Skip to main content

Pistlar

Súla og Sýling

Birtist upphaflega í desember 2005.

Orðið súla merkir í nútímamáli ‘stoð, stólpi’ en einnig ‘fugl af samnefndri ætt (sula bassana)’. Í eldra máli merkti orðið ‘klofið tré’ eða ‘tré sýlt í annan endann’. Í fornri gátu er fuglsheitið súla táknað með orðinu kvíslatré. Í norrænu var orðið haft um klafa á svínum, sbr. nýnorsku sul ‘álma á svínaklafa’, norsku sula ‘stolpe med kløft’ og færeysku súla ‘gaffallaga áhald’ og í danskri mállýsku er sule ‘gaffalstoð’. Af stofninum súl- er dregið orðið sýl- (sbr. sýll) og síðan orðið sýling ‘skarð, skora ofan í e-ð; sérstakt fjármark’ (Ásgeir Blöndal Magnússon, Íslensk orðsifjabók, 1989:986, 1009). Þessi orð koma fyrir í íslenskum örnefnum, sem hér verða rakin dæmi um.

A) ‘stoð, stólpi’
Súla 
Á sem kemur úr Skeiðarárjökli, rennur í gljúfri við suðurbrún Eystrafjalls og síðan vestur í Núpsvötn í V-Skaft. Líklega kennd við fjallið sem nú heitir Súlufell eða Súlutindar, sem er hvöss tindaröð á sýslumörkum V- og A-Skaft., en upphaflega hefur líklega heitið Súla eða Súlur, sbr. Súlnadalsá sem rennur í ána Súlu. Klettadrangur í Súlutindum er nú líka nefndur Súla.

Súlur
Flt. kemur líka fyrir í örnefnum, ósamsett eða samsett: 1) Botnsúlur milli Árn. og Borg. 2) Súlufjall (Landnám Ingólfs III, 1937–39:193) Einstakt bratt fell (146 m) "í kollinum aðskilið, sem tvö fell væru" sem aðskilur Hafnir og Grindavíkurland í Gull. (Landnám Ingólfs III, 1937–39:124). 3) Hreppsendasúlur á Lágheiði í Skag. 4) Súlur. Tveir fjallstindar úr rýólíti/líparíti sunnan og vestan við Akureyri í Eyf. (Syðrisúla 1213 m). 5) Leyningssúlur, kenndar við bæinn Leyning, niður undan Hákömbum fyrir botni Siglufjarðar að vestan. 6) Botnssúlur, standklettur í sjó og lítið sker (Litlasúla) vestan Þorgeirsfjarðar í S-Þing. 7) Súlur. Fjallsmúlatá milli Húsavíkur (Hólsvíkur) og Sveinungsvíkur við Ormarslón í Þistilfirði í N-Þing. Þar er Súlnahöfn, einnig voru þar Súlnafell, tveir hnjúkar á fjallgarði (Þingeyjarsýslur. Sýslu- og sóknalýsingar, 1994:246). 8) Súlur. Norðan við Stórurð vestan Dyrfjalla í N-Múl. 9) Súlnafjall inn af Viðfirði í S-Múl 10) Súlur. Fjallstindar inn frá Kambanesi milli Breiðdalsvíkur og Stöðvarfjarðar í S-Múl. 11) Hellissúlur. Eru nefndar á Melrakkasléttu í rekaskrá frá 1296 (Ísl. fornbréfasafn II, 1893:313) en ekki er vitað með vissu hvar þær hafa verið.

Súlá
Lítil árspræna í Leirár- og Melasveit í Borg., sem líklega hefur heitið *Súla (> Súluá> Súlá) og bæirnir Súlunes (Eystra- og Vestra-) við Leirárvoga eru kenndir við.

Súlendur
Hátt fjall (810 m) suðvestan Hauksstaðaheiðar í N-Múl., norðan við þjóðveginn til Vopnafjarðar. Í sóknarlýsingu er fjallið nefnt Súlendar (Múlasýslur. Sýslu- og sóknalýsingar, 2000:225).

Súlufell
1) Í Grafningi í Árn. 2) Í V-Skaft. (sbr. Súla). 3) Á Breiðabólstað í V-Skaft.

Súluholt
Bær í Flóa í Árn. (Landnámabók). (Grímnir 2:97).

Súlunes
Bæir (Eystra- og Vestra-Súlunes) í Leirár- og Melasveit í Borg. (Ísl. fornbréfasafn VI, 1897:29–30).

Súlutindar
1) Við Kjólsvík í N-Múl. 2) Tindar sem gnæfa yfir vestan Skeiðarárjökuls í V-Skaft. (sbr. Súla).

Súluvellir
Bær í Þverárhr. í V-Hún. Líklega kenndir við Hvítserk, sem líkist súlu þar sem hann gnæfir upp úr sjó úti fyrir.

B) ‘fugl af súluætt’
Súlnasker = Almenningssker
Ein Vestmannaeyja. Dregur nafn af súlnabyggð.

Súlnastapi
Undir Hælavíkurbjargi í Sléttuhr. í N-Ís. Kenndur við súluvarp.

C) Sýling
Sýlingarfjall
Nærri Svartsengi í Gull. og stundum ranglega nefnt Svartsengisfjall.

Sýlingarhnjúkur
Í Svarfaðardal í Eyf., kenndur við fjall sem nefnt er Auðnasýling, eftir bænum Auðnum (Oddur Sigurðsson jarðfræðingur).

D) Sýl-
Sýlfell
Á Reykjanesi í Gull. (Landnám Ingólfs III, 1937–39:123, skr. Sílfell).

Merkingarbreyting hefur orðið í örnefninu Súla, þannig að merkingin hefur færst frá ‘skora, skarð’ til ‘stólpi, stoð’ þannig að topparnir hvor sínum megin við skarðið verða aðalatriðið og það ýtir undir fleirtöluna Súlur í fjallanöfnunum en auðvitað er oft um að ræða tindaröð.

Birt þann 20. júní 2018
Síðast breytt 24. október 2023