Skip to main content

Pistlar

Svörtuloft

Birtist upphaflega í desember 2009.

Brot úr gömlu korti. Fyrir miðju stendur "Svörtuloft".
Herforingjaráðskort Dana
Landmælingar Íslands

Örnefnið Svörtuloft er a.m.k. á 14 stöðum á landinu. Hér verður minnst á sjö þeirra staða.

Þekktustu Svörtuloft eru sjávarhamrar, um fjögurra km langir, suður frá Öndverðarnesi, vestast á Snæfellsnesi. Hamrarnir eru hrikalegir tilsýndar og kolsvartir eins og nafnið ber með sér. Þorvaldur Thoroddsen getur þeirra í Ferðabók sinni með þessum orðum: „Fram með sjónum eru há hraunbjörg; þar eru hin illa ræmdu Svörtuloft“ (bls 50). Þannig er lýsing höfunda í ritinu Landið þitt Ísland (4:243): „Er þar brotin hraunströnd og er hraunið þverbratt og sums staðar eins og það væri höggvið eða skorið.“ Skip hafa oft farist undir Svörtuloftum, m.a. póstskipið Anne Dorothea 1817 með allri áhöfn, 9 manns (Öldin sem leið, 63). „Í austan- og norðaustanbálviðri hafa skip löngum leitað vars undir Svörtuloftum, en í hafáttum vill enginn vera þar nærri. Í ofsa vetrar og vestanstórsjó er engu hlíft við Svörtuloft. Hvergi er skjól og bergstálið nötrar undan þunga brimsins og brotnar sí og æ“ (Guðmundur Páll Ólafsson 1995, 307). Skip sem lenda í slíku veðri undir Svörtuloft hreinlega splundrast og áður fyrr varð þar yfirleitt ekki mannbjörg. Á síðari tímum hefur þó tekist að bjarga mönnum á strandstað, t.d. einum manni af vélskipinu Svanborgu frá Ólafsvík sem fórst þar 2001, en þrír sjómenn fórust (Árbók Íslands 2001, 153). Viti var reistur þar fyrst 1914, nefndur Skálasnagaviti (Árbók 1982, 122). Nafnið Svörtuloft er aðeins notað af sjó en björgin sjálf heita á landi Saxhólsbjarg og Nesbjarg norðar.

Svörtuloft eru nefnd norðan í Akrafjalli, austan við Kjalardal, skv. Íslandsatlas (3C2). Nafnið er ekki í örnefnaskrá Kjalardals en þar segir hins vegar: „Og innan við Kjalardalinn heita björgin í dalsmynninu Votubjörg.“ Vafalaust er um sömu björgin að ræða þó að nafnið sé annað.

Svörtuloft eru innan Raknadalshlíðar í Patreksfirði í V-Barð. Nafnið er heldur ekki í örnefnaskrá, þ.e. skránni um jörðina Raknadal í Rauðasandshreppi, en þar stendur: „Austan Raknadalsár er hátt og áberandi standberg, svart og mikilúðlegt, sem heitir Lofthögg.“ Kristinn Fjeldsted gerði athugasemdir við skrána 2007 og segir að Svörtuloft á kortum hafi sér fundist notað frekar en Lofthögg.

Svörtuloft á Stað í Súgandafirði eru klettar upp af svonefndu Stórahvolfi. Heimildarmaður að örnefnaskránni hefur heyrt kletta þessa kallaða Svarthamra og segir að ofanvert í Stórahvolfi sé minna hvolf kallað Svarthamrahvolf.

Svörtuloft heitir krókurinn innan við svonefndar Brekkur í landi Höfðabrekku í Mýrdal.

Svörtuloft í Steinsholti í Gnúpverjahreppi í Árn. eru gljúfur, sem Kálfá rennur eftir.

Svörtuloft eru í landi Krýsuvíkur. Þar er hraunbreiða fram að sjó og víða hamrar. „Næst vestan við Vestri-Bergsenda taka við svonefnd Svörtuloft“, segir í örnefnaskrá.

Athyglisvert er að fjórir þessara staða bera líka annað nafn. Loft merkir væntanlega annaðhvort ‚hæð (í húsi)‘ eða ‚lofthaf, vegalengd í lausu lofti‘ í þessum örnefnum. Lofthellir heitir í Ketildyngjuhrauni milli Hvannfells og Búrfells í Mývatnssveit. Hann er á fimm hæðum og er nafnið dregið af því (Ferðir júní 2006, 65). En oftast er um að ræða þverhnípta veggi eða standberg á þeim stöðum sem bera nafnið Svörtuloft. Svarti liturinn stafar stundum af vætu, sbr. Votubjörg, sem gerir þessi „loft“ svört að lit. Auk þess ber að nefna að Seðlabanki Íslands er til húsa í dökkri byggingu við Kalkofnsveg sem snemma var farið að kalla Svörtuloft eftir að það var fullbúið 1987. Að síðustu má geta þess að nýjasta glæpasaga Arnalds Indriðasonar ber þetta sama nafn.

Af þeim stöðum sem fjallað er um hér hafa einungis fyrstu þrír verið hnitsettir í örnefnagrunni Landmælinga.
🟢Svörtuloft í Patreksfirði 🔴Svörtuloft á Snæfellsnesi 🔵Svörtuloft í Akrafjalli
Birt þann 20. júní 2018
Síðast breytt 24. október 2023
Heimildir

Árbók Íslands 2001. Heimir Þorleifsson tók saman. Almanak Hins íslenska þjóðvinafélags 2003. Reykjavík 2002. 
Árbók Ferðafélags Íslands 1982. Lýsing Snæfellsness frá Löngufjörum að Ólafsvíkurenni. Einar Haukur Kristjánsson tók saman. Reykjavík 1982. 
Ferðir. Blað Ferðafélags Akureyrar, júní 2006. 
Guðmundur Páll Ólafsson 1995. Ströndin í náttúru Íslands. Reykjavík. 
Íslandsatlas. 2. pr. Reykjavík 2006. 
Landið þitt Ísland. Þorsteinn Jósepsson og Steindór Steindórsson. 4. bindi. Reykjavík 1983.
Reynir Ingibjartsson. Kringum Snæfellsjökul. Sérkort og leiðarlýsing. [Án árs.]
Þorvaldur Thoroddsen 1914. Ferðabók III. Kaupmannahöfn. 
Öldin sem leið. Minnisverð tíðindi 1801-1860. Gils Guðmundsson tók saman. Reykjavík 1955.
Örnefnaskrár í Örnefnasafni Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.