Skip to main content

Pistlar

Kvennabrekka

Birtist upphaflega í október 2017.

Í tilefni afmælisdags Árna Magnússonar (13. nóvember) er örnefni mánaðarins Kvennabrekka í Miðdölum. Árni fæddist á Kvennabrekku árið 1663 en faðir hans, séra Magnús Jónsson, var prestur þar og móðir hans, Guðrún Ketilsdóttir, dóttir séra Ketils Jörundssonar í Hvammi í Dalasýslu sem var fornt höfðingjasetur og landnámsjörð.

Kvennabrekku í Náhlíð er getið í Sturlunga sögu (í Þorgils sögu ok Hafliða og í Íslendinga sögu) en einnig í Króka-Refs sögu sem talin er vera frá öðrum fjórðungi 14. aldar (Íslenzk fornrit XIV, bls. xxxvii). Í henni er sagt frá kolbítnum Króka-Refi sem fæddist þar á dögum Hákonar konungs Aðalsteinsfóstra. Hann var sonur bóndans Steins og Þorgerðar, systur Gests Oddleifssonar í Haga á Barðaströnd. Fá íslensk örnefni koma fyrir í Króka-Refs sögu en í upphafi hennar er lýst deilu á milli búenda á Kvennabrekku og Sauðafelli, þegar kvikfé Þorbjarnar var beitt í óleyfi á Kvennabrekkulandið. 

Kvennabrekka var kirkjustaður og prestsetur. Fyrst er getið um prest á Kvennabrekku (Eyjólf Halldórsson) í skrifuðum heimildum árið 1284 (Árna saga biskups, Íslensk fornrit XVII, bls. 119). Nokkrir máldagar hafa varðveist frá miðöldum (frá 14., 15. og 16. öld) en í þeim er kirkjan ýmist kölluð Maríukirkja eða Jónskirkja, eða hvor tveggja (Dipl. Isl. III, bls. 100, 305–306; Dipl. Isl. IV, bls. 163; Dipl. Isl. VII, bls. 67–68, Dipl. Isl. XV, bls. 598–599).

Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns stendur að Kvennabrekka sé kirkjustaður og beneficium, jarðardýrleiki óviss, en „fyrir nokkrum árum hefur jörðin verið virt xx c.“ (Jarðabók VI, bls. 40). Samkvæmt Jarðabókinni var kvikfénaður jarðarinnar sex kýr, fjórar kvígur, tvö ungneyti, einn kálfur, 40 ær, tólf sauðir geldir, sjö veturgamlir, fimm lömb, sjö hestar, þrjú hross, og heimilismenn voru tólf. Silungsveiði, sem var lítil til forna, var þá engin. Lýsing jarðar og landnytja er þannig: „Túnið blæs upp og spillist smámsaman af stórviðrum á veturnar, og er víða kalið. Engjar þær mýrlendu spillast af vatnsrás og aurskriðum úr lækjum, og tapa sumstaðar grasvexti, en þær þuru hefur áin, sem hjá rennur, sumar brotið árlega, og eru orðnar að mestu leyti ónýtar. Hagar blása upp smámsaman. Selför er mjög erfið og lángt til að sækja. Eldivið til selsins þarf allan til að kaupa. Eldiviðartak heima er móskurður og hann mjög slæmur. Kolaskóg allan þarf til að kaupa. Þar er troðníngur af ferðafólki til stórs skaða“ (Jarðabók VI, bls. 40).

Svo má nefna að í Ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar er þess getið að á Kvennbrekku vaxi fjólur (viola tricolor), ein þeirra sjaldgæfu jurta sem finnist í Dalasýslu (1. bindi, bls. 251).

Í örnefnaskrá fyrir Kvennabrekku stendur um nafnið: „[E]kki er fullkunnugt af hverju bærinn dregur nafnið en sögn er um það að á fyrri tíð hafi ungir menn iðkað íþróttir vestur á túninu, voru þar sléttir kringlóttir blettir umgirtir garði (leikvellir) en konur hafi setið í brekkunni fyrir ofan og horft á og bærinn hafi þaðan nafnið.“ Í pistli Svavars Sigmundssonar um örnefni kennd við konur kemur fram að örnefnið Kvennabrekka komi fyrir víðar á landinu: „Örnefnið kemur fyrir á þremur öðrum stöðum á landinu, í landi Kálfaness í Strand., þar sem konur á Hólmavík héldu útiveislu í sambandi við Alþingishátíðina 1930; útiskemma á Víkingavatni í N-Þing. og brekkan ofan við bæinn í Ytri-Skógum í Rang., áður nefnd Bjallabrekka (Örnefnaskrár)“ (http://www.arnastofnun.is/page/ornefnapistlar_kvenna).

Meðal annarra örnefna sem getið er í örnefnaskrá Kvennabrekku er Blóthóll, sem er utan túns. Þetta nafn hefur vakið athygli og Kristian Kålund segir að örnefnið „lætur menn gruna að þar hafi verið forðum verið hof“ (Íslenzkir sögustaðir II. Vestfirðinga-fjórðungur, bls. 96, sjá einnig Safn til sögu Íslands II, bls. 567).

Uppdrátt af túnakorti fyrir Kvennabrekku (mælt árið 1919) má skoða hér: http://manntal.is/myndir/Tunakort/Dalasysla/Middalshreppur/Vefmyndir/Middalshreppur00019.jpg

Birt þann 20. júní 2018
Síðast breytt 24. október 2023