Skip to main content

Hnit-örnefni

Birtist upphaflega í desember 2006.

Áberandi kollóttur hnjúkur austan Jökulsár á Brú, á mótum hennar og Desjarár, norðan Kárahnjúka, er ýmist nefndur Hnitieða Hnitahnjúkur. Norður af honum er Hnitasporður sem er úr dökku og gjallkenndu bergi, að sögn Helga Hallgrímssonar (Gengið með Gljúfrunum miklu. (2001). Helgi lýsir sporðinum með þessum orðum: „Sporðurinn er flatur að ofan, gróinn yst, en annars melar, og fer jafnt hækkandi til suðurs. Við syðri gilsendann er hann næstum slitinn sundur af skriðum beggja vegna, og er þar aðeins eftir um 2–4 m breitt stykki af fletinum á um 10–20 m kafla. Þykir mörgum ægilegt að fara um þá „brú“, en þó er þarna hestagata sæmileg og hættulaus ef menn svimar ekki. (Kannski er þetta „hnitinn“, sem sporðurinn er kenndur við)“ (bls. 23). Helgi tekur einnig fram að orðið hnit hafi ýmsar merkingar, ‘árekstur’, ‘mið’ eða ‘sigti’, einnig ‘þverhnípi’ sbr. Hnitbjörg. Pálmi Hannesson notaði hnitbjarg sem samnafn (Frá óbyggðum (1958), bls. 147 og 234). Nafnið Hnitbjörg var haft um bústað Suttungs jötuns í Snorra-Eddu. Merking þess er einmitt talin vera 'lóðrétt, þverhnípt berg'.

Hnitbjörg eru a.m.k. 7 talsins í landinu: 1) Gljúfurklettar á Kjarardal í Borg. (Árbók Ferðafélags Íslands 2004:38, 234). 2) „Hnitbjörg heita gljúfur þau, sem eru að ánni á kafla, frá Neðsta-Rangagili fram að Víghól. Hnitbjarga er getið í Landnámu sem landnámstakmarka norðan ár.“ (Örnefnaskrá Síðumúla í Hvítársíðu; sbr. Landnámabók, Íslenzk fornrit (1968) I: 84; í Hauksbók stendur Nitbjarga og í sumum handritum Hvítbjarga). 3) Býli í Hólmavíkurhr. í Strand., byggt úr landi Víðidalsár. 4)Hús með íbúðum aldraðra á Blönduósi í A-Hún. 5) Félagsheimili á Raufarhöfn. 6) Bær (afbýli) í Hlíðarhr. í N-Múl. (Múlasýslur. Sýslu- og sóknalýsingar (2000), bls. 177). 7) Fell í Kerlingardalsheiði í V-Skaft. Það er nefnt Heiðbjörg í sóknalýsingu 1840, en einnig nefnt Hneiðbjörg eða Hniðbjörg (Einar Ól. Sveinsson, Landnám í Skaftafellsþingi (1948), bls. 145 og 196, og Skaftafellssýsla. Sýslu- og sóknalýsingar (1997), bls. 230). 8) Hús Listasafns Einars Jónssonar í Reykjavík.

Spurningin er hvort örnefnið Nítuhnjúkur í Ólafsfirði (955 m), norðaustan við Kálfsárdal á skylt við Hnit-örnefnin. (Árbók Ferðafélags Íslands 1990:48).

Í suðvestur frá Skarfakletti í landi Vogs í Hraunhreppi á Mýrum eru þrjú sker, er heita Nitur eða Hnitur „vegna þess að sjórinn hnitar þar, sbr. „sölin eru orðin hneitt“, þ. e. þegar þau þorna, verða þau myglugrá á litinn, en sæt á bragðið.“ (Örnefnaskrá).

Orðið hnit getur einnig merkt ‘fleygur, t.d. í hrífuhaus’ (Ásgeir Bl. Magnússon, Íslensk orðsifjabók (1989), bls. 349). Í færeysku er orðið nit eða niti haft um hluta úr laup, þ.e. 'oki sum botnurin liggur niður á’ eða ‘tappur á leypsrim (ið gongur inn í stuðul)’ en einnig í merkingunni ‘bithorn’ sem er á íslensku ‘oddur á bor’ (Föroysk orðabók (1998), bls. 825). Eitthvað þessu líkt gæti hniti þýtt á íslensku, e-ð oddmyndað, e.t.v. nafar.

Birt þann 20.06.2018