Skip to main content

Pistlar

túbusjónvarp

Í kjölfar efnahagshrunsins 2008 fóru af stað miklar umræður í íslensku þjóðfélagi þar sem leitast var við að finna skýringar á þessu mikla skipbroti. Ein kenning sem margir héldu á lofti, af mismikilli alvöru, var sú að allt of margir hefðu fallið í þá freistni að kaupa sér dýra flatskjái. Í umræðunni urðu þessi heimilistæki, sem flestum þykja sjálfsögð í dag, einskonar birtingarmynd óhófs fyrirhrunsáranna eins og sjá má á eftirfarandi dæmi úr DV 2008.

Á meðan aðrir auðmenn eru með flatskjái á nánast hverjum vegg lætur Þorsteinn nægja að vera með túbusjónvarp í eldhúsinu heima hjá sér.

Sjónvarpstæki með flatskjá var upp úr aldamótum spennandi tækninýjung sem fljótlega varð að hversdagslegum hlut á heimilum flestra landsmanna. Nú á dögum er gengið að því sem gefnu að sjónvörp séu flöt, en þegar verið er að bera saman gömul tæki og ný þarf hins vegar stundum að grípa til orðsins túbusjónvarp, eins og í dæminu hér að framan. Íslensk nútímamálsorðabók skilgreinir orðið sem „sjónvarp með myndlampa (mikið um sig og þungt)“. Ef miðað er við textaleit á Tímarit.is má rekja notkun þess a.m.k. aftur til ársins 2005 þegar það birtist í Morgunblaðinu.

Verksmiðjur Sony í Evrópu, þar sem hefðbundin túbusjónvörp eru framleidd, munu hafa hálft ár til að hætta framleiðslu sinni.

Orðið túbusjónvarp er ekki að finna í Íslenskri orðabók frá 2002. Á þeim tíma sem orðabókin var í smíðum voru dæmigerð sjónvörp í hugum flestra Íslendinga einmitt tæki með myndlampa. Túbusjónvörp voru þá einfaldlega kölluð sjónvörp en nýju tækin voru kynnt til sögunnar sem flatskjáir. Eins og oft gerist þá breyttist svo orðanotkunin þegar nýja tæknin tók yfir. Smám saman urðu flatskjáir svo algengir á heimilum landsmanna að málnotendur fóru að líta á þá sem venjuleg sjónvörp. Við það skapaðist svo þörf fyrir nýtt orð yfir gömlu sjónvörpin með myndlömpunum, og þá var gripið til samsetningarinnar túbusjónvarp.

Ef litið er á dæmi úr málheildum Árnastofnunar kemur glögglega í ljós að orðið túbusjónvarp er aðallega notað í samhengi þar sem lögð er áhersla á aldur tækisins, þ.e. að sjónvarpið tilheyri liðinni tíð og beri vott um slæman og úreltan tækjakost.

  • [...] og horfi á gamalt túbusjónvarp og fæ það í hvert skipti á tilfinninguna að ég búi á Árbæjarsafninu. (Skessuhorn 2009)
  • [...] eins og að stíga inn í tímavél að fara í sveitina, ekkert heitt vatn var í húsinu og aðeins lítið túbusjónvarp sem sýndi lélega útsendingu af Ríkissjónvarpinu. (Kaffið.is 2017)
  • Herbergin voru misvel tækjum búin og lenti hún á einu þar sem þrír deildu einu gömlu túbusjónvarpi og var fjarstýringin týnd. (mbl.is 2016)

Nýyrði sem þessi, þ.e. ný hugtök yfir gömul fyrirbæri, hafa á ensku verið skilgreind sem retronyms og mætti kalla endurlitsorð á íslensku. Slík orð verða til þegar nýjar hugmyndir eða tækninýjungar ryðja eldri útgáfum til hliðar og þörf skapast fyrir að aðgreina hið gamla frá því nýja. Sem dæmi um þekkt endurlitsorð í íslensku má nefna samsetningar eins og heimasími, snúrusími, skífusími, skífuúr, landlína, borðtölva og filmuvél, eða föst orðasambönd eins og línuleg dagskrá eða uppáhellt kaffi.

Birt þann 9. apríl 2021
Síðast breytt 24. október 2023
Heimildir

Íslensk orðabók. 2002. Mörður Árnason (ritstj.). 3. útgáfa, aukin og endurbætt. Reykjavík: Edda.
Íslensk nútímamálsorðabók. Halldóra Jónsdóttir og Þórdís Úlfarsdóttir (ritstj.). Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.
Tímarit.is. Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn.
Risamálheildin (2019). Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.
Merriam-Webster.com Dictionary. https://merriam-webster.com/dictionary.retronym.