Latnesk lýsing Árna Magnússonar á myndum Teiknibókar er svo í íslenskri þýðingu: „Ýmsar myndir með penna sem lúta að sögu Krists.“ Hér á eftir verður sjónum beint að teikningu af þremur krýndum konum sem að líkindum var gerð af C-teiknaranum um 1450–1475.
Efst á blaði 7r standa þrjár krýndar konur í röð, allar uppréttar með sverð og kórónu á höfði en engin þeirra hefur geislabaug. Þær eru allar í kyrtlum og bera fóðraðar skikkjur með borðalögðum brúnum á öxlum. Konan yst til vinstri ber ein höfuðdúk undir kórónunni. Hún styðst með hægri hendi við nakið sverð en hefur skrín eða öskju í hinni. Konan í miðið réttir báðar hendur út til hliðanna. Í hægri hendi heldur hún á sverði, sem hjöltin ein eru sýnd af, en vinstri hönd er ófullgerð. Konan yst til hægri reiðir nakið sverð yfir hægri öxl sér en lyftir upp bók í vinstri hendi. Ekki er víst að þetta séu helgar konur vegna þess að þær eru ekki með geislabauga.
Hinar sigursælu dyggðir eru oft krýndar og vopnaðar og bera auk þess einkunnir. Hugsanlega má þekkja í konunum þremur guðræknidyggðirnar þrjár: Trú, Von og Kærleik. Konan lengst til vinstri er þá Trúin sem jafnan er með höfuðdúk og heldur stundum á skríni, oblátubauk með hinu helgaða brauði. Konan með bókina lengst til hægri gæti verið Von sem stundum er sýnd með bók. Samkvæmt þessu hefði konan í miðið verið Kærleikur en um það verður ekkert fullyrt vegna þess að einkunnir hennar eru ófullgerðar.
Í bæheimskri teiknibók frá um 1390 eru myndir á blöðum 8r og 12r af þremur standandi kvendýrlingum. Ekki er þó víst að C-teiknarinn hafi ætlað sér að gera myndir af þeim, heldur einfaldlega uppkastsmyndir af konum í mismunandi stellingum sem nota hefur mátt jöfnum höndum sem fyrirmyndir að kvendýrlingum, persónugervingum dyggða eða konungbornum konum með því að fá þeim viðeigandi einkennistákn, allt eftir þörfum hverjum sinni.
Línur í myndum kvennanna hafa að hluta til verið skýrðar upp með svarbrúnu bleki en víða má sjá línur með brúnu bleki sem ekki hefur verið farið ofan í. Fínlegir skuggar í sama brúna lit eru einnig í skikkjufellingum. Útlínur konunnar í miðið hafa að hluta til verið fínlega gataðar með oddjárni.
Síðast breytt 22. júní 2018