Orðið kaupfox er nokkuð sérstakt og heimildir um það eru strjálar. Merking orðsins er 'svik í viðskiptum' eða nánar tiltekið 'óleyfileg sala á eign annars manns'. Kaupfox er í hvorugkyni þar sem það kemur fyrir.
Seinni hluti orðsins, fox, er harla óvenjulegur. Samkvæmt Íslenskri orðsifjabók merkir fox 'svik' í fornu máli. Þar kemur fram að uppruni þess sé ekki ljós en sumir ætla að forníslenska orðið sé tökuorð úr fornensku fox 'refur'.
Elstu heimildir um kaupfox eru í fornum lagatextum en því bregður enn fyrir í nútímaíslensku stöku sinnum. Orðið fyrirfinnst meira að segja í núgildandi lagasafni Alþingis.
Kaupfox er nefnt í kaupabálki Jónsbókar sem er lögbók frá 13. öld. Jónsbók tók við sem meginundirstaða íslensks réttar af Járnsíðu árið 1281. Í lagasafninu kemur Kaupfox við sögu í eftirfarandi ákvæði:
„Kap. 14. Um kaupfox, ef maðr selr einn grip tveimr mönnum senn. Nú skulu haldast … mál þau er bók mælir eigi í móti ok haldast megu at lögum. Þat má eigi haldast, ef maðr selr manni þat er hann hefir öðrum fyrr selt. En ef sá hefir hönd at er síðarr keypti, þá … á sá kaup at hafa er fyrr keypti, ef honum fullnast vitni. … Þá er þeim kaupfox er síðarr keypti. … Þat er kaupfox, ef maðr kaupir þat er hinn átti ekki í er seldi, nema at þess ráði væri selt er átti. Nú skal hann hitta þann, sem honum seldi ok heimta sitt af honum.“
Áhugavert er að þessi fornu lög eru enn í gildi. Það getur bent til þess að viðkomandi ákvæði hafi verið hluti af íslenskum lögum óslitið frá 13. öld, að minnsta kosti.
Ákvæðið um kaupfox er líka að finna í fornbréfi frá 16. öld (árið 1554) og er væntanlega vísun í Jónsbók:
„Að það er kaupfox er maður kaupir það er hinn átti ekki í er seldi“, sbr. Diplomatarium Islandicum. Íslenzkt fornbréfasafn. (1911−1959): XII, 769 (1554).
Íslensk-dönsk orðabók (1920−1924) eftir Sigfús Blöndal hefur meðal uppflettiorðanna samsettu orðin kaupfox 'svigagtig Handel' (viðskiptasvik) og veðfox 'Bedrageri ved Pantsættelse el. Væddemaal' (svindl í veðsetningu). Veðfox er líka nefnt í Jónsbók en hefur verið fellt út úr lagasafni nútímans.
Það er athyglisvert að kaupfox hefur skírskotun í dómi sem sagt var frá í Morgunblaðinu 16. janúar 1992. Fyrirsögnin er:
„Borgardómur Reykjavíkur: Ákvæði Jónsbókar frá 1281 um kaupfox réði úrslitum“.
Þetta mál varðar fyrirtæki sem seldi manni byggingarkrana á 900 þúsund krónur. Maðurinn geymdi kranann um tíma hjá fyrirtækinu að vetrarlagi þar sem hann gat ekki flutt hann burt sökum ófærðar en þegar hann ætlaði að sækja kranann kom í ljós að fyrirtækið var búið að selja hann öðrum manni. Ákvæði Jónsbókar um kaupfox hafði þannig lagalegt gildi og hafði úrslitaþýðingu þegar dómur var upp kveðinn í málinu.
Gera má ráð fyrir að svo augljós svik í viðskiptum væru fyrir löngu orðin hluti af lagasafninu með nútímalegra orðalagi ef ekki væri fyrir þetta ákvæði Jónsbókar. Ef til vill hefur ákvæðið haldist óbreytt vegna samfellu í lögunum í gegnum aldirnar eða jafnvel af einhvers konar fortíðarhyggju. Kannski hefur einfaldlega ekki verið talin þörf á að bæta óaðfinnanlegt orðalag Jónsbókar um kaupfox sem raunar var reist á enn eldri lögbók, Járnsíðu.
Síðast breytt 9. september 2025