Skip to main content

Pistlar

Stórlygarar

Teikning af svörtu nauti með kórónu. Rauður bakgrunnur. Í talblöðru: "Því lýgurðu, aldrei hef ég í nautsrassi verið."
Mynd: Kristín Ragna Gunnarsdóttir

Margir þekkja svokallaðar Münchhausensögur, eða sögur sem hafa verið lagðar í munn Münchhausen barón sem hét réttu nafni Hieronimus Karl Friedrich Freiherr von Münchhausen, af aðalsættinni Hannover. Hann var fæddur 11. maí 1720 og dó 22. febrúar 1797 og er óneitanlega þekktastur fyrir ýkjusögurnar sem segja af stórkostlegum ævintýrum hans meðal annars á ferðum til Rússlands og Tyrklands. Sögur Münchhausens eru það þekktar að í alþjóðlegri skrá yfir gerðir þjóðsagna eiga þær sitt eigið númer: ATU 1889 Münchhausen Tales (skráin er kennd við höfundana Aarne, Thompson og Uther, en sá síðastnefndi endurnýjaði skrá hinna tveggja í The Types of International Folktales (2004)).

Íslenskir stórlygarar

Sögur í svipuðum dúr eru þekktar í ýmsum löndum og þar er Ísland ekki undanskilið. Ólafur Davíðsson (ÓD) þjóðsagnasafnari með meiru varð fyrstur til að safna skipulega slíkum stórlygarasögum og í fjórða bindi af nýjustu útgáfunni á þjóðsagnasafni hans er að finna sögur af yfir tuttugu stórlygurum, allt frá Vellygna-Bjarna til Lyga-Þorláks. Eins og sögur Münchhausens fjalla hinar íslensku stórlygarasögur oft um ferðalög söguhetjanna og taka þá mið af íslensku landslagi og umhverfi. Til dæmis lenda þessir Íslendingar oft í miklum hvassviðrum, stórhríðum og ógurlegu fannfergi en eru þó oftast lygilega fljótir í ferðum, eins og sögurnar af Vellygna-Bjarna eru góð dæmi um. Einnig koma margoft við sögu óvenjulega stórir hlutir og dýr svo sem rekatréð sem varð fyrir Tómasi Steinssyni (1769–1843) á Borgum í Grímsey. Hann sigldi meðfram því þéttan byr í sólarhring og sá þó ekki fyrir endann á því (ÓD IV 197). Tómas sagði einnig sögu af óvenjustórum hákarli sem hann veiddi en Ólafur Davíðsson skráði 1902 eftir Óla Björnssyni (1884–1927) í Hrísey:

Eitt vor varð Tómas bjargarlítill og reri því snemma dags vestur fyrir ey einn á lítilli byttu sem hann átti. Rétt eftir það er hann hafði rennt, kom hann í drátt þungan og átti hann fullt í fangi með að draga, en þá er drátturinn kom undir borð, sá hann að þetta var hákarl geysilega mikill. Ekki voru tök á að Tómas gæti drepið hákarlinn og reri hann hann því til eyjarinnar lifandi. Þar smalaði hann saman mörgum mönnum og drápu þeir hákarlinn. Þá er farið var að skera hann sundur, þóttist Tómas heyra eitthvert hljóð inni í hákarlsmaganum. Hann skar því á magann og kom þá í ljós heil skemma. Þaðan heyrðist greinilegt mannamál og komu út úr skemmunni tveir Mývetningar. Um veturinn hafði hákarlinn synt alla leið upp í Mývatn um undirgöng og hafði notað tækifærið til að gleypa skemmu sem stóð þar á vatnsbakkanum. Mývetningarnir höfðu verið að eta magála og drekka brennivín í skemmunni og höfðu þeir lifað góðu lífi innan í hákarlinum á því, sem þeir áttu eftir af þessu dýrindi, þegar hákarlinn gleypti þá (ÓD IV 201).

Margar sögur fara síðan af skotfimi og fiskni hetjanna, svo sem af Sigga á Laugabóli sem skaut hrútinn þvert yfir Ísafjörð:

Eða af Eymundi í Dilksnesi sem skaut fimmtán álftir í einu skoti í myrkri:

Nú lýgurðu!

