Birtist upphaflega í maí 2008.
Örnefnið Brellur með framburðinum -l-l- [brel:Yr] er þekkt á tveimur stöðum á Vestfjörðum.
1) Fjallið milli Stekkadals og Fjósadals í Patreksfirði í V-Barð. heitir Brellur (sjá mynd). „Þetta er snarbrött fjallshlíð, klettalítil en grýtt“ (Ari Gíslason í Örnefnaskrá). Kristján Jónsson í Stekkum tekur undir það að það sé fjallið sem heiti Brellur. Jóhannes Gíslason á Geirseyri segir í örnefnaskrá frá 1969 að fjallið hafi nafnið Brennur eða Brenlur. Nafnið hefur e.t.v. upphaflega verið *Brendlur, kennt við branda og nafnið stendur þá e.t.v. í sambandi við viðarkolagerð.
2) Fornir sjávarkambar á Melgraseyri í Nauteyrarhr., N-Ís., nú tún, heita Brellur. Jón H. Fjalldal sem var bóndi á Melgraseyri frá 1910–1956 sagði að Brellur væru öldulaga hæðir, sbr. brella: alda. (Sölvi Sveinsson skráði 1975). Aðalsteinn Jóhannsson bóndi á Skjaldfönn sagði Sölva Sveinssyni sama ár að svæði þetta sé allt í bogum og sjáist greinilega að landið hafi risið úr sjó (Örnefnalýsing í Örnefnasafni).
Brellur milli Stekkadals og Fjósadals í Patreksfirði.
Engin heimild er finnanleg fyrir því að orðið brella merki ‘alda’ og verður ekki séð að sú skýring standist. Brella í merkingunni ‘bragð’ kemur tæpast til greina. Brella er einnig til sem ærnafn (Húnavaka 1986, 104) en það hjálpar varla heldur við skýringuna. Í sænskum mállýskum er til sögnin brellär eða brillär í merk. ‘skina, lysa, glimma’ (J.E. Rietz, Svenskt dialektlexikon (1962), bls. 51), en ekki liggur í augum uppi að þar geti legið skýring. Örnefnið Brellur með þessum framburði getur ekki verið upphaflegt í íslensku, því að -ll- hefur yfirleitt orðið að -dl- (að undanteknum tökuorðum eins og bolla og gælunöfnum eins og Silla og Palli) og því hlýtur að hafa orðið samlögun úr öðrum hljóðum eins og t.d. -nl-. Framburðarbreytingin -ndl- > -nl- > -l-l- er ekki óalgeng á Vestfjörðum og víðar, t.d. hefur bæjarnafnið Grindill í Fljótum í Skag., á Grindli, orðið Grillir og framburður væntanlega upphaflega [gril-lir]. Í Dýravininum 1909, bls. 24 er talað um „lóur, stelka og sellinga“ þ.e. sendlinga. En nafnið Brellur á Melgraseyri verður ekki að fullu skýrt þar sem tæplega er um viðarkolagerð eða aðra brennslu þar að ræða.
Síðast breytt 24. október 2023