Skip to main content

Fröken Ingibjörg Ólafsson erindreki

Fröken Ingibjörg Ólafsson (1886–1962). Frægasti kvenkyns erindreki íslenskur held ég hljóti að vera Amma dreki sú sem Guðrún Helgadóttir skóp handa tvíburunum Jóni Oddi og Jóni Bjarna. Hún hélt fast fram skoðunum sínum enda hefur konum sjaldan dugað að slá úr og í, ef þær vilja að á þær sé hlustað. Fyrir rúmum hundrað árum gustaði talsvert um annan erindreka á Íslandi, fröken Ingibjörgu Ólafsson — unga konu sem sagði landsmönnum til syndanna tæpitungulaust. Hún bjó síðar mestmegnis erlendis og starfaði þar í þágu kristilegra hugsjóna sinna en feril þessarar óvenjulegu konu væri sannarlega vert að rannsaka til hlítar.

          Hún hét fullu nafni Ingibjörg Ósk Jónsdóttir Ólafsson, fædd á Másstöðum í Vatnsdal 7. september 1886. Foreldrar hennar skildu þegar hún var barn en hún braust til mennta með góðra kvenna hjálp; gekk í Gagnfræðaskólann á Akureyri og Kvennaskólann í Reykjavík þar sem hún bjó hjá frú Ragnhildi Briem, systur Torfhildar Hólm rithöfundar en Torfhildur hafði mikil áhrif á hina ungu stúlku sem og Ólafía Jóhannsdóttir. Ingibjörg fór svo til Danmerkur og gekk þar á lýðháskólana í  Askov og Vallekilde og seinna í Kennaraháskólann í Kaupmannahöfn.

          Eftir nokkurra ára dvöl utanlands kom hún heim og gerðist framkvæmdastjóri KFUK í Reykjavík 1910, en dvöl hennar hér endaði með hvelli tveimur árum síðar þegar hún gaf út bæklinginn Nokkur orð um siðferðisástandið á Íslandi sem hefst á þessum orðum: „Siðferðiskröfur manna hér á landi hafa aldrei verið háar. Íslendingasögurnar sýna, að forfeður okkar hafa ekki allskostar verið til fyrirmyndar í þeim efnum.“ Ingibjörg rekur síðan siðferðisástandið gegnum tíðina, ekki síst með hliðsjón af bókmenntunum; riddarasögur og rímur fá þar ekki háa einkunn. Höfuðmeinsemdirnar í siðferði landans telur Ingibjörg vera lauslæti og drykkjuskap og hún hlífir ekki betri borgurum; „hálfmentaðar“ heldri konur fá á baukinn fyrir hroka, um skólapilta segir Ingibjörg að þeir séu margir „siðlausir lubbar“ og einnig beinir hún spjótum sínum að efnuðum mönnum sem barni stúlkur og sendi þær svo á fæðingarstofnunina í Kaupmannahöfn „til að sem minst beri á svívirðingunni“ (32). Orsakir þessa bága ástands eru að mati Ingibjargar trúleysi og menntunarskortur. Ádrepur af þessu tagi voru ekki líklegar til vinsælda og enn síður var fólk snokið fyrir því að láta unga stúlku segja sér til syndanna, enda varð uppnám út af bæklingnum og ekki ólíklegt að lætin hafi átt þátt í því að Ingibjörg fann sér starfsvettvang erlendis. Þótt hún sé ung að árum þegar hún skrifar ádrepuna koma þar vel fram leiðarstef lífsskoðana hennar. Hún var trúkona og ákafur talsmaður bindindis, en einnig kvenréttindakona sem lét sig velferð kvenna og barna miklu skipta. (Síðar varð hún fulltrúi Danmerkur í nefnd á vegum Þjóðabandalagsins sem var ætlað að vinna gegn mansali.) Þá er hún og verðugur fulltrúi aldamótakynslóðarinnar í þeirri áherslu sem hún leggur á gildi menntunar og þjóðrækni. Hún er vel að sér í bókmenntum og harmar að „fólk [sé] alment sólgnara í að lesa útlent „rómana“-rusl en góðar og fræðandi bækur“ (43).

          Ingibjörg sneri aftur til Danmerkur 1912 og starfaði þar sem framkvæmdastjóri KFUK, fyrst í Vejle á Jótlandi en síðar í Kaupmannahöfn þar sem hún stóð fyrir miklum byggingarframkvæmdum félagsins í Store Kannikestræde, skammt frá Garði. Þar hitti Guðmundur Hannesson læknir hana og lýsir svo í ferðafrásögn í Lögréttu 1922:

Jeg bjóst við að sjá alvörugefna, grannholda konu, sem guðhræðsla, starfsemi og strangleiki skinu út úr, en hitti tiltölulega unga stúlku, glaða, káta og skemtilega. Það var ekkert í fari hennar, sem mint gæti á „innra trúboðs“ fólkið gamla, enda mun það hafa tekið allmiklum breytingum frá því sem fyr var. Hún tók mjer ágætlega og sýndi mjer þetta stórhýsi fjelagsins. Mjer fanst eftir þessa stuttu viðkynningu, að ekkert væri eðlilegra en að Ingibjörg væri í raun og veru lífið og sálin í fjelaginu, og er gott til þess að vita, að umkomulitlir landar skuli vinna sjer slíkt álit ytra, að þeim sje trúað fyrir mestu trúnaðarstöðum, þó útlendir sjeu. Að þessu leyti hefir Ingibjörg stigið feti framar en flestir karlmennirnir. (7. tbl., 1).

