Skip to main content

Pistlar

Sorg Helgu Jónsdóttur úr Vatnsfirði

„Helga, mjög sorgmædd“, segir í Skólameistarasögum séra Jóns Halldórssonar í Hítardal um Helgu Jónsdóttur úr Vatnsfirði (Jón Halldórsson 1916‒1918:129), og hann notar sömu orð um Helgu í Prestaævum sínum (Lbs 175 4to:340r). Hvað olli sorg Helgu? Af hverju hafði hún á sér þetta orð, að vera sorgmædd?

Helga Jónsdóttir fæddist árið 1638 í Vatnsfirði við Ísafjarðardjúp, dóttir sr. Jóns Arasonar prófasts og Hólmfríðar Sigurðardóttur, sonardóttur Odds Einarssonar Skálholtsbiskups. Helga var af auðugustu og valdamestu ættum landsins á þessum tíma, sem er að öllum líkindum ástæðan fyrir því að heimildir eru til um hana. Helga giftist árið 1668 Teiti Torfasyni, efnilegum skólagengnum manni sem þá var ráðsmaður í Skálholti. Hann drukknaði aðeins nokkrum mánuðum eftir brúðkaupið og hefur það væntanlega verið mikið áfall fyrir Helgu. Orðsporið sem birtist í athugasemdum Jóns Halldórs­sonar í Hítardal gæti bent til þess að sorgarviðbrögð hennar hafi verið óeðlilega sterk og ekki þótt sæmandi guðhræddri konu á þessum tíma.

Athugasemd um Helgu í bókmenntasögu Jóns Ólafssonar úr Grunnavík, þar sem hann fjallar um drukknun Teits, styður þessa ályktun um að ástæður orðsporsins hafi verið óhófleg sorg vegna andláts eigin­manns, en þar segir: „hands koene sörgede sig i hiel siden om et aarstiid“ (KBAdd 3 fol.:109v). Það er ekki rétt hjá Grunnvíkingi að Helga hafi dáið úr sorg af þessu tilefni, hún giftist nokkrum árum seinna (haustið 1683) sr. Þorsteini Geirssyni, sem verið hafði skólameistari í latínuskólanum á Hólum, og flutti með honum í Laufás við Eyjafjörð þar sem hann varð prestur og hún prestsfrú (festaröl þeirra var haldið í Vatnsfirði sumarið 1683, sbr. annálsgreinar Sigurðar bróður hennar í Holti: Annálar 1400‒1800 III:171). Þorsteinn andaðist árið 1689 en Helga ekki fyrr en 1718. Þessir vitnisburðir Jóns Halldórssonar í Hítardal og Jóns Ólafssonar úr Grunnavík benda til þess að sögur hafi gengið um sorg Helgu eftir drukknun Teits, en sorg hennar má einnig finna í nokkrum kvæðum sem hafa varðveist í handritum.

Til er sálmur sem Helga orti og er einn af fáum sálmum frá 17. öld eignaður konu (sjá Margrét Eggertsdóttir 2002:389). Hann er uppskrifaður í kvæðabók sem skrifuð var handa systur Helgu, Önnu Jónsdóttur, og varðveitt er undir safnmarkinu JS 204 8vo (á bl. 3r‒4v). Sálmurinn hefur fyrirsögn­ina „Raunatal Helgu Jónsdóttur við sinn herrann Kristum. Í ljóðum læst og í sálmvísur snúið af henni“. Í sálminum ákallar hún Jesú, klökk af angist, segist vera „af sorgum södd“ og þrá samneyti við brúðguma sinn, Krist, á himnum. Ekki kemur beinlínis fram í sálminum af hverju ljóðmælandinn er svo yfirmáta sorgum hlaðinn en geta má sér þess til að ástæðan sé andlát eiginmanns hennar. Nú voru raunasálmar að vísu allalgengir á þessum tíma, einnig eftir karlskáld, og alls óvíst að þeir eigi sér ætíð raunverulegar ástæður í lífi viðkomandi skálds. Margt bendir þó til þess að svo sé um raunasálm Helgu.

