Skip to main content

Pistlar

Depill

Birtist upphaflega í júlí 2003.

Örnefnið Depill kemur fyrir sem rekamark í Hraunslandi á Skagaströnd í A-Hún., rekaítak frá Gunnsteinsstöðum í Langadal árið 1318: „Reka hálfan hvals og viðar á Depli“ (Íslenzkt fornbréfasafn II,485). Orðið merkir í landslagi ‘blettur’ og sérstaklega ‘votlendisblettur’, og merkingin í færeysku depil er ‘smáblettur, punktur’og þar er það líka til í örnefnum. Í nýnorsku er orðið depil í merk. ‘pyttur, smádý’ og í hjaltlensku depel ‘pyttur, mýrarblettur´. Í Noregi var til bæjarnafnið Depill, nú Devle, Olof i Deplinum (við Niðarós) (Diplomatarium Norvegicum V:75). Ásgeir Blöndal Magnússon telur í Orðsifjabók sinni að orðið sé skylt orðunum dap og döp og hafi upphaflega merkingin verið ‘sletta, skvetta’, en dap merkir ‘aur, leðja; smáhvarf eða pollur’, sbr. dabb ‘óhreinindi, bleyta’, og döp ‘leðja, for’.

Í fleirtölu er bæjarnafnið Deplarí Fljótum í Skagafirði. Af landslaginu verður ekki séð hvort merking nafnsins er fremur ‘blettur, punktur’ eða ‘pyttur, dý’. Í örnefnaskrá segir að gamla túnið á Deplum sé að miklum hluta hólar og djúpar lautir á milli, og eins að niður frá túninu í vesturátt liggi mýrarflákar og sund með smáhólum hér og þar. 

Birt þann 20. júní 2018
Síðast breytt 24. október 2023