Birtist upphaflega í júlí 2018.
Nú er e.t.v. loksins að koma sumar og fólk að byrja að dýfa tá ofan í sjó. Nafn mánaðarins fyrir júlí er því örnefnið „Táin“ sem er nafn á hafsvæði rúmlega 60 kílómetra frá suðurströnd Reykjaness. Örnefnið er ekki nafn á kennileiti fyrir ofan sjávarmál og það kemur ekki fyrir á gömlum prentuðum kortum. Þess í stað tilheyrir nafnið áberandi nesi eða tungu sem skagar fram úr Selvogsbanka rúmlega 175 metra undir sjávarmáli, eins og sést á nútímasjókorti.
Örnefnið „Tá“ er að finna á mörgum stöðum á landinu, bæði sem ósamsett mynd og í samsettum örnefnum. Fyrir utan dæmið að ofan, er Tá (eða Táin) sem ósamsett örnefni að finna t.d. í Bláskógabyggð sem nafn á holti og í Þingeyjarsveit sem nafn á skeri. Oftast er það samt nafn á nesjum við sjávarströndina eða við stöðuvötn eða ár. Kristmundur Hannesson og Gunnhildur Skaftadóttir skilgreina aðalmerkingu orðsins í Staðfræðiorðasafni sínu þannig: „tá, -ar, tær KV langt og mjótt nes, nesoddi“, en þess er getið að það þýði einnig „lágur oddi einhvers í landslagi: bjargtá.” Í Íslenskri orðsifjabók er að finna aðra greiningu á orðinu „tá“, en hér er um að ræða hvorugkyns nafnorð sem er ekki lengur í notkun, en orðið merkir „gangstétt, stígur“: í færslunni er sagt að „Upphafl. merk. orðsins tá virðist vera ‚harðtroðinn jarðvegsblettur.‘“ Kristmundur og Gunnhildur vitna einnig í þessa merkingu í Staðfræðiorðasafni sínu: “tá, -s, - H stétt, gangstétt; vegur, stígur”. Í samhengi örnefna þarf maður því að skoða hvert dæmi fyrir sig til að komast að því hvort merkingin bendi til þess að um sé að ræða annars vegar nes eða odda eða hins vegar stíg. Hér má til gamans benda á að skylt „tá“ í þessari merkingu er danska orðið „fortov“ fyrir gangstétt, og margir kannast væntanlega við dönskuslettuna „fortó“. Samt var þegar farið að vara við notkun hennar um miðja síðustu öld, eins og má lesa hér í tímaritinu Hlín frá árinu 1942.
Hvað varðar örnefnið Tá í Bláskógabyggð, þá má í örnefnalýsingu fyrir Bræðratungu, Hvítárbakka, Ásakot og Galtalæk í gamla Biskupstungnahreppi, Árnessýslu (bls. 5) lesa að: „Reiðingssund (159) er í norðaustur frá því inn með löngum ás, sem er brattur að austan en aflíðandi að vestan og nær frá Lómatjörn inn að Markakeldu og heitir Hlíð (160). Suðurendinn á henni heitir Hlíðartá (161), venjulega nefnd Táin (162).“ Og varðandi Tá í Þingeyjarsveit, í örnefnalýsingu fyrir Vargsnes, gamla Ljósavatnshreppi, Suður-Þingeyjarsýslu (bls. 2) stendur að: „Fram af Vargsnesi aðeins laust frá landi er klettur, sem heitir Tá, en niðri í fjörunni Hlein.“
Dæmi af örnefnum sem tilheyra nesjum sem ganga út á sjó eða firði eru m.a.:
Akranestá (Öxney, Dalabyggð);
Balatá (Snæfellsbær);
Bessatá (Svefneyjar, Reykhólahreppur);
Bjargtá (Grundarfjarðarbær);
Gjögurtá (Grýtubakkahreppur);
Haneyjarnestá (Reykhólahreppur);
Haugsnestá (Reykhólahreppur);
Hellutá (Grundarfjarðarbær; Grýtubakkahreppur; Vestmannaeyjabær);
Hólatá (Bolungarvíkurkaupstaður);
Hólmtá (Árneshreppur);
Hraunatá (Ísafjarðarbær);
Höfðatá (Heimaey í Breiðafirði/Hvammsfirði; Akraneskaupstaður);
Katanestá (Hvalfirði, Hvalfjarðarsveit);
Nestá (Dalabyggð, Hvammsfirði; Fjallabyggð, á Siglunesi; Fjarðarbyggð, Reyðarfirði; Húnaþing vestra, Húnaflóa; Kjósarhreppur, Hvalfirði; Snæfellsbær; Ísafjarðarbær);
Núpstá (Ísafjarðarbær);
Oddatá (Grundarfjarðarbær);
Reykjanestá (Grindavíkurbær);
Rytstáin (Ísafjarðarbær);
Skagatá (Sveitarfélagið Skagafjörður);
Sólmundarhöfðatá (Akraneskaupstaður);
Ytri-Tangatá (Vesturbyggð).
