Birtist upphaflega í janúar 2009.
Örnefni með þessum forlið eiga yfirleitt við leið þingmanna til þings og frá þingi og þar með einnig oft alfaraveg. Hér verða nefnd nokkur þessara örnefna.
Aðeins eitt örnefni er á Suðurlandi, Þingmannagata í Villingaholtshreppi í Flóa en í Hróarsholti í Flóa var um skeið þriggja hreppa þing. Á Vesturlandi er líka aðeins ett slíkt örnefni, en í Haga í Hraunhreppi í Mýrasýslu er Þingmannahóll.
Á Vestfjarðakjálkanum eru þessi örnefni flest, einkum í Barðastrandarsýslu. Þingmannagjá og Þingmannarjóður eru í Þorskafirði, einnig Þingmannagötur (Jarðabók VI:207), öll tengd Þorskafjarðarþingi. Þingmannakleif, Þingmannarjóður og í því Þingmannatjörn eru í Vattarfirði, Þingmannaheiði er á milli Skálmarfjarðar í A-Barð og Vatnsfjarðar í V-Barð. Úr austurbotni Vatnsfjarðar gengur grunnur dalur, Þingmannadalur, upp í Þingmannaheiði. Um hann fellur Þingmannaá(Jarðabók XIII:173). Talið hefur verið að þing hafi einhvern tíma verið á Vattarnesi og tengist nöfnin því. Í Botni í Dýrafirði eru Þingmannavötn og Þingmannarjóður og tengjast Dýrafjarðarþingi, og í Botni í Súgandafirði er Þingmannaheiði, oft kennd við Bolvíkinga.
Þingmannaheiði, milli Vattarfjarðar og Vatnsfjarðar. Ljósm.: Jóhann Óli Hilmarsson.
Á Norðurlandi eru þónokkur Þingmanna-örnefni, Þingmannaá í Vatnsdal tengd Húnavatnsþingi og Þingmannaháls á Eyvindarstaðaheiði í A-Hún. Kjalvegur lá yfir hann að fornu (Ferðabók, 410). Þingmannahnjúkur er á Vaðlaheiði upp af Kaupangssveit í Eyjafirði, Þingmannalækur er í landi Litla-Eyrarlands í Eyjafirði og Þingmannavegur liggur þaðan og yfir Vaðlaheiði til Fnjóskadals. Í Ljósvetningasögu er hann nefndur Þingmannaleið (Ísl. fornrit X:75). Örnefnin tengjast Vaðlaþingstað. Þingmannalækur er í landi Sólvangs í Fnjóskadal í S-Þing., rennur vestur úr Ljósavatnsskarði. Hans er getið í fornbréfum (DI VI:8 (1312), 502 og 504 (1483)).
Á Austurlandi var Þingmannanúpur til sem örnefni, hamarsgnípa á mörkum Þingmúla og Berufjarðar í S-Múl. en ekki þekkt lengur, og Þingmannaups var einnig í S-Múl. skv. fornbréfi (DI VIII:10) (1370).
Eins og sést af þessu yfirliti hafa ekki öll þingin í landinu skilið eftir sig Þingmanna-örnefni hvernig sem á því stendur og er áberandi hvað Suður- og Vesturland eru þar eftirbátar annarra landshluta.
Síðast breytt 24. október 2023