Hér finnast einnig sögur þar sem segja má að reynt sé að þagga niður í eða ofbjóða hinum stórkostlega sögumanni og fá hann til að bera lygi upp á viðmælandann. Veturinn 1912–1913 voru þeir Þorvaldur Björnsson (1833–1922) á Þorvaldseyri og Sigurður Loftsson (1838–1919) á Hjörleifshöfða báðir staddir á Hvoli í Mýrdal hjá Eyjólfi Guðmundssyni (1870–1954). „Sigurður sagði stórbrotnar sögur af sínum ættmönnum og af sjálfum sér: „Þegar manntapinn varð í Dyrhólahöfn þá hljóp ég upp með bandið og hélt skipinu svo sterklega að árið eftir sáust sporin í fjörunni, þar sem ég spyrnti við árinu áður og hélt skipinu.“ „Það finnst mér nú ekki mikið,“ sagði Þorvaldur og hló, „en ég þekkti mann, sem reri í Vestmannaeyjum, og einu sinni flúði skipið, sem hann var á, undan stórfiski. Þessi maður reri þá svo sterklega sinni ár að vertíð næsta á eftir sáust áraförin hans á sjónum.“ Sigurði ofbauð að heyra þetta og hreytir til Þorvaldar: „Helvítis lygi er þetta, lagsi, pá. – En hver var maðurinn?“ (Eyjólfur Guðmundsson. Þjóðsögur og þættir úr Mýrdal. Reykjavík, 1981, 116–117). 

Ævintýrasögur

Langflestar ýkjusögur sem hér hafa verið nefndar fjalla um og eru hafðar eftir nafngreindum mönnum en hér á landi má einnig finna sögur þar sem sögupersónurnar eru karl og kerling í koti, kóngur og drottning í ríki sínu og jafnvel skessur. Sagan af karlinum sem sótti Brúnku upp til himna sem Kristlaug Tryggvadóttir (1900–1981) húsfreyja og ljósmóðir á Halldórsstöðum í Bárðardal, S-Þing., sagði Jóni Samsonarsyni árið 1978 er skemmtilegt dæmi um slíka sögu:

Sum þessara ævintýra fela í sér einhvers konar keppni þar sem karlssonurinn fær verðlaun geti hann fengið andstæðinginn til að fara að hlæja eða segja: „Nei, nú lýgurðu!“ Ragnhildur Einarsdóttir (1918–2012) húsfreyja á Básum í Grímsey, sem ólst upp á Stórulaugum í Reykjadal, S-Þing., sagði Helgu Jóhannsdóttur 1973 sögu af lygnum strák sem fer létt með að fá skessu til að hlæja svo hún vísi honum á geiturnar sem hann hefur týnt:

Algengara er þó að sögurnar taki á sig enn meiri ævintýrablæ og að sá sem getur logið þangað til kóngurinn hættir að trúa eignist kóngsdótturina að lokum. Karlssonurinn í þeim sögum heitir oftar en ekki Loki og hafa slíkar sögur því verið kallaðar Lokalygi. Orðið er einnig notað yfir margs konar aðrar ótrúlegar frásagnir eða staðleysu og beinir huganum ósjálfrátt til hins goðfræðilega Loka sem með lygum fékk dverga til að smíða helstu dýrgripi goðanna, gullhár Sifjar, spjótið Gungni, hringinn Draupni, langskip og gölt Freys og sjálfan Mjölni (sjá Eldar Heide. „Loki, the Vätte, and the Ash Lad: A Study Combining Old Scandinavian and Late Material.“ Viking and Medieval Scandinavia 7 (2011):63–106). Lygarnar sem karlsson sem eignast prinsessuna segir taka á sig ýmsar myndir en algengustu tilbrigðin koma einmitt öll fyrir í einni frásögn í þjóðsagnasafni Ólafs Davíðssonar og Kristrún Matthíasdóttir (1923–2011) kunni einnig fleiri en eitt tilbrigði:

 

Birt þann 27. febrúar 2023
Síðast breytt 24. október 2023