Skip to main content

Pistlar

Þjóðarsagan og örnefnin

Áhugi á örnefnum er oft nátengdur áhuga á fortíðinni. Þetta sést þegar í elstu ritum okkar, Landnámu og Íslendingasögum þar sem örnefni sem þekktust á ritunartíma eru notuð til að varpa ljósi á og staðfesta atburði sem gerðust löngu fyrr. Oft reyndu fornfræðingar 19. aldar að grafa í meinta hauga landnámsmanna sem við þá voru kenndir en uppskáru lítið annað en erfiðið. Uppgrónir skurðir eftir slíkan gröft sjást víða enn, t.d. í Ófeigshól sem er í túni Skarða í Reykjahverfi, en þar átti Ófeigur Járngerðarson að vera heygður, og sömuleiðis sjást graftrarmerki í hólum norðan við Úlfljótsvatn þar sem eru hvorki meira né minna en þrír meintir haugar nafngreindra landnámsmanna: Úlfljótshaugur, Villingshaugur og Ölvishaugur. Örnefnin voru þannig leiðarljós við rannsóknir. Fornleifafræðingar samtímans nota oft örnefni til að lesa í landslag fortíðar en yfirleitt þó með gagnrýnum augum. Nokkrar fornleifarannsóknir hafa fjallað öðrum þræði um tengsl örnefna við minjar og m.a. hefur verið sýnt fram á að rústir sem heita Dómhringar og höfðu verið tengdar við þinghald til forna eru af misgömlum mannvirkjum með ýmis hversdagsleg hlutverk, t.d. kirkjugarðar og heystæði, og þar af leiðandi hljóta örnefnin að teljast vafasamar heimildir. Þau hafa væntanlega orðið til sem getgátur eða óskhyggja þeirra sem horfðu á rústirnar, líklega innblásnir af hugmyndafræði rómantíkur og sjálfstæðisbaráttu. Við þetta má bæta að fyrir nokkrum árum var sýnt fram á að svonefnd Hoftóft á Hofstöðum í Þorskafirði, sem hafði verið friðlýst á árum áður og skoðuð af nokkrum kynslóðum fræðimanna, væri ekki annað en náttúruleg dæld. Þetta eru dæmi um að tengsl örnefna og fortíðar geti verið flókin.

Staðir sem tengjast stórum atburðum í þjóðarsögunni eru sérstaklega áhugaverðir í þessu tilliti. Hér verða nefndir til sögunnar Þingvellir og Skálholt, en báðir staðirnir eiga það sammerkt að hafa verið miðstöðvar þjóðlífs um margra alda skeið og í báðum tilvikum myndaðist einhvers konar rof í þekkingu á staðfræði. Þinghald á Þingvöllum leið undir lok árið 1798 eins og kunnugt er og nokkrum árum áður hafði biskupsstóll og skólahald verið lagt af í Skálholti eftir mikinn jarðskjálfta. Liður í að endurreisa slíka staði er oft að finna týndum örnefnum stað. Frægasta dæmi um slíkt á Þingvöllum er án efa enduruppgötvun Lögbergs, en staðsetning þess var ekki ljós þegar menn fóru að reyna að átta sig á staðháttum að nýju á 19. öld. Matthías Þórðarson þjóðminjavörður færði rök fyrir því að staðurinn hefði verið á Hallinum vestan Öxarár. Þar var reist fánastöng og nafnið LÖGBERG greypt í stein á staðnum líkt og til að festa nafnið við hann. Þetta enduruppgötvaða Lögberg lék síðan aðalhlutverk á lýðveldishátíðinni 1944.

