Skip to main content

Pistlar

Sagan af þverlyndu Þórdísi

Helga Jóhannsdóttir tónlistarfræðingur, f. 28.12 1935 d. 3.6. 2006. Hjónin Helga og Jón Samsonarson hljóðrituðu mikið efni á vegum Árnastofnunar og Ríkisútvarpsins, að mestu á árunum 1963–1973. Sagan er ein af mörgum sögum sem varðveittar eru í þjóðfræðisafni Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Hún var hljóðrituð á Berunesi í Berufirði, Suður-Múlasýslu þann 10. september 1969 af Helgu Jóhannsdóttur og er skrifuð hér upp orðrétt. Sagan er töluvert óvenjuleg miðað við aðrar slíkar sögur af jólagestum, en um þær má fræðast í greininni „Komi þeir sem koma vilja ...“ eftir Terry Gunnell, sem birtist í bókinni Úr manna minnum 2002.

 

Sigríður Sigurðardóttir (1905–1993) húsfreyja á Berunesi segir frá:

    Það voru einu sinni hjón á bæ, þau áttu eina dóttur sem hét Þórdís. Hún var óskaplega þver og svona ... og, og, og fólkinu fannst hún hálfleiðinleg og þess vegna var hún kölluð þverlynda Þórdís. Það var alltaf siður í þá daga að fara til aftansöngs og, og sú manneskja sem varð eftir heima, til að gæta bæjarins, hún var venjulega annað hvort, annað hvort rugluð eða dauð þegar að fólkið kom heim aftur. Og það voru fáir sem vildu verða til þess að, að passa bæinn. Einu sinni rétt fyrir jól kemur Þórdís að máli við fólkið og segir að það skuli nú ekki kvíða því að, að, að það eigi nein að verða heima, nein stúlkan að verða heima um jólin því hún segist ætla að verða þar. Það segir að það komi nú ekki til mála, henni verði nú ekki leyft það að verða heima, foreldrar hennar vilji það ekki. „Ja, það stendur nú við það sem ég segi,“ segir Þórdís.

    Svo þegar að, að komið er að aðfangadagskvöldi þá fer nú fólkið að búa sig til aftansöngs. En Þórdís býr sig ekki og segir foreldrum sínum að nú ætli hún að vera heima. Og það varð úr að hún varð heima. Svo tekur hún sig til og sópar og prýðir bæinn eins og hún getur þegar að fólkið er farið, fer svo með ... tekur svo sálmabókina sína, fer upp í rúm og leggst þar fyrir. En breiðir ekki alveg oná sig, hún sér svona svolítið undan sænginni. Þá heyrir hún að það er gengið um bæjardyrnar, komið inn göngin og upp stigann. Fyrst kemur ungur maður og hann ber borð. Svo kemur gamall maður og hann ber stóla. Svo kemur ... síðast kemur gömul kona og hún er með böggul. Nú fer fólkið að taka upp böggulinn og þá kemur ... koma fram allslags kræsingar, sér hún. Og það lætur það á borðið, gamla konan breiddi fyrst hvítan dúk á borðið og svo fer það að raða matföngunum á borðið og sest svo í kring og fer að borða. En borðið stóð það nálægt rúmi Þórdísar að pilturinn, hann gat alltaf látið svolítinn bita af hverjum rétt á sængina til hennar og sagði: „Þér er óhætt að borða þetta, Þórdís mín.“ Svo þegar að, að það er farið að líða að, undir morgun þá fer ... fara þau nú að búa sig á stað, fjölskyldan. Og þegar að, að þau eru búin að taka dótið sitt saman þá segir pilturinn: „Manstu eftir því sem þú varst búin að lofa mér, móðir mín?“

    „Æ, oft hef ég nú sagt þér það, sonur minn, að þú átt ekki að vera að hugsa um hana þverlyndu Þórdísi.“ Samt tekur hún svolítinn pakka og fær honum og hann tekur við honum og leggur hann á, leggur hann oná sængina til Þórdísar og segir: „Taktu við þessu, Þórdís mín, og eigðu það.“ Svo fara þau öll. Fyrst fer gamli maðurinn með stólana, gamla konan með pakkann og hann síðast með borðið. Og um leið og hann fer ofan af loftsskörinni þá segir hann: „Vertu sæl, Þórdís mín.“

    Nú þegar að fólkið er farið þá fer hún nú að klæða sig og lítur, lítur svo á, í pakkann og sér að er afarfallegur höfuðbúnaður í pakkanum, koffur með ljómandi fallegum steinum í. Hún tekur frá, gengur frá þessu niðri í kistu sinni og svo ... er búin að því þegar fólkið kemur og lætur svo sem ekkert hafi að sér verið. Nú eru foreldrar hennar voðalega lukkuleg yfir því að hitta hana nú samt svona.

