Skip to main content

Pistlar

Þjóðsögur Magnúsar Grímssonar í AM 968 4to

Segja má að árið 1845 sé upphafsár þjóðfræðasöfnunar á Íslandi í anda Grimmsbræðra. Það ár tóku þeir Jón Árnason (1819–1888) og Magnús Grímsson (1825–1860) sig saman um að safna öllum „alþýðlegum fornfræðum“ sem þeir gætu komist yfir og átti Magnús að safna sögum en Jón „kreddum, leikum, þulum, gátum og kvæðum“. Afraksturinn af þessu samstarfi varð fyrsta prentaða íslenska þjóðsagnasafnið, Íslenzk æfintýri, sem þeir félagar gáfu út árið 1852.

Ljósm.SSJ

Þetta sama ár lagði George Stephens (1813–1895), breskur fræðimaður sem þá var búsettur í Svíþjóð, einnig fram tillögu um að hafist yrði handa við að safna alþýðusögum og kvæðum á Íslandi. Tillagan var samþykkt á fundi Hins konunglega norræna fornfræðafélags 17. júlí 1845. Félagið starfaði í Kaupmannahöfn í nánum tengslum við Fornleifanefndina (Den Kongelige Commission for Oldsagers Opbevaring) og lagði aðaláherslu á rannsóknir fornleifa og útgáfu íslenskra fornrita. Innan þess voru íslenskir lærdómsmenn búsettir bæði í Kaupmannahöfn og á Íslandi. Tillögu Stephens var vel tekið, strax var hafist handa við undirbúning og árið eftir gaf Fornleifanefndin út „Boðsbréf til Íslendinga um fornritaskýrslur og fornsögur“ sem prentað var í Antiquarisk Tidsskrift (AT) 1843–1845 (191–192). Boðsbréfið var einnig sent til „allra presta og sýslumanna, og ýmsra annara fróðleiksvina“ (AT 1846–1848, 39) og gaf nokkurn afrakstur því ýmsar uppskriftir fornsagna, kvæða og þjóðsagna bárust félaginu á næstu árum, eins og hægt er að lesa um í skýrslum um handrit félagsins í Antiquarisk Tidsskrift. Einn þeirra sem svaraði kallinu var einmitt Magnús Grímsson sem þá var skólapiltur, fyrst á Bessastöðum og síðan í Reykjavík eftir að skólinn fluttist þangað. Hann útskrifaðist úr Reykjavíkurskóla árið 1848 og varð seinna prestur að Mosfelli í Mosfellssveit. Af skýrslu félagsins fyrir árið 1847 sést að vitneskja hefur borist um að Magnús Grímsson eigi stórt skrifað safn þjóðsagna og 1849 er síðan sagt frá því að hann hafi nú sent félaginu uppskrift af því og að þar séu „margar sögur sem fylgja stöðum og örnefnum, álfa sögur og um útilegumenn, yms átrúnaður, skýrslur um leiki o.fl.“ (AT 1849–1851, 24). Sagnahandritin, bæði með fornsögum og þjóðsögum, sem söfnuðust hjá fornfræðafélaginu gengu til Árnasafns árið 1883 og þar fékk handrit Magnúsar safnmarkið AM 968 4to. Með samanburði við önnur þjóðsagnahandrit Magnúsar sést að í AM 968 4to hafa verið uppskrifaðar sögur sem Magnús safnaði snemma á ferli sínum sem þjóðsagnasafnari. Þjóðsagnahandrit Magnúsar Grímssonar, sem ekki fóru til Kaupmannahafnar, eru nú hluti af þjóðsagnahandritum Jóns Árnasonar í handritasafni Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafni og þær sögur sem Magnús safnaði fyrst er að finna í handritinu Lbs 415 8vo. Í frumritinu nefnir Magnús oft hvaðan hann hefur sögurnar og hvenær hann skrifaði þær fyrst, en þær upplýsingar lét hann ekki fylgja sögunum sem hann valdi 1847 eða 1848 og skrifaði upp til að senda Hinu konunglega norræna fornfræðafélagi.

 

Birt þann 28. október 2019
Síðast breytt 24. október 2023