Skip to main content

Pistlar

Margrétar saga AM 431 12mo

Handritið AM 431 12mo er skinnhandrit, aðeins 119 x 90 mm að stærð. Það geymir Margrétar sögu sem er þýdd saga um píslarvottinn heilaga Margréti. Sagan segir frá hinni ungu og fögru Margréti frá Antíokkíu. Ung að aldri tók hún kristna trú en faðir hennar var heiðinn. Þegar hún er orðin gjafvaxta kemur heiðinn greifi auga á hana og vill eignast hana fyrir konu eða frillu. Margrét hafnar honum og greifinn lætur handtaka hana í reiði sinni. Þrátt fyrir fortölur og píslir vill hún hvorki þýðast greifann né blóta heiðin goð. Þegar Margrét er fangi í myrkvastofu kemur þangað dreki. Hann gleypir hana en vegna heilagleika hennar sleppur hún lifandi og ósködduð í kviði hans.

Heilög Margrét var verndardýrlingur kvenna í barnsnauð og hefur drekasögnin líklega verið kveikjan að því hlutverki. Þannig áttu börn að komast heilbrigð og lifandi úr móðurkviði eins og Margrét úr kviði drekans. Í sögulok er Margrét líflátin. Skömmu áður fer hún með bæn þar sem meðal annars segir: „Enn bið eg, drottinn, sá er ritar píslarsögu mína eða kaupir þá bók, fylltu þá af helgum anda. Og í því hýsi er bók sú er inni, verði þar eigi fætt dautt barn né lama.”

Í handritinu er einnig að finna bænir og töfraformúlur. Þar er alkunn töfraformúla, SATOR AREPO TENET OPERA ROTAS sem á að lesa þrisvar yfir lendum konunnar og gera þrjú krossmörk í hvert sinn. Þar á eftir fylgir bæn sem kölluð hefur verið „góða bænin” eða bæn heilags Leonardus, en algengt var víða að heita á hann við barnsburð. Á eftir bæninni kemur ný fyrirsögn „Kvenna lausn” en þar eru leiðbeiningar um notkun bókarinnar, óljósar þó. Af þeim má ráða að bókin, eða hluti hennar, hafi verið bundinn við hægra læri konunnar. Fleiri handrit í litlu broti með Margrétar sögu og skyldu efni hafa varðveist og væntanlega verið notuð á sama hátt og AM  431 12mo.

Á öftustu blaðsíðu handritsins stendur:

Lengi hefur þú skrifað þessa sögu, Jón strákur Arason. Ekki má þetta skrif heita, það er mismæli fyrir mig, heldur er þetta krabb og illa krabbað. Biðjið sem áður fyrir Jóni Arasyni, þeir sem söguna lesa. Geymi oss guð öll saman og jungfrú sacnta María mín að ílífu. Amen.

Strákurinn Jón Arason mun ekki vera biskupinn heldur vestfirskur samtíðarmaður hans. Þeir bræður Jón og Tómas Arasynir ásamt Ara Jónssyni föður þeirra voru afkastamiklir skrifarar. Ari lögmaður Jónsson, sonur biskups, er þó talinn hafa skrifað eitt Margrétarsöguhandrit, AM 433 c 12mo.

Handritið var skrifað á Íslandi á fyrri hluta sextándu aldar. Árni Magnússon fékk það frá Gísla Jónssyni á Völlum og Stofnun Árna Magnússonar tók við því 24. apríl 1992.


 

Helstu heimildir:
Ásdís Egilsdóttir. St Margaret, Patroness of Childbirth. Mythological Women. Strudies in Memory of Lotte Motz (1922–1997). Ritstj. Rudolf Simek og Wilhelm Heizmann. Studia Medievalia Septentrionalia 7. Wien, Fassbaender, 2002, s. 319–330.
Ásdís Egilsdóttir. Drekar, slöngur og heilög Margrét. Heiðin minni. Greinar um fornar bókmenntir. Ritstjórar Haraldur Bessason og Baldur Hafstað. Heimskringla, háskólaforlag Máls og menningar, Rv. 1999, 241–256.
Jón Steffensen. Margrétar saga og ferill hennar á Íslandi. Menning og meinsemdir. Reykjavík 1975, s. 208–215.
Stefán Karlsson. Kvennahandrit í karlahöndum. Stafkrókar. Ritgerðir eftir Stefán Karlsson, gefnar úr í tilefni af sjötugsafmæli hans 2. desember 1998. Reykjavík, Stofnun Árna Magnússonar á Íslandi 2000, s. 378–382.

Birt þann 19. júní 2018
Síðast breytt 19. júní 2018