Birtist upphaflega í október 2002.
A.m.k. 9 Helgafell eru á landinu:
1) Fjall (340 m) í suðaustur frá Hafnarfirði, klettótt og bratt á flesta vegu.
2) Fjall (217 m) sunnan Mosfellsdals í Mosfellssveit.
3) Lágt fjall (73 m) á Þórsnesi á Snæfellsnesi, ávalt að sunnan og vestan en mjög þverhnípt að norðan og austan, fagurt að lögun. Þórólfur Mostrarskegg hafði mikinn átrúnað á fjallinu, skv. Landnámabók.Uppi á fjallinu er lítil tóft úr grjóti sem sagt er að sé kapellurúst munka í Helgafellsklaustri.
4) Hátt fjall (549 m) innan við Hafnardal, yst í Dýrafirði. Munnmæli eru um að Guðmundur biskup góði Arason hafi reist altari uppi á fjallinu og er þar sýnileg mosagróin steinhleðsla. Í hugum fólks á þeim slóðum var fjallið helgistaður.
5) Hátt fell (297 m) í landi Stóru-Hvalsár í Hrútafirði. Þaðan er víðsýnt.
6) Fjall(460 m) í Þistilfjarðarfjallgarði, hæsti hluti hans, austan Öxarfjarðarheiðar.
7) Fjall (227 m) í Vestmannaeyjum. Þaðan er gott útsýni yfir eyjarnar.
8) Hæsti hnúkur Árgilsstaðafjalls í Rangárvallasýslu. Þaðan er mjög víðsýnt.
9) Hár hóll í landi Heiðar á Rangárvöllum.
Helgafellin eru oft regluleg að lögun. Af þeim er oft gott útsýni vegna þess að þau standa sér og eru allhá. Af einhverjum ástæðum hefur helgi verið talin á þeim sumum hverjum.
Örnefni með Helga- eða Helgu- að fyrra lið geta einnig verið dregin af mannanöfnunum Helgi og Helga. Bæirnir Helgafell í Svarfaðardal og í Fellum eru t.d. kenndir við menn að nafni Helgi og þar eru ekki fjöll sem heita Helgafell. Helgufell er á hálendinu milli Dala og Borgarfjarðar og annað sunnarlega á Auðkúluheiði í A-Hún.
Síðast breytt 24. október 2023