Skip to main content

Pistlar

Treggjaldi

Í skáldverki Guðmundar G. Hagalín segir sú „gamla, góða kona“ Kristrún í Hamravík á einum stað um æðri máttarvöld að þau stýri nú öllu farsællega „yfir hvern treggjalda í veraldarinnar vör“ (Guðmundur Gíslason Hagalín 1933:161). Nafnorðið treggjaldi er skylt orðum eins og lo. tregur og no. tregða (og sömuleiðis þá no. tregi og so. trega). Grunnmerkingin virðist vera e-ð sem veldur fyrirstöðu, einhver þrengsli eða stífla. Í elstu heimild um orðið, í Íslensk-latnesk-danskri orðabók Björns Halldórssonar frá síðari hluta 18. aldar, er gefin merkingin ‘obstaculum, Hindring, Ophold’.

Treggjaldi er einkum þekkt úr vestfirsku talmáli og virðist sjaldgæft í ritmáli. Dæmi í Ritmálssafni Orðabókar Háskólans og á vefnum Tímarit.is má á einn eða annan hátt rekja til Vestfjarða eða nágrannabyggða á Breiðafirði og við Hrútafjörð. Til dæmis er Guðmundur G. Hagalín (1898–1985) fæddur í Arnarfirði og uppalinn í Dýrafirði og orðabókarhöfundurinn Björn Halldórsson (1724–1794) er jafnan kenndur við Sauðlauksdal við Patreksfjörð þar sem hann var lengi prestur.

Að minnsta kosti í seinni tíð virðist no. treggjaldi oftast hafa verið notað í fremur þröngri merkingu um flúðir eða klappir í eða nálægt lendingarvörum, eftir því sem ráða má af dæmum í Ritmálssafni og Talmálssafni Orðabókar Háskólans. Í Talmálssafni er eftirfarandi lýsing sem mun vera úr óútgefnu orðasafni eftir Finnboga Bernódusson frá Bolungarvík:

„Þegar varir voru fyrr á tímum ruddar fram gegnum stórgrýti, var grjótinu rutt fram til beggja hliða, svo að vogar mynduðust. Þessir vogar voru kallaðir varir. Svo langt var rutt sem komist varð, en af því að í þá tíð voru hvorki til kafarar né froskmenn, var jafnan eftir grjótveggur fremst í vararhólkinum, og hét þessi grjótveggur treggjaldi. Því var kölluð treggjaldafjara, þegar svo langt féll út að náð varð til að lagfæra hann og fjarlægja óþægilega staksteina.“

Varirnar kröfðust stöðugs viðhalds, ryðja þurfti burt stórgrýti sem sjórinn bar í þær og það var engin hægindavinna (um varir, sjá nánar Lúðvík Kristjánsson 1983:69 o.áfr.). Auk þessara lausu steina gátu hvers kyns flögur og flúrur fremst í vörinni verið kallaðar treggjaldar samkvæmt heimildarmönnum Talmálssafns. Bóndi í Hrútafirði gaf eftirfarandi notkunardæmi: „Það flýtur ekki yfir treggjaldann var sagt þegar lenda þurfti báti þar sem treggjaldi var fyrir og nokkuð tekið að fjara út.“

Treggjaldi hefur einnig verið notað í merkingunni ‘þrengsli, stífla’ í öðru samhengi, en þekkt dæmi eru hér færri. Samkvæmt Íslensk-danskri orðabók Sigfúsar Blöndal er – þegar samhengi lendingarvara sleppir – orðið helst aðeins notað um stíflu „í hálsi, koki og nefi (einkum á börnum)“ (sjá einnig Íslenska orðabók). Þó eru dæmi, bæði í Talmálssafni og á vefnum Tímarit.is, um almennari notkun orðsins um einhvers konar fyrirstöðu sem hindrar flæði. Í orðasafni Þórbergs Þórðarsonar, sem varðveitt er á Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, er einnig orðið treggjald, í hvorugkyni, sem merkir „e-ð sem veldur fyrirstöðu, t.d. tapp [svo] í flöskustút“ (heimildarmaður frá Hrútafirði). Myndin treggjald kemur líka fyrir hjá öðrum heimildarmanni Talmálssafns. Í orðasafninu Orðasjóði Kollsvíkinga (á netinu), sem lýsir orðaforða í Kollsvík fram á síðari hluta 20. aldar, segir að no. treggjaldi hafi verið notað um „hindrun af ýmsu tagi“ og gefið notkunardæmið: „Einhver bölvaður treggjaldi er nú kominn í niðurfallið“.

Eitt dæmi um notkun sem fellur undir merkinguna ‘stífla (í hálsi, koki og nösum (einkum á börnum))’ er í Ritmálssafni Orðabókar Háskólans. Í riti frá 19. öld var alþingismaður nokkur kallaður „maðurinn með treggjaldann í nefinu“.

