Birtist upphaflega í nóvember 2008.
Bær í Hörgárdal í Eyjafjarðarsýslu heitir Myrká eftir samnefndri á. Bærinn er alþekktur úr þjóðsögunni um djáknann á Myrká, sem birtist í þjóðsagnasafni Jóns Árnasonar (I:270–272 (1961)). Myrká fellur eftir Myrkárdal sem gengur vestur úr Hörgárdal. Áin hefur grafið sér mjög djúpt gil fyrir neðan bæinn Myrkárdal, þar sem hún fer að beygja til suðurs, áður en hún fellur í Hörgá. Forn munnmæli segja að svo mikill skógur hafi verið í börmum gilsins báðum megin, að dimmt hafi verið niðri í gilinu og af því eigi áin að hafa fengið nafn sitt (Örnefnaskrá Myrkárdals). Árið 1937 þegar Ármann Hansson bóndi á Myrká skrifaði lýsingu jarðarinnar var skógur þessi að mestu eyddur, en þó voru nokkrar menjar hans norðan megin í gilinu. Búið var á Myrká á landnámsöld, er Þórólfur hinn sterki Skólmsson bjó þar (Byggðir Eyjafjarðar 1990, 462). Árnafnið og bæjarnafnið er því gamalt.
Djákninn á Myrká. Málverk eftir Ásgrím Jónsson.
Önnur Myrká er í landi Desjarmýrar í Borgarfirði eystra. Hún kemur úr djúpu gili er myndast í stórri hvilft milli Partafjalls, Hvítuhnjúka og Setbergshnauss er kallast Hvolf. Þriðja Myrká er í landi Ystaskála undir Eyjafjöllum. Hún rennur um Myrkárgil og er önnur upptakaá Írár. Engin skýring er gefin á nafninu í örnefnaskrá.
Mörg örnefni hafa Myrk(a)- að forlið. Má þar nefna Myrk(v)avatn eða Myrkárvatn í nágrenni Þingvalla og Öxará rennur úr, Myrkholt á Kjóastöðum í Biskupstungum og Myrk(v)astofu á Hemru á Síðu, V-Skaft., sérkennilegt, draugalegt gljúfur, Myrkhyl á Bretalæk í V-Hún., Laxárdal í Gnúpverjahreppi, Árn., Iðunnarstöðum í Lundarreykjadal, Borg., Síðumúla í Hvítársíðu, Mýr., djúpur og dimmur og í Hörgsholti, Hrunamannahreppi, Árn., Myrkagil á Sandi í Kjós, Myrkás í Álftártungukoti í Mýr. og í Stafholtstungum, Mýr. Myrkvidalur er í Álftafirði í S-Múl., Myrkvaskarð á Háheiði upp af Sæmundarhlíð í Skag. og Myrkvikimi í Hvítársíðu. Einnig má nefna að Myrkviður er í Næfurholtsfjöllum í Rang.
Myrkur- er forliður örnefna eins og Myrku(r)björg, sem eru hluti Nesbjarga í Vesturhópi, V-Hún., Myrkurskurður í Neðri-Vífilsdal í Hörðudal, Dal. og Myrkurtjörn í Miðdal í Mosfellssveit.
Í Svíþjóð er til örnefnið Mörkö í Södermanland, nafn á eyju sem hefur borið nafnið *Myrk(i)a í fornsænsku. Giskað hefur verið á að nafnið sé til komið við samanburð á hinu lokaða eylandi og opnu hafinu í kringum það. (SOL, bls. 219).
Í Noregi hef ég ekki fundið Myrk(a)-örnefni nema í samísku örnefni þar sem murkkos merkir 'þoka‘, sbr. mjörki í færeysku sem er sömu merkingar.
Vafalítið er Myrk(u)-örnefnin dregin af dökkum lit eða dimmu. Myrkárnar eru bergvatnsár en ekki jökullitaðar, og Myrkhyljir djúpir og dökkir. Þau eru ekki tengd þjóðtrú eða þjóðsögum nema Myrká í Hörgárdal, en nafnið vekur e.t.v. upp óttablandna tilfinningu vegna þjóðsögunnar um djáknann og Garúnu. Það er því ekki út í hött að Arnaldur Indriðason hefur valið nýjustu glæpasögu sinni þetta nafn, Myrká.
Síðast breytt 24. október 2023