Skip to main content

Pistlar

Dímon

Birtist upphaflega í maí 2004.

Dímon er örnefni sem kemur fyrir á nokkrum stöðum á landinu. Nafnið er ýmist karlkyns eða kvenkyns:


1) Stóra-Dímon, fell eða klettaey á aurunum við Markarfljót í Rang. og Litla-Dímon, klettarani austan Markarfljóts, við gömlu Markarfljótsbrúna.
2) Litli- og Stóri-Dímon eru tveir hólar í landi Bjálmholts í Holtum í Rang.
3) Litli- og Stóri-Dímon eru tveir hólar í landi Kaldárholts í Holtum, Rang.
4) Dímon er einstakur hóll í landi Akbrautar í Holtum, Rang.
5) Dímon (kk) er fjall í landi Skriðufells í vestanverðum Þjórsárdal í Árn., austur af Skriðufellsfjalli, bungumyndað, en efst eru þursabergseggjar og stuðlar á köflum. (Mynd í Árbók Ferðafélagsins 1996:79).
6) Stóri- og Litli-Dímon (Stóra- og Litla-Dímon). Tvö fell vestan undir Reyðarbarmi nærri Laugarvatnsvöllum í Árn. (Mynd í Leiðir Skálholtsbiskupa um Lyngdalsheiði e. Guðrúnu Ásu Grímsdóttur (2000), bls. 8).
7) Dímon. Stakur hnúkur í landi Sogns í Ölfusi í Árn.
8) Dímon. Stakur klettur í landi Akra á Mýrum, Mýr.
9) Dímon (áður Dímun) eða Dímonarklakkar á Breiðafirði nokkru utar en Purkey (= Klakkeyjar).
10) Dímon. Hólmi í Bjarnarfirði syðra í Strand.

Örnefnið Díma sem er skylt Dímon eða stytting á því er jafnframt til á þessum stöðum:
1) Stóra- og Litla-Díma. Klapparholt milli Svínafells og Viðborðs í Hornafirði í A-Skaft. Nefndar Stóri- og Litli-Dímon 1708
2) Díma. Klappahæð eða klettaey á Jökulsárleirum í landi Stafafells í Lóni í A-Skaft.

Merking nafnsins Dímon, sem komið er úr keltneskum málum, hefur verið talin ‘tvíhæð’. Það er samsett úr dí ‘tvær’ og muin ‘bak, háls’. Í Færeyjum eru eyjarnar Stóra- og Lítla-Dímun. Í Noregi er Dimmen indre og Dimmen ytre hlutar eyjar í Raumsdal. Á Hjaltlandi er Dimons nafn á tveimur klettum á tveimur stöðum. Í Orkneyjum er Deimons nafn á húsi sem stendur á annarri af tveimur hæðum á Mainland. Í Suðureyjum er Timan tvær litlar eyjar á Skíði (Skye). Dímonarörnefni eru 16 talsins á svæðinu sunnan frá Suðureyjum og norður um til Íslands. (Sjá Helgi Guðmundsson, Um haf innan (1997), bls. 190–193).

Birt þann 20. júní 2018
Síðast breytt 24. október 2023