Skip to main content

Pistlar

Sagan af Ásmundi og vindi: Umhverfið í ævintýrum

Í þjóðfræðisafni stofnunarinnar finnast tvær upptökur þar sem sagnaþulir segja ævintýrið af Ásmundi og vindi. Eins og titill sögunnar gefur til kynna koma veður og vindur þar við sögu en söguhetjan Ásmundur fer þrisvar í ferðalag til þess að krefja vindinn um bætur fyrir að feykja allri töðunni af túninu. Sagnafólkið er Katrín Valdimarsdóttir (1898–1984) og Stefán Guðmundsson (1898–1983) og er hægt að hlusta á þau segja ævintýrið í gagnasafni þjóðfræðisafnsins á ismus.is.

Katrín lærði söguna af ömmu sinni Hólmfríði Sigurðardóttur (1833–1913) og sagði Hallfreði Erni Eiríkssyni hana 2. desember 1971:

Stefán sagði Helgu Jóhannsdóttur söguna 21. september 1969:

Ævintýrum hefur verið skipað niður í alþjóðlegt kerfi yfir svokallaðar sagnagerðir þar sem hver sagnagerð fær ákveðið númer sem síðan er oftast auðkennt með stöfunum ATU sem eru upphafsstafir þeirra Aarne, Thompson og Uther sem teljast höfundar kerfisins. Sagan af Ásmundi og vindi telst til ATU 563, sem er vel þekkt sagnagerð og finnast dæmi um hana í flestum heimshlutum. Samkvæmt ATU skránni felst söguþráðurinn í því að fátækur maður fær þrjá töfrahluti frá yfirnáttúrlegri veru, t.d. borð, poka eða dúk sem gefur óþrjótandi mat, asna sem gull kemur niður af og kylfu sem lemur óvininn þangað til henni er sagt að hætta. Tveimur fyrstu gripunum er síðan stolið af honum af manni sem hann gistir hjá en hann nær þeim síðan aftur með hjálp kylfunnar.

Litrík teikning. Maður ríður asna eftir sveitavegi. Hann er með borð á höfðinu.
Teikning frá 19. öld við útgáfu Grimm-bræðra af sagnagerðinni
Wikimedia Commons

Í því tilbrigði sem prentað er í þjóðsagnasafni Jóns Árnasonar og kallað „Grautardalls saga” eiga karl og kerling þegar í upphafi grautardall sem aldrei þrýtur grautur í. Prestur sem gistir hjá þeim falast eftir dallinum og lætur karlsson hafa dúk, tryppi sem peningar hrynja af og síðast kylfu sem borgun fyrir grautardallinn. Á leiðinni heim hittir strákur síðan kóngsdóttur sem kaupir af honum hlutina og giftist stráknum að lokum frekar en að hann láti kylfuna berja hana. Í öðru íslensku tilbrigði, sem varðveitt er í handriti á Landsbókasafni, er það kóngur en ekki prestur sem kemur við sögu og hlutunum er stolið af manni sem hetjan gistir hjá, en að öðru leyti er það líkt prentaða tilbrigðinu.

Það að vindurinn og töðumissir skuli vera það sem kemur atburðarásinni af stað virðist ekki vera algengt í tilbrigðum sögunnar, hvorki hér á landi né annars staðar, en í norsku tilbrigði, „Gutten som gikk til nordenvinden og krevde igjen melet“, er það mjöl sem strákurinn á að sækja í útibúrið sem vindurinn feykir á brott.

Í sögum þeirra Stefáns og Katrínar af Ásmundi er það einmitt þetta atriði um töðufokið sem sterkast gefur til kynna tengsl við það samfélag sem sagan er sögð í. Sagan segir frá Ásmundi karlssyni sem ákveður að fara að finna vindinn og heimta af honum bætur vegna þess að hann hafi feykt allri töðunni af túni föður hans. Á leiðinni gistir hann hjá tveimur systrum sem virðast vera ósköp vinalegar og bjóða honum að gista aftur á leiðinni heim. Vindurinn lætur Ásmund hafa folald sem kúkar mat og pissar mjólk, systurnar taka folaldið og setja sitt folald í staðinn en það er að sjálfsögðu ekki gætt slíkum töfrum. Þegar Ásmundur kemur heim kemst hann að því að folaldið kúkar bara venjulegum folaldakúk og fer aftur af stað að hitta vindinn. Nú lætur vindurinn hann hafa borðdúk sem hefur þá náttúru að þegar hann er breiddur á borð fyllist hann af mat og drykk. Systurnar stela af honum dúknum og setja sinn venjulega dúk í pokann hans í staðinn. Í þriðja sinn fer Ásmundur að hitta vindinn sem í þetta sinn gefur honum klumbu sem hægt er að segja að berja allt sem fyrir er. Systurnar þurfa einnig að prófa þessa gjöf með þeim afleiðingum að klumban ber þær sjálfar til bana. Ásmundur áttar sig á að þær hafa svikið hann í fyrri skiptin, finnur folaldið sitt og dúkinn og fer með heim til foreldra sinna. Í tilbrigði Stefáns endar sagan þar og Ásmundur og foreldrar hans lifa góðu lífi það sem eftir er á þeirri björg sem folaldið og dúkurinn frá vindinum færa þeim í búið. Hjá Katrínu heldur sagan áfram og Ásmundur vinnur kóngsdóttur og hálft kóngsríki með því að vinna á heilum her blámanna og berserkja með klumbuna að vopni.