Nokkur dæmi um endurreisn örnefna eru einnig þekkt í Skálholti sem hafði orðið að venjulegri bújörð eftir skjálftann mikla. Ferða- og fræðimenn sem komu þangað á síðari hluta 19. aldar og í upphafi þeirrar tuttugustu hörmuðu dapurlegt ástand staðarins og hve hann hefði tapað miklu af fornri frægð. Árið 1927 ritaði Sigurður Skúlason örnefnalýsingu fyrir Skálholt og var ærin fyrirhöfn að safna þar nöfnum, enda taldi hann að allur þorri þeirra væri gleymdur. Hann leitaði víða fanga og telur upp nokkur nöfn sem voru til vitnis um sögulega atburði. Eitt þeirra var Fornistöðull þar sem Jón Arason biskup og fylgdarmenn hans reistu tjöld sín er þeir komu í Skálholt og í Íragerði átti að vera leiði hinna írsku sveina Jóns Gerrekssonar sem voru drepnir 1433. Eitt þeirra nafna sem heimildir virðast hafa verið sérstaklega rýrar um er Virkishóll, sem nú er almennt sýndur sem hóll austan við kirkjuna og er af mörgum talinn leifar af virki sem Skálhyltingar reistu 1548. Sigurður fer ekki í grafgötur með að hóllinn „beri naumast nokkurt sérstakt nafn“ en hann leyfi sér að kalla hann Virkishól og það nafn ætti að festast við hann til að hann gleymdist síður.  Staðsetningin kemur reyndar ekki fullvel heim og saman við heimildir um virkið, enda átti það að hafa verið inni í kirkjugarðinum en hóllinn var austan við hann. Í yngri útgáfu af örnefnaskránni rökstyður Sigurður þetta þannig að kirkjugarðurinn hafi verið minnkaður að austan.

Annað dæmi um óvissa staðsetningu á fornu örnefni er Jólavallargarður sem kemur fyrir í ævisögu Brynjólfs Sveinssonar, þar sem sagt er frá viðarflutningum heim að Skálholti árið 1646: „Þá hver dráttur var kominn heim yfir Jólavallargarð, skipaði biskupinn að bera hey út undir garðinn...“ Sigurður segir í örnefnalýsingunni að sér hafi ekki tekist að afla öruggrar vitneskju um staðsetningu, en bendir á fornan garð skammt fyrir sunnan Kringlu sem er hóll í túninu. Hann giskar á að þetta gæti verið staðurinn – en síðan þá virðist garðurinn alltaf kallaður Jólavallargarður og er friðlýstur á þeim forsendum að það sé „talið kunna að vera“ leifar umrædds garðs. Þrátt fyrir skurðagröft fornleifafræðinga hefur ekki tekist að aldursgreina minjarnar. 

Þetta eru nokkrar dæmisögur sem sýna hvernig hugmyndir sem við höfum í dag um merkingarþrungna staði gætu hafa orðið til. Það er líklegt að í tilviki Skálholts hafi þær fest enn frekar í sessi með endurreisn staðarins um miðja 20. öld, enda sést af bæði útgefnu efni, blaðaviðtölum o.fl. að um það leyti er mikil áhersla lögð á að draga fram kennileiti sem tengjast kirkjusögunni og biskupsstólnum. Þannig voru óljósar minningar um merka atburði og örnefni hlutgerðar í minjum og stöðum sem hægt var að benda á og sjá af eigin raun. 

Birt þann 25. október 2019
Síðast breytt 24. október 2023
Heimildir

Adolf Friðriksson og Orri Vésteinsson. 1992. „Dómhringa saga: grein um fornleifaskýringar.“ Saga, bls. 7–79.

Guðrún Alda Gísladóttir. 2011. „Fornleifarannsókn að Hofstöðum í Þorskafirði.“ Árbók Hins íslenzka fornleifafélags 2010, bls. 95–116.

Ísleif, gagnagrunnur um fornleifar. Fornleifastofnun Íslands.

Matthías Þórðarson. 1945. Þingvöllur. Alþingisstaðurinn forni. Alþingissögunefnd, Reykjavík.

Sigurður Skúlason. 1927. „Örnefni um Skálholtsland.“ Árbók Hins íslenzka fornleifafélags 1927, bls. 56–65. [Skráin var síðar endurútgefin lítils háttar breytt. Sjá Sigurður Skúlason. 1953. „Nokkur örnefni í Skálholtslandi.“ Inn til fjalla. Rit Félags Biskupstungnamanna í Reykjavík II, bls. 154–166.]

Mynd 1:  Fornleifafræðingur á einum hauganna norðan Úlfljótsvatns. Ljósmynd: Birna Lárusdóttir/Fornleifastofnun Íslands.

Mynd 2:  Hinn meinti Jólavallagarður í Skálholti í forgrunni, Vörðufell í baksýn. Ljósmynd: Elín Ósk Hreiðarsdóttir/Fornleifastofnun Íslands.