Um þetta leyti varð frami Ingibjargar enn meiri því hún tók við starfi aðalframkvæmdastjóra KFUK á Norðurlöndum og gegndi því til 1930 þegar hún sagði því lausu vegna hugmyndafræðilegs ágreinings, eftir því sem næst verður komist. En vera má að persónuleg mál hafi þar blandast inn í, því nokkrum árum fyrr hafði Ingibjörg kynnst sænsk-býsanskri prinsessu, Despinu Karadja að nafni, sem einnig var virk í kristilegu starfi. Fjölskylda hennar var búsett á Englandi og þangað er Ingibjörg komin 1925 og virðist hafa stundað nám við Kingsmead College í Selly Oak, Birmingham, árið eftir, en sá skóli var rekinn af meþódistum og lagði áherslu á guðfræði og störf að mannúðarmálum. Þær prinsessan deila síðan húsi, fyrst í South Kensington (Onslow Gardens) en eftir 1939 í smábænum Rottingdean rétt hjá Brighton. Þar lést Ingibjörg árið 1962 og er þar grafin, vafalítið með Passíusálma Hallgríms Péturssonar á brjóstinu, en Hallgrímur var henni afar hjartfólginn. Í minningarriti sem prinsessa Karadja gaf út að henni látinni kemur fram, að þegar þær vinkonurnar ferðuðust um Palestínu árið 1935 og komu til Getsemane, gróf Ingibjörg eintak af Passíusálmunum, sveipað í lítinn íslenskan fána, niður í garðinum (Ingibjörg Olafsson. En minnesbok. 1962, 43–44). Prinsessan stofnaði einnig sjóð í minningu Ingibjargar sem er í vörslu íslensku þjóðkirkjunnar.

          Ingibjörg Ólafsson var án efa einhver víðförlasta og menntaðasta kona af sinni kynslóð Íslendinga og „vel tengd“ eins og það kallast nú til dags. Í gegnum starf sitt í KFUK ferðaðist hún víða og kynntist háum sem lágum. Hún var félagi í ýmsum samtökum, svo sem Dansk-Islandsk Samfund, Dansk-Islandsk Kirkesag, Dansk Forfatterforening, bókmenntafélaginu Forum Club og Royal Geographic Society í Lundúnum. Hún sat í stjórn The Viking Society for Northern Research frá 1934 til æviloka og varð heiðursfélagi þess skömmu áður en hún lést. Hún var líka í fornemmum klúbbi menntakvenna, The Lyceum Club á Piccadilly, sem stofnaður hafði verið árið 1904 „to provide a common meeting ground for women throughout the world who are workers in literature, art or science, including medicine” (New York Times, 26. 6. 1904). Þegar landar voru á ferð í Lundúnum tók hún gjarnan á móti þeim í klúbbnum eins og sjá má af nótu sem hún sendi Gísla Sigurbjörnssyni 30. okt. 1930 (Lbs, bréf til Sigurbjörns Á. Gíslasonar).

          Fröken Ingibjörg var alla tíð áhugasöm um bindindi og bætta siði og undanskildi þar engan eins og sjá má af bréfi sem hún skrifaði eftir að Játvarður 8. hafði afsalað sér konungdómi vegna frú Simpson:

Vesalings Edward, allir vona að hann sjái að sjer og hætti að drekka og að hann losni við þetta æfintýrakvendi. Þau hafa ekki sjest síðann í desember, margir halda, að allt sje búið að vera á milli þeirra, og að hún halli sjer aftur að mr. Simpson ! Þau eru ekki skilin að lögum fyr enn í apríl lok. Það hefði verið betra fyrir Edward, ef hann hefði hlýtt gamla boðorðinu: Þú skallt ekki girnast eiginkonu náunga þíns. (Bréf til Sigurbjörns Á. Gíslasonar 28. feb. 1937.)

Ingibjörg skrifaði ókjör af greinum í blöð og tímarit til að vinna hugsjónum sínum fylgi. Hún gaf líka út nokkrar sjálfstæðar ritsmíðar, m.a. smásagnasafnið Thorkil paa Bakki (1934) sem kom út í íslenskri þýðingu árið 1963. Sögurnar eru sumar byggðar á atvikum úr reynslu Ingibjargar sjálfrar og allar mótaðar af hennar kristilegu sýn á manneskjuna og breyskleika hennar. Eina söguna endar hún á þessum línum: „Hlutskiptið bezta ávallt er / erinda Guðs að fara“ (Þorkell á Bakka og aðrar sögur. 1963, 94) og eru það hæfileg lokaorð þessarar stuttu samantektar um erindrekann Ingibjörgu Ólafsson.

Birt þann 22.06.2018