Skip to main content

Dritsker

Birtist upphaflega í maí 2018.

Ekki eru ófáir staðir á landinu kenndir við drit. Þetta eru einkum sker og víkur, en einnig hið minnsta eitt fjall. Yfirlit um þessa staði bíður annars pistils, en hér verður fjallað stuttlega um sker í Hofstaðavogi við Þórsnes á Snæfellsnesi sem nefnist Dritsker. Þetta er með þekktari stöðum sem kenndir eru við drit – sá allra þekktasti er vafalítið gamli verstaðurinn Dritvík á Snæfellsnesi.
 Teikning af Dritskeri eftir W.G. Collingwood (úr Collingwood og Jón Stefánsson 1899:89).

Dritskers er getið í Eyrbyggja sögu (4. og 10. kafla) þar sem segir frá landnámi og þingi Þórólfs Mostrarskeggs á Snæfellsnesi. Í Noregi hafði Þórólfur verið höfðingi á eynni Mostur (Mosterøy) og varðveitt þar Þórshof og verið mikill vinur Þórs. Raunar segir í Eyrbyggju að hann hafi heitið Hrólfur, en verið kallaður Þórólfur vegna ástar sinnar á Þór (Þór + Hrólfur > Þórólfur; hið rétta mun þó vera að Þórólfur sé komið úr Þór + úlfur).

Svo fór að Þórólfi varð ekki lengur vært heima fyrir vegna ofríkis Haralds hárfagra og leitaði þá ráða hjá Þór sem vísaði honum til Íslands. Þegar hann var kominn að landi og vestur um Reykjanes kastaði hann fyrir borð öndvegissúlunum og „var Þór skorinn á annarri“. Þær rak fyrir Snæfellsnes og fylgdi Þórólfur þeim inn á Breiðafjörð. Í 4. kafla Eyrbyggju segir svo frá (ÍF IV:8; stafsetning hér og eftirleiðis eftir nútímahætti):

Hann tók land fyrir sunnan fjörðinn, nær miðjum, og lagði skipið á vog þann er þeir kölluðu Hofsvog síðan. Eftir það könnuðu þeir landið og fundu á nesi framanverðu, er var fyrir norðan voginn, að Þór var á land kominn með súlurnar; það var síðan kallað Þórsnes.

Síðan er sagt frá því að Þórólfur helgaði sér land og byggði sér bæ að Hofstöðum við Hofsvog (nú Hofstaðavogur) og lét reisa þar mikið hof sem nákvæmlega er lýst í sögunni. Einnig er sagt frá fjalli einu sem Þórólfur lagði mikinn átrúnað á, en það er auðvitað hið fræga Helgafell. Loks segir svo (ÍF IV:10):

Þar sem Þór hafði á land komið, á tanganum nessins, lét hann hafa dóma alla ok setti þar héraðsþing; þar var og svo mikill helgistaður, að hann vildi með engu móti láta saurga völlinn, hvorki í heiftarblóði og eigi skyldi þar álfrek ganga, og var haft til þess sker eitt, er Dritsker var kallað.

Orðtakið að ganga álfrek merkir að ganga örna sinna og er talið vísa til þess að álfar (landvættir) hafi forðast lyktina (Gering 1897:12 nmgr. 11). Þetta boð mun hafa verið virt á dögum Þórólfs, en um það leyti sem hann andaðist og við goðorðinu tók sonur hans, Þorsteinn þorskabítur, voru að færa sig upp á skaftið svonefndir Kjalleklingar, afkomendur landnámsmannsins Björns Ketilssonar flatnefs sem numið hafði land í nágrenni við Þórólf Mostrarskegg og búið í Borgarholti í Bjarnarhöfn. Fremstir í flokki Kjalleklinga voru Þorgrímur Kjallaksson og Ásgeir á Eyri og tóku þeir það ráð eitt vor á Þórsnessþingi að ögra Þorsteini með því að láta út berast að þeir (sjá ÍF IV:15):

myndu ganga þar örna sinna sem annars staðar á mannfundum á grasi, þótt þeir [Þórsnesingar, afkomendur Þórólfs] væru svo stoltir, að þeir gerðu lönd sín helgari en aðrar jarðir í Breiðafirði; lýstu þeir þá yfir því, að þeir myndu eigi troða skó til að ganga þar í útsker til álfreka.