Handritið sem geymir raunasálm Helgu, JS 204 8vo, var skrifað á Hólum í Hjaltadal árið 1676, eða 7–8 árum eftir atburðinn, en hægt er að færa rök fyrir því að sálminn hafi hún ort miklu fyrr. Strax á eftir raunasálminum er 4 vísna kvæði sem ber yfirskriftina: „Vísur sr. Jóns Arasonar uppá fyrrskrifað efni“ og á væntanlega við raunasálminn sem er ekki einasta næstur á undan kvæðinu heldur einnig fremstur í handritinu. Sr. Jón andaðist 1673, svo kvæðin hafa a.m.k. verið ort þremur árum áður en handritið var skrifað. Í kvæði sr. Jóns ávarpar hann dóttur sína, hann talar um „grát“ hennar og „hryggð“ (1. er.) og biður þess að Jesú þerri tárin af augum hennar og, eins og segir í öftustu vísunni: „Frið gefi þér Guðs son nýtt, / glaðværra en hið fyrra strítt, / stöðvi hann þína hryggð og harm […] gefi fagnaðarár“ (undirstrikanir hér og annars staðar eru mínar). Þetta bendir til þess að kvæðin hafi verið ort kringum áramótin 1668–1669. „Stríða“ árið hefur verið árið sem hún missti manninn sinn. Í kvæðinu segir séra Jón enn fremur: „Heilagur andi harminn þinn græði, / holla gefi þér þolinmæði“ (3. er.). Síðara vísuorðið hljómar líkt og umvöndun föður sem er orðinn þreyttur á vanstillingu dóttur sinnar og gefur til kynna að sorg Helgu hafi verið óhófleg á þeirrar tíðar mælikvarða.

Svipaðar tilfinningar (eða viðhorf) má lesa út úr kvæði sem sr. Jón orti eftir þennan tengdason sinn, Teit Torfason. Af kvæðinu má skilja að hjónaband þeirra Teits og Helgu hafi grund­vallast á mikill ást og þess vegna sé neyðin mikil þegar dauðinn hefur bundið endi á það:

Neyð er þá sundur sníður
snauður hjartað dauðinn,
mann og mæta kvinnu
er mesta höfðu ást festa. (4. er.)

Hjartað er tákn fyrir hjónaband og ást Helgu og Teits og leggur um leið áherslu á einingu þeirra, þau voru eitt. Dauðinn er ásakaður fyrir að sníða það í sundur. Lesendur skynja bæði reiði út í dauðann og ásökun á hendur honum, sem eflist við næstu mynd: „helming hauðrið hylur, / hinn partur eftir kvartar“. Lesendur sjá fyrir sér ekkjuna ungu og sorg hennar en skynja þó von í lokaorðum vísunnar, þar sem Kristur er beðinn um að tengja „það“ (hjart­að) saman aftur.  Ljóðmælandi tekur þátt í sorg ekkjunnar (dóttur sinnar) í þessari vísu en að henni lokinni verða hvörf í málflutningi hans. Hann snýr sér að dóttur sinni og ávarpar hana með orð­unum „Gleddu þig, dyggðug dóttir“. Í þessari vísu eru settar fram föðurlegar fortölur. Dótturinni er sagt að skapa sér dapurlaust geð og láta af að syrgja og sýta. Hér gætir einnig nokkurrar óþolinmæði, sem bendir aftur til þess að sorg Helgu hafi verið djúp og mikil. Það er þó eins og ljóðmælandi sjái strax eftir því að hafa vandað um við dóttur sína og hann segir að endingu í hlut­tekningartón: „Sár eru ekkjutárin“. Menn áttu að hemja sorg sína. Það virðist Helga ekki hafa gert. Sá orðrómur sem hún hefur þurft að liggja undir og kemur fram bæði hjá Jóni Halldórssyni og nafna hans Ólafssyni bendir til þess, sem og kvæðið sem faðir hennar orti henni til huggunar eftir makamissi. (Síðastnefnda kvæðið, erfiljóð sr. Jóns Arasonar eftir Teit Torfason, er prentað í Þórunn Sigurðardóttir 2015:273‒274).

Birt þann 22. júní 2018
Síðast breytt 22. júní 2018
Heimildir

KBAdd 3 fol.

Lbs 175 4to

JS 204 8vo

Annálar 1400–1800 III. 1933–1938. Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag.

Jón Halldórsson. 1916–1918. Skólameistarar í Skálholti eptir séra Jón prófast Halldórsson í Hítardal og Skólameistarar á Hólum eptir séra Vigfús prófast Jónsson í Hítardal I. bd. Útg. Hannes Þorsteinsson. Sögurit XV. Reykjavík: Sögufélag.

Margrét Eggertsdóttir. 2002. „„Brúðguminn – með blómleik sinn“. Ímynd Krists og sjálfsmynd kvenna í trúarlegum kveðskap eftir siðskipti“. 2. íslenska söguþingið 30. maí – 1. júní 2002. Ráðstefnurit I. bd. Ritstj. Erla Hulda Halldórs­dóttir, 386–393. Reykjavík: Sagnfræðistofnun Háskóla Íslands, Sagnfræðingafélag Íslands og Sögu­félag.

Þórunn Sigurðardóttir. 2015. Heiður og huggun. Erfiljóð, harmljóð og huggunarkvæði á 17. öld. Reykjavík: Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.