Nokkur dæmi þar sem örnefnin virðast tilheyra nesi eða rana innanlands, t.d. á stöðuvötnum, hópum eða ám, eru m.a.:
Bjargatá (Húnaþing vestra, Vesturhópsvatni);
Hagatá (Mývatni, Skútustaðahreppur);
Leiratá (Húnavatnshreppur, Vatnsdalsá);
Leirutá (Bláskógabyggð, í Þingvallavatni)
Nestá (Bláskógabyggð, Þingvallavatni; á tveimur stöðum í Borgarbyggð; Dalabyggð; Þingeyjarsveit, Laxá);
Pollnestá (Þingeyjarsveit);
Snagatá (Borgarbyggð).
Dæmi þar sem örnefni tilheyra einhverju öðru en nesjum eru m.a.:
Flóðahjallatá (öxl, Garðabær);
Heiðartá (heiði, holt, graslendi, Bláskógabyggð; hæð, Hrunamannahreppur);
Hólatá (graslendi, Borgarbyggð);
Hrauntá (hraun, Rangárþing ytra);
Hraunatá (hraun, Norðurþing);
Klappartá (klöpp, Hörgársveit);
Laugheiðartá (mói, Bláskógabyggð);
Miðnestá (klöpp, Borgarnesi, Borgarbyggð);
Ranatá (rani, Rangárþing eystra);
Selholtstá (tunga, Borgarbyggð);
Selmýrartá (mýri, Þingeyjarsveit);
Skotabergstá (mói, Flóahreppur).
Loks má nefna að í fleirtölu er að finna:
Hornatær (fjall, Vesturbyggð);
Hæltær (brún, Vestmannaeyjabær);
Kjalnatær (graslendi, Skaftárhreppur);
Neðri-Hrútatær (bakki, Sveitarfélagið Hornafjörður);
Víðitær (klettabelti, Ísafjarðarbær).
Víða eru líkingar eða myndhvörf notuð við nafngiftir kennileita og hugtakið „landslag sem líkami“ (einnig líkami sem landslag) er gott dæmi um slíkt. Það er mjög algengt að örnefni innihaldi eða byggist á líkamshluta og dæmi um slíkt er að finna í mörgum löndum og í mörgum samfélögum. Þegar líkamshlutar verða liður í örnefnum er það tilvik af manngervingu og með því að greina líkamshluta í landslagi og gefa nöfn á þeim grundvelli varð hægt að „nema“ land og temja náttúruna, en einnig til að auðvelda fólki að rata. Nafnfræðingurinn Carole Hough segir að „the well-known landscape is a body metaphor ... occurs in so many of the world‘s languages that it may plausibly be considered a linguistic universal“ („The Metaphorical Landscape“, bls. 13). Enn fremur, eins og J. Douglas Porteous segir í grein sem heitir „Bodyscape: The body-landscape metaphor“, „So old is our usage of body imagery for landscape features that the terms have been appropriated by our environmental vocabulary and are no longer thought of as metaphor“ (bls. 7).
Hvað varðar örnefni á Íslandi og notkun annarra líkamshluta í þeim, þá eru þau e.t.v. óteljandi mörg, en í þeim koma m.a. fyrir sem liðir: hæll, fótur, sköflungur, læri, rass, klof, typpi, tagl, mjöðm, nári, görn, bak, hryggur, rif, geirvörtur, bringur, barmur, kriki, olnbogi, handleggur, fingur, þumall, hnúfur, öxl, kverk, háls, svíri, haka, munnur, munni, mynni, tunga, kjálki, vör, vangi, nef, kinn, auga, brún, enni, hvirfill, höfuð, haus, höfði, skalli, kollur, og einnig maður, kona, stelpa og strákur. Áætlað er að skoða nánar þetta fyrirbæri í íslenskum örnefnum í komandi örnefnapistlum.
Síðast breytt 24. október 2023