Þorsteinn brást við og safnaði liði og beið átekta þar til Þorgrímur og hans menn gerðu sig líklega og kom loks til bardaga og varð nokkuð mannfall áður en flokkunum var stíað í sundur. Virðist sem tekist hafi að hindra álfrekið, en hins vegar var þingstaðurinn nú saurgaður heiftarblóði svo úr varð að þingið var flutt á nýjan stað í Þórsnesi, þangað sem heita Þingvellir enn í dag.

Eins og áður kom fram er raunverulegt sker sem nefnist Dritsker á söguslóðum Eyrbyggju, þ.e. í Hofstaðavogi við Þórsnes, fremur innarlega í voginum, skammt suður af svonefndu Haugsnesi. Hér á eftir fer lýsing P.E. Kristians Kålund á skerinu í þýðingu Haralds Matthíassonar (Kålund 1985:76):

Það er lítið sker, allhátt, grænt að ofan, tengist við land með klettagranda, svo að þangað má ganga þurrum fótum um fjöru.

Í frásögn sögunnar af þingi Þórólfs Mostrarskeggs felst skýring á uppruna nafnsins, en hvort hún er rétt er annað mál (og raunar er ekki víst að hið raunverulega Dritsker í Hofstaðavogi sé sama sker og það sem nefnist Dritsker í sögunni, sjá nánar í pistli um Nónnes).

Eyrbyggja er talin rituð á 13. öld, en atburðirnir sem um ræðir áttu að hafa gerst um 300 árum fyrr. Einar Ól. Sveinsson áleit að söguhöfundur hefði byggt frásögnina á munnmælasögum um flutning þingstaðarins sem fólu í sér skýringu á nafninu Dritsker (ÍF IV:xxiv–xxv, 1969:6). Ólafur Lárusson taldi hugsanlegt að þetta væri einungis þjóðsaga, en þó væri ekki unnt að fullyrða að hún væri röng; vel væri þekkt að þingstaðir „nutu sérstakrar helgi og voru griðastaðir“ (1935:192) og enn fremur væru til ýmsar heimildir um að flæðisker hefðu talist vanhelgir staðir (1935:192 o.áfr.).

Nýlega hafa fræðimenn bent á að upptökin að frásögn Eyrbyggju um forna helgi lands í Þórsnesi gætu legið í samtíma söguhöfundar. Lengi hefur verið haft fyrir satt að Eyrbyggja hafi verið rituð í klaustrinu að Helgafelli sem sett var á fót 1184 eða 1185. Klaustrið mun fljótlega hafa komist yfir töluverðar jarðeignir í nágrenninu (Ólafur Lárusson 1935:199 o.áfr., Hermann Pálsson 1967:60–61). Sagan um þing Þórólfs Mostrarskeggs kann því að hafa verið búin til af höfundi Eyrbyggju í þeim tilgangi að sýna að menn hefðu lengi gert sér grein fyrir að Helgafellsland naut helgi. Þessi hugmynd er sett fram í grein eftir Kevin J. Wanner (2009) þar sem umræddir atburðir Eyrbyggju eru í forgrunni; í henni athugar Wanner hugmyndir um helga staði, hreinleika og mengun, og hlutverk þessa í breytingum á samfélagsgerð Íslands á miðöldum.

Mikael Males hefur túlkað frásögnina á svipaðan hátt (2013, 2017:103 o.áfr.). Hann bendir á að mikilvægur þáttur í að sýna fram á helgi Þórsness kunni að hafa verið uppruni Þórólfs á Mostur þar sem Ólafur Tryggvason lét reisa fyrstu kirkjuna í Noregi (2017:106). Einnig bendir hann á að fyrirmynd hins helga staðar, þar sem bannað er að gera þarfir sínar, kunni að vera sótt í biblíuna (2017:107–108).

