Skip to main content

Pistlar

Úrfellingarpunktar

Úrfellingarpunktar

Úrfellingarpunktar (…) (e. ellipsis) er greinarmerki sem hefur sjálfstætt hlutverk: táknar úrfellingu úr orði eða setningu eða jafnvel hik. Fjallað er um notkun þess í undirkafla 31.2 í ritreglum Íslenskrar málnefndar.

Merkið er sett saman úr þremur punktum en er sjálfstætt tákn í flestum leturgerðum og þess gætt af leturhönnuðum að bil milli punkta í merkinu sé hæfilegt. Hér má sjá dæmi um muninn á þremur punktum og tákninu fyrir úrfellingarpunkta:

…         (úrfellingarpunktar, eitt tákn)

...         (þrír punktar í röð)

Táknið fyrir úrfellingarpunkta má kalla fram í ANSI-táknrófinu (með því að halda niðri alt-hnappnum og slá inn 0133) og í Unicode-táknrófinu (með því að slá inn 2026, halda niðri alt-hnappnum og slá inn x). Ritvinnsluforrit eru einnig stundum stillt þannig að þegar slegnir eru inn þrír punktar í röð þá breytast þeir sjálfkrafa í táknið fyrir úrfellingarpunkta.

Kostir fylgja því að nota sérstakt tákn fyrir úrfellingarpunkta. Ekki er þá hætta á að punktarnir þrír skiptist á milli lína, þeir haldast í sömu línu. Greinarmerkið er þá einnig hannað sem heild, eins og áður er nefnt.

Um heiti táknsins

Heitið úrfellingarpunktar er ekki alveg heppilegt því að það vísar til greinarmerkisins punkts og fær fólk til að halda að þetta sé ekki sjálfstætt merki heldur röð þriggja stakra punkta.[1] Í Íslenskum táknaheitum (2003:21) er þetta tákn bæði kallað úrfellingarpunktar og úrfellingarmerki. Síðara heitið er þó ekki heppilegt þar sem það er almennt notað fyrir (’) (e. apostrophe) sem táknar annaðhvort að felldur hafi verið brott stafur eða stafir eða að fella eigi niður í framburði stafi sem ritaðir eru, t.d. „Það átt’ ekki við ’ann að rjúfa sín heit.“ Fjallað er um úrfellingarmerki í undirkafla 31.1 í ritreglum Íslenskrar málnefndar.

Hér á eftir er fjallað um notkun úrfellingarpunkta. Meginhlutverk þeirra er að auðkenna ef eitthvað er fellt brott úr setningu eða orði.

Úrfelling úr setningu

Á undan úrfellingarpunktum er stafbil ef næst fyrir framan þá kemur heilt orð (t.d. Margir … lögðu sitt af mörkum).

Úrfelling úr orði

Úrfellingu úr orði má tákna með úrfellingarmerki (’) eða úrfellingarpunktum og þá er ekki bil á milli merkisins og orðsins sem fellt er úr.

 • Andsk…
 • Fyrst varð ég að sópa og mjó… nei, gefa hænsnunum

Úrfellingarpunktar í lok málsgreinar

Ef úrfellingarpunktar lenda aftast í málsgrein þá fellur lokapunktur setningarinnar niður á eftir þeim (sjá undirkafla 22.1 í ritreglum Íslenskrar málnefndar):

 • Jón hafði ekki hugmynd …
 • Hver andsk…

Þetta er í samræmi við meðferð annarra greinarmerkja í lok málsgreinar, þ.e. punkturinn fellur niður á eftir þeim (til dæmis Gengur þú alltaf í vinnuna? Ekki: Gengur þú alltaf í vinnuna?.)

Upphrópunarmerki og spurningarmerki geta hins vegar fylgt á eftir úrfellingarpunktum í lok setningar og er ekki bil á milli þeirra:

 • Hver andsk…!
 • Sagði hann andsk…?

Tilvitnunarmerki og úrfellingarpunktar

Þegar úrfellingarpunktar lenda aftast í tilvitnun vaknar sú spurning hvort sleppa eigi lokapunkti málsgreinarinnar (samanber kafla 32.1 í ritreglum Íslenskrar málnefndar þar sem segir að kommur, punktar, spurningarmerki og upphrópunarmerki séu sett á undan tilvitnunarmerki ef þau auðkenna heila málsgrein). Ef grannt er að gáð þá á þetta þó ekki við hér því að grunnmerking úrfellingarpunkta er að tákna að eitthvað sé óheilt í setningu og þá er meginreglan að framangreind greinarmerki fari á eftir tilvitnunarmerkinu. Lokapunktur helst þá einnig:

 • Í Egils sögu segir: „Ver þú vel við,“ segir Egill, „þótt eg bakist við eldinn …“. (ekki: eldinn …“)

Ef málsgrein heldur áfram á eftir óheilli tilvitnun þá er sett komma á eftir seinni tilvitnunarmerkjunum í samræmi við meginreglu (sjá kafla 32.1 í ritreglum Íslenskrar málnefndar).

