Skip to main content

Fábeinsá

Birtist upphaflega í nóvember 2004.

Fábeinsá er heiti á á á Skarðsströnd í Dalasýslu, sem getið er í Landnámu (Íslenzk fornrit I:147 og víðar). Hún fellur í Kvenhólsvog og markaði landnám Geirmundar heljarskinns.

Ásgeir Blöndal Magnússon segir í Íslenskri orðsifjabók sinni að uppruni nafnsins sé óljós: „helst mætti ætla að forliðurinn væri viðurnefni manns eða heiti á húsdýri – og fábeinn merkti ‘hinn hvít- eða ljósfætti’“ (160). Forliðurinn fá- er dreginn af lýsingarorðinu fár í merk ‘marglitur, litaður, gljáandi’, og í nýnorsku er orðið få í merk. ‘bleikur, bliknaður’, sbr. að vera fölur og fár. Fábeinn hefur ekki verið þekkt sem hestsheiti á Íslandi, skv. bók Hermanns Pálssonar, Hrímfaxi (1995).

Fábeinsvötn sem áin kemur úr eru uppi á fjalli og við þau gæti áin verið kennd. Mér finnst hugsanlegt að þau séu kennd við fiskleysi, sbr. Fáskrúðar-nöfnin, árnöfnin tvö á Vesturlandi. Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns 1705 er sagt að silungsveiði hafi verið að miklu gagni í Fábeinsá „en bregst nú mjög“! (VI:119). Áin rennur í mörgum fossum og flúðum (Selma Grétarsdóttir, Ormsstaðir í Dalabyggð, Dalasýslu. B.S.-ritgerð í landafræði. Háskóli Íslands 2002,bls. 14). Er hugsanlegt að þar sé skýringuna að finna - að hún sé kennd við skínandi fossa og flúðir?

Birt þann 20.06.2018