Hvenær svo sem hún varð til, frásögnin um upphaflegan þingstað Þórsnesinga og aðdragandann að flutningi þingstaðarins, og hvort sem hún er tilbúningur höfundar Eyrbyggja sögu eða eldri munnmælasaga, er ljóst að sem skýring á tilurð örnefnisins Dritsker fær hún tæplega staðist. Menn hafa ekki stundað að vaða út í sker til þess að gera þar þarfir sínar. En að sama skapi er áhugavert hvernig reynt er að auka trúverðugleika sögunnar með því að flétta inn í hana skýringu á örnefni sem á sér sjálfstæða tilvist utan sögunnar.

En hver er rétt skýring nafnsins Dritsker? Líklega kemur flestum til hugar að á skerinu hafi verið mikið fugladrit. Í þessu sambandi er viðeigandi að líta lengra út á Snæfellsnesið til Dritvíkur, en í Bárðar sögu Snæfellsáss er þetta örnefni skýrt svo (ÍF XIII:111):

Bárður Dumbsson lagði skipi sínu inn í lón það er sunnan gengur í nesið og þeir kölluðu Djúpalón. Þar gekk Bárður á land og hans menn; og er þeir komu í gjárskúta einn stóran, þá blótuðu þeir til heilla sér; það heitir nú Tröllakirkja. Síðan settu þeir upp skip sitt í vík einni. Þar á lóninu höfðu þeir gengið á borð að álfreka, og þann sama vallgang rak upp í þessari vík, og heitir það Dritvík.

Þarna er talað um að „álfreka” og víst að fyrirmyndin er skýring Eyrbyggju á nafninu Dritsker. Hér virðist á ferð greinilegt dæmi um að höfundur sögu búi sjálfur til örnefnaskýringu og skyldi þá ekki skýringin á nafninu Dritsker geta verið orðin til á sama hátt? Þórhallur Vilmundarson, sem gaf út Bárðar sögu, benti á að haldgóð skýring nafnsins Dritvík væri í sjónmáli: hún drægi „að öllum líkindum nafn af fugladriti á hinum háa Dritvíkurkletti“ (ÍF XIII:cviii).

Enda þótt nærtækt virðist að Dritsker sé kennt við fugladrit (mér er þó ekki kunnugt um hvort það sé áberandi á skerinu nú á dögum) hefur verið sett fram önnur skýring á nafninu þar sem menn, ekki fuglar, eru í aðalhlutverki. Ekki er rúm til þess að fjalla um hana í þessum pistli. Það verður gert í öðrum pistli um örnefnið Þarfar sem fyrir kemur í Sverris sögu.

Birt þann 20.06.2018
Heimildir

Collingwood, W.G. og Jón Stefánsson 1899. A pilgrimage to the Saga-Steads of Iceland. W. Holmes, Ulverston.

Einar Ól. Sveinsson. 1969. Eyrbyggja sagas kilder. Scripta Islandica 19:3­–18.

Gering, Hugo (ritstj.). 1897. Eyrbyggja saga. Max Niemeyer, Halle.

Hermann Pálsson. 1967. Helgafell: Saga höfuðbóls og klausturs. Snæfellingaútgáfan, Reykjavík.

ÍF IV = Íslenzk fornrit IV. Eyrbyggja saga. Útg. Einar Ól. Sveinsson. Hið íslenzka fornritafélag, Reykjavík, 1935.

ÍF XIII = Íslenzk fornrit XIII. Bárðar saga Snæfellsáss. Útg. Þórhallur Vilmundarson. Hið íslenzka fornritafélag, Reykjavík, 1991.

Kålund, P.E. Kristian. 1985. Íslenzkir sögustaðir II. Vestfirðingafjórðungur. Haraldur Matthíasson þýddi. Örn og Örlygur, Reykjavík.

Males, Mikael. 2013. Allegory in Old Norse Secular Literature: Theoretical and Methodological Challenges. Viking and Medieval Scandinavia 9:99–132.

Males, Mikael. 2017. Snorre och sagorna. Dialogos, Stockholm.

Wanner, Kevin J. 2009. Purity and Danger in Earliest Iceland: Excrement, Blood, Sacred Space, and Society in Eyrbyggja sagaViking and Medieval Scandinavia 5:213–50.