Raðir af hljóðritum á kassettu í hillu
Hljóðrit á þjóðfræðisafni Árnastofnunar
SSJ

Í sögunni kemur skýrt fram að öll taðan hefur fokið svo Ásmundur og foreldrar hans eru algjörlega bjargarlaus, því í íslensku sveitasamfélagi hefur langt fram eftir öldum skipt öllu máli að halda lífi í skepnunum. Auk þessa atriðis má finna margar smáar tilvísanir til íslensks sveitasamfélags í sögunni af Ásmundi og vindi, sérstaklega í tilbrigði Stefáns, svo sem óþurrkana sem verða til þess að ekki hefur verið hægt að hirða töðuna af túninu, flórinn sem er fullur af mat og mjólk frá töfrafolaldinu og skóna sem móðirin býr til á Ásmund áður en hann heldur af stað í ferðirnar. Þá má segja að hefðbundin verkaskipting karla og kvenna og jafnvel staða þeirra með tilliti til eigna sé einn þessara þátta. Það eru þeir feðgar sem slá túnið og alltaf talar Ásmundur um tún og töðu föður síns. Það hvarflar heldur ekki að honum að biðja neinn annan en móður sína að útbúa sig með nesti og nýja skó – hvað þá að gera það sjálfur!

Í íslenskum ævintýrum er hægt að finna mörg dæmi um hvernig staðhættir og náttúra í sögunum, svo sem landslag og veðurfar, tekur mið af umhverfi sagnamannsins og hvernig íslenskt bændasamfélag birtist í ævintýrunum þótt aðalsöguhetjurnar séu kóngsdætur og –synir. Í ævintýrunum er oftast talað um kóngsríkið eins og stórbýli á meðan karlskotið er í hlutverki hjáleigunnar. Þannig er það til dæmis í ævintýrinu um Hlina kóngsson þar sem hann og Signý karlsdóttir leika sér saman, eins og börn af nágrannabæjum, þangað til kónginum finnst Signý ekki nógu fín fyrir svo tiginn leikfélaga. Kóngsríkin geta jafnvel verið tvö í sumum ævintýrum og er þá farið á milli þeirra eins og farið er á milli bæja.

Í sögunni af Ásmundi og vindi er landslagi ekki lýst fyrr en kemur að heimkynnum vindsins, en hann býr í háum hól og blæs út um gat á honum. Segja má að hár hóll sé einkenni í íslensku landslagi og stundum gegna slíkir hólar hlutverki áfangastaða í íslenskum ævintýrum, svo sem í sögunni af Búkollu þar sem strákur áir oft á háum hól og heyrir þar baul Búkollu. Landslag og staðhættir geta þó gengt stærra hlutverki í ævintýrum og beinlínis haft ákveðna þýðingu fyrir sagnamanninn og áheyrendurna. J.R.R. Tolkien benti meðal annars á þetta í fyrirlestri sem hann hélt 1938 og var seinna gefinn út. Þar segir hann í athugasemd:

If a story says ‘he climbed a hill and saw a river in the valley below’ ... every hearer of the words will have his own picture, and it will be made out of all the hills and rivers and dales he has ever seen, but specially out of The Hill, The River, The Valley which were for him the first embodiment of the word (Tree and Leaf 1975, 76).

Sem dæmi um þetta má taka ævintýri Elísabetar Friðriksdóttur (1893–1976) af bræðrunum Smjörbitli og Gullintanna sem hún sagði Hallfreði Erni Eiríkssyni 27. júní 1970.

Það er letinginn og fýlupokinn Smjörbitill sem skessan kemur og sækir. Hún stingur honum í pokann sinn og leggur af stað heim í hellinn, en þá þarf hún að „hægja sér og hóa“ og spyr hvert hún eigi að fara til þess. Smjörbitill segir henni að fara til fjöru og Elísabet bætir við útskýringunni: „... því það var svo langt út í fjöruna.“ Þar með hefur Smjörbitill nægan tíma til að sleppa úr pokanum og komast aftur heim. Í öðrum tilbrigðum þessarar sögu er ekki minnst á að Smjörbitill sleppi frá skessunni vegna þess hve langt sé út í fjöru. Hér gæti skýringin legið í því að bær Elísabetar, Brekka, stendur hátt uppi í fjallinu inni í Kaupangssveitinni og verður að teljast þaðan nokkuð langt út í fjöru þótt þangað sjáist vel. Þannig gætu áheyrendur Elísabetar hafa skynjað tímann sem líður í sögunni án þess að hún þyrfti að útskýra það frekar og um leið sett sig og sitt eigið umhverfi inn í söguna.

Ævintýrið af Ásmundi og vindi virðist ekki vera sérstaklega íslenskt við fyrstu sýn. Það fer þó ekki á milli mála að það hefur hlotið nógu sterk einkenni frá íslensku bændasamfélagi til að geta talist staðbundið tilbrigði við sagnagerðina ATU 563. Þó að ekki sé hægt að segja hvort alltaf megi rekja þessi staðbundnu einkenni beint til sagnafólksins sjálfs er ljóst að þau gefa sögunni einnig áherslur sem eiga uppruna sinn í þeirra eigin umhverfi og jafnvel eigin lífi.

Birt þann 24. október 2022
Síðast breytt 24. október 2023