Önnur heimild um orðið treggjaldi eru örnefnaskrár, en nokkur dæmi eru um að Treggjaldi sé skráð sem örnefni á Vestfjörðum og Breiðafirði. Mér er kunnugt um dæmi úr örnefnaskrám eftirfarandi jarða (lýsingarnar að mestu teknar orðrétt úr örnefnaskrám):

  • Arnórsstaðir og Neðri-Rauðsdalur á Barðaströnd (Barðastrandarhr., V-Barð.): Skammt undan landi eru Treggjaldar.
  • Auðshaugur og Auðnar á Hjarðarnesi (Barðastrandarhr., V-Barð.): Þvert yfir mynni Flæðivíkur liggur þangrif er heitir Treggjaldar.
  • Fjallaskagi í Dýrafirði (Mýrahr., V-Ís.): Á skaganum er svonefnd Stertalending og heitir grynning beggja megin við hana Treggjaldi og kemur hann upp úr um fjöru. Hægt var að koma báti gegnum Treggjalda um tvö sund.
  • Hreggsstaðir á Barðaströnd (Barðastrandarhr., V-Barð.): Fyrir framan Sölvaflögu eru hleinaköst sem kölluð voru Treggjaldar. Þeir ollu því að erfitt var að taka land þegar lágsjávað var. Í daglegu tali var talað um Innra-Treggjaldakast, og utar Ytra-Treggjaldakast. Í annarri örnefnaskrá er talað um skerjaklasa sem hafi heitið (í fleirtölu) Innri-Treggjaldaköst og Ytri-Treggjaldaköst.
  • Höfn í Dýrafirði (Þingeyrarhr., V-Ís.): Lendingin í Höfn var nefnd Vörin og þvert yfir hana liggur klettaflúð, nefnd Treggjaldi. Yfir Treggjaldann flaut ekki um stórar fjörur, þó að nóg dýpi væri fyrir ofan [þ.e. nær landi] hann.
  • Sjöundá á Rauðasandi (Rauðasandshr., V-Barð.): Í einni lýsingu segir að Treggjaldi sé klettarið sem er þvert yfir Bæjarvík, fyrir lendingunni, og flýtur illa yfir. Í annarri að Treggjaldi sé hlein sem fellur yfir við hálffallinn sjó, fremst í Bæjarvík, þar sem lent er.
  • Skáleyjar á Breiðafirði (Flateyjarhr., A-Barð.). Í örnefnalýsingu segir frá leiðinni að vör einni að aðalleiðin að lendingunni sé um sund sem heitir Treggjaldi. Við sundið er svo Treggjaldasker.

Það er einkennilegt í síðasta dæminu að þar er skerið í lendingunni ekki nefnt Treggjaldi heldur virðist það kennt við sundið Treggjalda. Hér má benda á að algeng breyting á örnefnum felst í því að við þau bætist ákvæðisliður, þ.e. viðbótarliður til skýringar, s.s. Þorbjörn > Þorbjarnarfell. Því má hugsa sér að upphaflega hafi skerið verið nefnt Treggjaldi, en síðar fengið ákvæðisliðinn -sker og nafnið Treggjaldi þá færst yfir á sundið.

Ótalið er eitt dæmi úr örnefnaskrám þar sem virðist á ferð sama nafn, en formið er frábrugðið, ritað með einu g og borið fram eftir því: Tregjaldi.

  • Arnardalur í Skutulsfirði (Eyrarhr., N-Ís.). Í örnefnaskrá segir: „Tregjaldi. Við stærstu fjörur, stórstraumsfjörur, koma upp álar og grónar skerjatungur er nefndust svo, þ.e. Tregjaldisfjara. Í athugasemdum er eftirfarandi ritað eftir heimildarmanni (Halldóri S. Guðjónssyni frá Fremri-Arnardal, 1911–1990) til nánari útskýringar um örnefnið:

„Þetta eru ekki beint klappir, en tungur grónar þara, sem koma upp á stórstraumsfjörum. Er þá talað um „Tregjaldisfjörur“. Um slíkar fjörur var erfitt að lenda bátum, varð að þræða milli tungnanna upp í varirnar. Halldór minnist þess ekki að neitt sérstakt, klettur eða þ.h. væri kallað Tregjaldi, en sagt var, að féð væri frammi á Tregjöldum, þegar það var á þessum tungum.“

Áður var nefnt að orðið treggjaldi hlýtur að vera skylt orðum eins og tregur og tregða. Virðist þó örðugt að skýra hið langa gg líkt og Ásgeir Blöndal Magnússon benti á í Íslenskri orðsifjabók. Ef til vill endurspeglar myndin tregjaldi eldra stig í þróun orðsins en ekkert verður fullyrt um það að svo stöddu. Í lokin er vert að benda á að í orðsifjabók Ásgeirs er einnig nefnd framburðarmyndin dreggjaldi og hef ég ekki fundið aðrar heimildir fyrir henni. Vera kann að Ásgeir hafi þekkt hana sjálfur enda fæddur í Arnarfirði og uppalinn á Þingeyri við Dýrafjörð.

 

 

Birt þann 14. september 2020
Síðast breytt 24. október 2023
Heimildir

Ritaskrá:

Guðmundur Gíslason Hagalín. Kristrún í Hamravík. Sögukorn um þá gömlu, góðu konu. Þorsteinn M. Jónsson, Akureyri.

Íslensk-dönsk orðabók. Höfundur Sigfús Blöndal. Aðalsamverkamenn Björg Þorláksdóttir Blöndal, Jón Ófeigsson og Holger Wiehe. Reykjavík, 1920–1924.

Íslensk orðabók. Ritstjóri Mörður Árnason. Edda, Reykjavík, 2002.

Íslensk orðsifjabók. Höfundur Ásgeir Blöndal Magnússon. Orðabók Háskólans, Reykjavík, 1989.

Lúðvík Kristjánsson. 1983. Íslenzkir sjávarhættir 3. Bókaútgáfa Menningarsjóðs, Reykjavík.

Orðabók. Íslensk – latnesk – dönsk. Höfundur Björn Halldórsson. Jón Aðalsteinn Jónsson sá um útgáfuna. Orðfræðirit fyrri alda 2. Orðabók Háskólans, Reykjavík, 1992.

Örnefnaskrár í Örnefnasafni Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.