Skip to main content

Pistlar

Dirgira-örnefni

Birtist upphaflega í ágúst 2003.

Í landi Reykjatorfu í Ölfusi í Árnessýslu er örnefnið Dirgirabotnar, mýrarbrúnin þar sem Ölfusborgir standa (Árbók Ferðafélagsins 2003:128). Þar eru einnig tveir Dirgiralækir, syðri og nyrðri, og Dirgiramýri.

Örnefnið Dirgirabotnar er í örnefnaskrá í Örnefnastofnun einnig stafsett Dyrgirabotnar. Ekki verður séð í fljótu bragði hvaða skýringu væri hægt að gefa á örnefnaliðnum Dirgira-. Það virðist ekki skylt neinu íslensku orði eins og það er stafsett og ekki verður það fundið í orðabókum. Athugandi er hvort rithátturinn með -y- gefi frekar merkingu. Hugsanlegt væri þá að orðið *dyrgir (kk.et.) hefði verið til og þá haft um læk, hugsanlega skylt orðinu dorg. Lækirnir tveir hefðu þá verið nefndir Dyrgirar (beyging eins og hellir – hellirar) og lækjabotnarnir eftir þeim Dyrgirabotnar. Orðið dorg getur merkt auk ‘handfæris’, ‘skán á mjólkurbyttu, myglu- eða óhreinindaskán á íláti’, sbr. nýnorsku dorg ‘kvista- og mosarusl’ (Ásgeir Blöndal Magnússon, Íslensk orðsifjabók). Til samanburðar má nefna að þrjár ár í Noregi heita Dørja (Dørgja) og hefur það nafn verið sett í samband við dorg í merkingunni ‘handfæri’ (Norsk stadnamnleksikon). Tæplega er þó hægt að hugsa sér það í tengslum við Dirgiralækina í Ölfusi, sem ekki er vitað að séu eða hafi verið neinir dorgstaðir.

Annar kostur væri að líta á orðið *dyrgir sem orð samsvarandi dyrgja ‘digur kona’ og dvergur, og þá átt við e-ð lágvaxið og durgslegt. Þá væri e.t.v. átt við kletta í nágrenninu. Þar er reyndar Strýtuklettur (sem ekki líkist neinum durgi) og Strýtuklettsdý en vatn úr þeim rann í Dirgiralækinn syðri, og Skjólklettur, en Skjólklettsmýri er á milli Dirgiralækjanna, nefnd öðru nafni Dirgiramýri. Á þessum slóðum er líka Langiklettur. Hugsanlegt er að þessir klettar hafi verið nefndir Dyrgirar, þó að það ætti illa við Strýtuklett. Annað er að munnmæli hermdu að Skjólklettur væri álfakirkja og „sannorðir“ menn sögðust hafa heyrt þar söng. Ekki er vitað hvort einhverjir dvergar voru þar á ferð.

Bæði lækir og klettar geta haft nöfn með viðskeytinu –ir, t.d. Gegnir sem lækur og Kleykir sem klettur. Hér gæti því hvort heldur verið, að Dyrgir væri nafn á læk eða kletti.

Birt þann 20. júní 2018
Síðast breytt 24. október 2023