 • „Ver þú vel við þótt ég bakist við eldinn ...“, sagði hann.

Úrfellingarpunktum sleppt

Stundum er úrfellingarpunktum sleppt úr óheilli setningu til að hún verði læsilegri ef á undan fara inngangsorð. Dæmi: Margir „lögðu sitt af mörkum“ (ekki: Margir „[…] lögðu sitt af mörkum), Finnur „naut lítt kennslu“ (ekki: Finnur „[…] naut lítt kennslu.). Slíkt er eðlilegt að gera þótt vissulega sé skondið að hægt sé að sleppa úrfellingarpunktum sem einmitt tákna að einhverju sé sleppt úr texta!

Úrfellingarpunktar og hornklofar

Í fræðilegum skrifum tíðkast að setja hornklofa utan um úrfellingarpunkta í orðréttum tilvitnunum (samanber kafla 27.2 og 31.2 í ritreglum Íslenskrar málnefndar). Með þessu er skýrt að úrfellingin/styttingin er ekki í frumheimildinni heldur verk þess sem vitnar í hana:

 • Í Egils sögu segir: „Ver þú vel við,“ segir Egill, „þótt eg bakist við eldinn […]“.
 • Ævintýri enda oft á formúlubundinn hátt: Köttur úti í mýri […]

 

Önnur notkun úrfellingarpunkta

Í ritreglum Íslenskrar málnefndar er ekki tæmandi lýsing á notkun úrfellingarpunkta. Hér eru nokkur dæmi til viðbótar um hugsanlega notkun þeirra.

Hikpunktar

Úrfellingarpunktar eru stundum notaðir til að tákna hik, umhugsun, óöryggi, þögn eða ófullkomna hugsun, oft í samtali.

 • Ég er að hugsa um að gera þetta núna … en þó kannski seinna.
 • Ég … ég … er bara ekki viss.

Úrfelling úr töluröð

Úrfellingarpunkta má einnig nota til að tákna bil í talnaröð:

 • 10, 100, 1000 … 1 000 000
 • x1, x2 … xn

Ólæsilegur texti

Í uppskrift texta eru úrfellingarpunktar oft notaðir (innan hornklofa) til að tákna að eitthvað sé ólæsilegt

 • Fjed var […]greidt […].
 

[1] Rasmus Rask kallaði þetta merki stönsunarmerki í Lestrarkveri handa heldri manna börnum (1830:42). Heitið þrípunktur er frátekið fyrir þrjá lóðrétta punkta (e. vertical ellipsis) (sjá Íslensk táknaheiti 2003:21) til samræmis við heitið tvípunkt. Vinsælt er orðið að nota þrípunkta eða þrjú lóðrétt strik á vefsíðum til að tákna að eitthvað meira búi að baki eða í spjallforritum og táknar þá að viðmælandi sé að skrifa svar.

Birt þann 14. nóvember 2019
Síðast breytt 24. október 2023
Heimildir

Apostrophe. Wikipedia https://en.wikipedia.org/wiki/Apostrophe.

Auglýsing um setningu íslenskra ritreglna nr. 800/2018. 31. ágúst 2018. Stjórnartíðindi. B-deild. (sótt 16.9.2019).

Bringhurst, Robert. 2002. The Elements of Typographic Style. Version 2.5. Hartley & Marks.

Ellipsis. Wikipedia https://en.wikipedia.org/wiki/Ellipsis.

Haraldur Bernharðsson. 2011. Tilvitnanir. Í: Handbók um íslensku, bls. 228–233.

Íslensk táknaheiti. 2003. Orðanefnd Skýrslutæknifélags Íslands tók saman. Smárit Íslenskrar málnefndar 2. Reykjavík: Íslensk málnefnd.

Rask, Rasmus. 1830. Lestrarkver handa heldri manna börnum með stuttum skíringargreinum um stafrofið og annað þartil heyrandi. Kaupmannahöfn.

Ritreglur. Auglýsingar mennta- og menningarmálaráðuneytis nr. 695/2016 og 800/2018 með leiðréttingum. Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. <http://ritreglur.arnastofnun.is/> (sótt 16.9.2019).

Svenska skrivregler. 2017. Ola Karlsson (ritstj.). Språkrådets skrifter 22. Liber.

Vertical ellipsis. Wikipedia https://en.wiktionary.org/wiki/vertical_ellipsis.