    Svo nú líður að næstu jólum og það fer alveg á sömu leið, Þórdís segist verða heima. Og hún er það, hún sópar og, og lagar til í bænum og leggst svo fyrir með sálmabókina sína eins og fyrri jól, en hefur svolítið gat eða svolitla rifu sem hún getur séð hvað gerist – inni. Þá segir ... þá sér hún hvar þau koma, þessi þrjú. Fyrst kemur hann með borðið, pilturinn, svo kemur gamli maðurinn með stólana og konan með pakkann. Og það fer alveg hreint eins og hin fyrri jólin, þau taka upp matvælin og borða og hann leggur bita alltaf á sængina til Þórdísar og segir að henni sé alveg óhætt að, að fá sér bita. Svo þegar þau eru að fara þá tekur hann ... þá segir hann við mömmu sína: „Manstu hvað þú varst búin að lofa mér, móðir mín?“

    „Oft hef ég sagt þér það, drengur minn, að vera ekki alltaf að hugsa um hana þverlyndu Þórdísi.“ Svo tekur hún upp pakka, fær honum, hann leggur hann á rúmið og segir: „Eigðu þetta, Þórdís mín.“

    Hún bærði aldrei neitt á sér svo að, svo að hann vissi nú náttúrlega ekki hvort hún heyrði til sín eða ekki, en hann hefur náttúrlega búist við því að hún hefði fulla heyrn. Svo fara þau en hann fer síðastur og segir: „Vertu sæl, Þórdís mín.“

    Það er nú ekki að orðlengja það að fólkið er afskaplega ánægt þegar að, þegar það kemur heim og sér hana hressa og glaða. En hún gengur frá pakka, pakka sínum, en kíkir nú í hann og sér að það er skautbúningur, afar fallegur íslenskur skautbúningur í pakkanum. Nú líður og bíður og það ber nú ekkert sérstakt til tíðinda, það líður ... koma þriðju jólin. Og það fer allt á sömu leið, hún er heima, hún gengur frá öllu innanhúss og leggst svo fyrir og fer að, fer að lesa í bók sinni og þá heyrir hún umganginn og þá koma þessi þrjú eins og vant var og setjast svo að snæðingi og þau láta ... þarna, hann lætur bita alltaf til Þórdísar og, og segir henni að hún skuli ... að henni sé óhætt að borða. Svo þegar að þau eru að fara á stað aftur þá segir hann: „Manstu nú eftir hvað þú, hvurju þú lofaðir mér, móðir mín?“

    „Oft hef ég sagt þér það, sonur minn, að vera ekki alltaf að hugsa um hana þverlyndu Þórdísi.“ En fær henni svolítinn pakka sem hann lætur á, á rúmið til hennar og segir: „Eigðu þetta, Þórdís mín.“ Svo fara þau á stað en hann er síðastur og segir um leið og hann fer niður: „Ég vona að þú takir vel á móti mér þegar ég kem í sumar.“ Svo fer hún að líta í pakkann þegar það er farið og þá er gullhringur í pakkanum. Og fólkið, þegar fólkið kemur heim þá er hún nú alveg eins og hún er vön, glöð og ánægð og, og segir alltaf þetta sama, að það hafi ekkert borið fyrir sig, hún hafi aldrei séð neitt. Svo líður og bíður og nú kemur slátturinn og í dag þá er hún úti á engjum að raka. Þá sjá þau að það koma tveir menn gangandi. Það er fullorðinn maður og ungur maður. Og hún þekkir það strax, Þórdís, að þetta er feðgarnir sem að höfðu komið til hennar á jólanóttina eða verið þar. Hún ... og þegar ... þeir fara beina leið til föður hennar og þar ... þegar þeir eru búnir að heilsa honum þá spurja þeir hvort að hann vilji gefa ... eða ungi maðurinn spyr hvort að hann vilji gefa sér dóttir sína. „Ja, spurð þú hana um það því það ræður enginn við það sem hún þverlynda Þórdís tekur fyrir,“ segir bóndi. Þá fer hann til Þórdísar og spyr hana þessu sama, hvort að hún vilji verða konan sín. Ja, hún segir ekkert en labbar heim. Eftir svolitla stund þá kemur hún aftur og kemur í skautbúningnum með hringinn á hendinni, gjöf frá honum og, og það, það, þau halda, hún kveður foreldra sína og svo halda þau á stað. En þegar þau eru komin upp fyrir túnið þá varð ekkert vart við þau meira. Þá tók, þá sá fólkið ekkert hvað ... til ferða þeirra eftir það.

    Svo líður og bíður. Það líður heilt ár. Þá, eitt kvöld þá er mamma hennar vakin upp og hún beðin um að koma út. Og þegar hún kemur út þá, þá stendur ungi maðurinn sem hún hafði séð um sumarið fyrir utan dyrnar og biður hana um að koma með sér. Og hún gerir það og þegar þau eru komin út fyrir túngarðinn þá sá hún ekkert því þá var svo mikil þoka. En rétt á eftir koma þau að litlu húsi og hún gengur inn í það og þá liggur dóttir hennar þar og er að, að fæða barn. Hún hjálpar henni eftir bestu föngum og, og spyr hana að því hvurnin henni líði. Hún segir að sér líði ágætlega, hún segist eiga góðan mann og gott heimili. Þetta sé nú fyrsta barnið sitt en hún segist vonast til þess að hún megi leita til hennar ef að það komi fyrir að hún eigi þau fleiri. Og svo er ekki að orðlengja það að hún er þarna hjá henni í þrjú skipti og er óskapleg ánægð með ... hún veit hvurnin, hvurnin henni ... að henni líður vel. [Hvíslar: Og ég man þetta ekki meira.] Og það bara þetta að ... en hún sást aldrei í mannabyggðum eftir þetta, heldur átti hún alltaf að hafa verið með, með sko huldufólki. Því auðvitað var þetta huldufólk sem ...

 

Hér er hægt að hlusta á upptökuna með Sigríði segja söguna af henni þverlyndu Þórdísi

Birt þann 22. júní 2018
Síðast breytt 22. júní 2018