Heilagur Georg vegur drekann og bjargar prinsessunni Kleodolindu frá því að vera kastað fyrir hann. Úr Teiknibókinni. Stækka má myndina með því að smella á hana. Meðal kostagripa í Árnasafni er merk skinnbók með löngu safnmarki (AM 673 a III 4to). Þetta er Teiknibókin svonefnda, safn fyrirmynda sem listamenn nýttu við gerð listaverka á borð við handritalýsingar og málaðar kirkjumyndir, jafnvel útskurð eða silfursmíð. 21 skinnblað er varðveitt auk snifsis af blaði 22, alls 44 síður. Á hverri síðu eru pennateikningar, flestar af kristilegum toga og lýsa meðal annars sköpunarsögunni, lífi Maríu, æsku Krists og píslarsögunni, en einnig eru stakar dýrlingamyndir. Fáeinar myndanna hafa verið litaðar síðar. Skinnblöðin eru afar illa farin, víða morkin og götótt, og erfitt að greina allar línur eða drætti sumra mynda og stafa.
Teiknibókin er fágæti, sú eina sinnar tegundar sem varðveitt er á Norðurlöndum og í hópi fárra tuga miðaldateiknibóka í Evrópu. Í trúfræði kaþólskrar miðaldakirkju ríkti fastmótað tákn- og myndkerfi, bæði í orðum og myndum, sem þurfti að fylgja til að rétt merking skilaði sér til safnaðarins, læsra jafnt sem ólæsra. Listlærlingar námu ekki aðeins tækni listsköpunar heldur fengu líka leiðsögn um myndefni og minni úr kristnum táknheimi. Þá kom safn fyrirmynda að góðum notum og í raun var safn fyrirmynda jafn nauðsynlegt fyrir listamenn og verkfæri og litir.
Teiknibækur bárust frá einum listamanni til annars, eins og listkunnáttan, og slitnuðu eflaust í tímans rás. Myndin sem hér fylgir sýnir glögglega tilgang fyrirmyndabóka.
Krýndur konungur situr með veldisepli í hendi en hin er tóm, við stendur skrifað: „Kalla hann hvað þú vilt og fá honum það í höndina sem hann skal verja sig með.“ Helgir konungar og aðrir dýrlingar höfðu helgitákn sem þeir þekktust af.
Teiknibókin var lengi tímasett af varkárni, talin gerð að mestu á 15. öld fyrir utan stöku blöð sem hefði verið bætt við á 16. öld. Rannsóknir Guðbjargar Kristjánsdóttur listfræðings hafa leitt í ljós að fjórir listamenn söfnuðu fyrirmyndum í bókina á ríflega 150 ára tímabili, frá um 1330 til 1500. Fyrsti teiknarinn (A) starfaði á árunum 1330–60, honum eru eignaðar myndir á 16 síðum, en næsti teiknari (B) á myndir á tveimur varðveittum síðum. Hinn aðalteiknarinn (C) var að störfum ríflega öld síðar, um 1450–75, og telst höfundur mynda á 22 síðum. Sá síðasti (D) jók enn frekar við bókina á starfsárum sínum, um aldamótin 1500.
A-teiknarinn virðist einnig hafa gert krossfestingarmynd í ártíðaskrá framan við grallara (AM 249 e fol.) og mynd á stöku blaði úr grallara (AM Dipl. Isl. Fasc. V 12) en náskyldar verkum hans eru mynd á saltarabroti sem varðveitt er í Svíþjóð, og mynd af Jósúaí AM 227 fol. Lýsingar þessara handrita eiga sennilega rætur að rekja til sömu bókagerðarmiðstöðvar, þar sem nokkir listamenn hafa starfað samtímis, og þykir Þingeyraklaustur líklegast. Blöðin úr elsta hluta Teiknibókar eru e.t.v. leifar af safni fyrirmynda sem var þar í kaþólskri tíð, en bókin var notuð áfram eftir siðbreytingu, allt fram undir það að Árni Magnússon eignaðist hana, um eða upp úr 1700.
Árni fékk Teiknibókina úr Svarfaðardal þar sem hún hafði verið um hríð en jafnframt fylgdi sögunni að þangað hefði hún borist af Vestfjörðum. Með henni fylgdu myndskreytt blöð úr Physiologus, grísku náttúrufræðiriti sem var snemma þýtt á latínu og fjölmargar þjóðtungur. Physiologusblöðin, frá um 1200, höfðu áður verið hluti af handriti sem einnig geymdi Plácítusdrápu en voru eflaust sett með Teiknibókinni vegna myndanna. Vitað er að fyrirmyndir úr Teiknibók og Physiologus voru notaðar fáum áratugum áður en Árni fékk handritsbrotin í safn sitt. Enda þótt Árni héldi uppi fyrirspurnum, bæði fyrir norðan og vestan, fannst ekki meira úr Teiknibókinni. Stofnun Árna Magnússonar fékk Teiknibókina til varðveislu 2. júní 1991.
Sýning á öllum fyrirmyndum bókarinnar með útskýringum auk eftirgerða á skinni af nokkrum blöðum handritsins stendur nú yfir í Flóa á fyrstu hæð Hörpu. Sýningin er á ensku og höfðar því ekki síst til ferðamanna. Sýningarstjóri er Guðbjörg Kristjánsdóttir listfræðingur sem hefur rannsakað Íslensku teiknibókina um áratuga skeið.
Sýningin er opin frá 10–18 alla daga en henni lýkur þann 15. ágúst. Aðgangseyrir er 1500 kr.
Síðast breytt 25. júní 2018