Skip to main content

Pistlar

Sungið yfir kálfum á Strjúgi í Langadal

Sungið yfir kálfum á Strjúgi í Langadal

 

Strjúgi

Sum handrit láta lítið yfir sér en geyma heilan heim. Það á við um AM 461 12mo, dálítið bænakver sem opnar okkur sýn inn í veröld sem nú er flestum framandi: hversdagslegt trúarlíf Íslendinga á fyrri hluta 16. aldar, rétt fyrir siðbreytingu. Fyrsti hluti handritsins inniheldur tímatalsfræði og minnir á hversu áríðandi var fyrir fólk að geta reiknað út páska og aðrar hræranlegar hátíðir kirkjuársins. Í því hefur líka verið dagatal yfir alla messudaga dýrlinga. En uppistaðan í kverinu eru bænir, bæði á íslensku og latínu, sem endurspegla helstu umhugsunarefni og áhyggjur þess sem átti. Þar ber hæst óttann við allt það sem ógnar sáluhjálp eftir dauðann. Djöfullinn sat um sálirnar og vélar hans gátu teygt fólk til synda. Ef manni auðnaðist ekki að skrifta og fá aflausn á dánarbeði, var voðinn vís annars heims. Þá var eins gott að treysta því að Guð og hans heilögu dýrlingar bjargi málum. Í AM 461 12mo er að finna ýmis bjargráð sem að þessu lúta, meðal annars langan lista með nöfnum Guðs sem skrifa mátti upp og hafa á sér: „Hver sem þessi nöfn ber á sér fyrir rétta trú, sjálfur Guð segist þessa manns minnast skulu í hans dauðatíma og hans sál til eilífs fagnaðar snúa.“

            Bænirnar í handritinu hverfast margar um písl Krists á krossinum og þar er Maríu guðsmóður einnig gert hátt undir höfði. Hér er meðal annars rósakransbæn þar sem píslarsagan er römmuð inn af 50 Maríuversum og 5 Faðirvorum. Hana hefur fólk farið með frammi fyrir Maríulíkneski eða róðukrossi í kirkjunni, gjarnan með talnaband í höndum svo auðveldara væri að muna hvert komið væri í bæninni. En í handritinu eru líka annars konar menjar um Maríudýrkun: Aftast í því er að finna slitur af litlu söngvakveri með nótum sem inniheldur söngva fyrir Maríuhátíðir. Þessi litla bænabók getur vel hafa fylgt eiganda sínum til kirkju en auðséð er að bænir og söngvar hafa einnig verið ríkur þáttur í hversdagslegum athöfnum. Á einum stað segir til dæmis: „Ef þú vilt að kálfar lifi, þá syng versið Tunc acceptabis yfir kálfunum þrim sinnum [...]“. Versið er andstef úr morguntíðum í lönguföstu en hefur greinilega líka hljómað á ögurstundum í fjósinu.

            Bókin gefur sjálf örlitla vísbendingu um heimkynni sín. Á blaði 6v stendur á hvolfi á spássíu „struge J Lang“ sem líklega á við bæinn Strjúg í Langadal í Húnavatnssýslu. Þar, örlitlu utar, eru Holtastaðir þar sem í kaþólskri tíð var kirkja helguð heilögum Nikulási. Í máldaga frá árinu 1461 kemur fram að í kirkjunni voru líkneski Nikulásar, Maríu guðsmóður, Jóhannesar skírara, heilagrar Katrínar og heilagrar Sítu. Síta er sjaldséð í íslenskum heimildum en líklega barst dýrkun hennar til landsins frá Englandi þar sem hún var höfð í hávegum af þjónustufólki og húsmæðrum. Svo vill til að í AM 461 12mo er einmitt bæn til heilagrar Sítu og gera má því skóna að eigandi handritsins hafi kropið að líkneski hennar á Holtastöðum og heitið á hana til árnaðar í þessu lífi og því næsta.

 

 

 

Birt þann 17. apríl 2019
Síðast breytt 24. október 2023