Skip to main content

Pistlar

Stafróf landsins: Örnefni barna

Landslag með augum barns. Halldór Pétursson 1924.

„Á stafróf landsins lærðu börnin áður og um leið og stafróf bókarinnar.” Þessi orð í örnefnalýsingu Lúthers E. Gunnlaugssonar, bónda í Veisuseli í Fnjóskadal, vísa til þess að það þótti mikilvægt að kunna að lesa landslag, meðal annars úr örnefnum; hvernig hvert og eitt þeirra myndar staf eða tákn líkt og í stafrófi, er brot af heildarmynd. Þetta fellur vel að þekktum kenningum um landslag og það mark sem menn setja á það, en því hefur bæði verið líkt við texta, sem felur í sér tengsl við ritun, lestur og læsi, og sömuleiðis við skinnhandrit sem er í sífellu skafið upp og ritað á með nýju bleki. Þannig er landslag með sínum örnefnum marglaga, síbreytilegt og oft flókið en um leið nauðsynlegt fyrir þá sem lifa og hrærast á tilteknum stað að geta lesið úr því: skilið til hvaða staða örnefni vísuðu og hvers konar merkingu þau hafa falið í sér. Örnefnakunnátta gat áður fyrr verið mælikvarði á stöðu einstaklings innan tiltekins hóps og gert börnum kleift að sinna störfum sem fólu í sér ábyrgð. Þannig er því t.d. lýst í örnefnalýsingu Brekku í Svarfaðardal hvernig fullorðna fólkið hafði á reiðum höndum nöfn yfir öll kennileiti, „…hvern hól, gil eða klett… á öllum heiðunum milli Bakkadals og Holtsdals. Þessi örnefni var strákum nauðsynlegt að þekkja, ef þeir hugsuðu sér að komast svo til manndóms að verða smalar, því það gat orðið óþægilegt, ef mjaltakonurnar spurðu smalann, hvar hann hefði fundið ærnar, ef hann gat ekki tilgreint staðinn með nafni, því þá var hann flón, sem þær hlógu að.” Á níunda ári var sögumaður orðinn tækur smali og sprenglærður í örnefnum heiðanna eftir að hafa farið þangað oft í kindaleit með frænda sínum.  

Smalakofi Tryggva Emilssonar í Seljadal, Öxnadalshreppi.

En börn voru ekki bara óvirkir lesendur landsins heldur líka gerendur eða höfundar. Fátt er þó vitað um örnefni sem hafa orðið til hjá börnum en ýmsar vísbendingar eru varðveittar í örnefnalýsingum. Heimildarmenn þeirra hafa yfirleitt verið komnir af léttasta skeiði þegar örnefnin voru skráð en hverfa þó gjarnan aftur til æskuára þegar farið er að rifja upp. Ekki eru margar beinar heimildir til um að börn hafi nefnt staði og stundum er meira að segja gert lítið úr slíkum örnefnum. Dæmi um þetta er frá Staðarhrauni á Mýrum, þar sem krakkarnir kölluðu sund nokkurt Kjóamýri vegna árása samnefndra fugla en heimildarmaður tekur skýrt fram að það heiti hafi áreiðanlega horfið um leið og þau uxu úr grasi. Í Landakoti á Vatnsleysuströnd er greint frá Móanum, þar sem voru moldarflög og klappir sem krakkar skírðu „ýmsum nöfnum, sem varla verða talin til örnefna.“ Þau eru því miður ekki rakin. Í báðum þessum dæmum kemur fram sú hugsun að örnefni sem börn notuðu hafi ekki þótt merkileg og kannski ekki náð útbreiðslu eða festu í máli fólks, sennilega vegna þess að þau voru eingöngu notuð innan barnahópsins og áttu því minni möguleika á að skjóta rótum. Annað dæmi af Vatnsleysuströnd gæti þó bent til hins gagnstæða, að börn hafi einmitt verið hreyfiafl í söfnum örnefna þar sem þau tóku upp ný nöfn á áðurnefndum stöðum og hófu að kalla Síki „Sílalæk“ og Stóru-Voga „Rústir“.

Af stöðum sem hafa verið nefndir af börnum eru leikstaðir sennilega algengastir, staðir sem voru miðlægir í reynsluheimi þeirra en höfðu ekki mikið gildi í daglegu lífi fullorðinna. Dæmi um þetta gætu verið Gullatóft í Austdal í Seyðisfirði og Leggjabú á Dalbæ í Hrunamannahreppi, hvoru tveggja nöfn sem vísa beint í leikföng þótt ekki sé alveg víst að börn hafi nefnt staðina. Dæmi um að fullorðinn hafi nefnt leikstað barna er frá Brúsastöðum í Þingvallasveit, en þar hét hóll nokkur Trausti sem vísar í að fólk taldi sig öruggt um börnin þegar þau voru þar að leika sér. Nokkur dæmi finnast um að leikstaðir hafi hlotið bæjarnöfn, t.d. í Litla-Galtardal á Fellsströnd þar sem krakkar reistu „hús og hallir, réttir og garða“ á svonefndum Kvíahól. Þar hjá var kallað „á Fögruvöllum“ og skammt frá stóð Vallabú „undir grasi vöxnu barði“ en þar byggði piltur að nafni Valli.  Á Lambastöðum á Mýrum léku krakkar sér við Búrklett en nefndu búið Búrfell því þeim þótti það líkara bæjarnafni en Búrklettur. Í kringum Búrfell urðu til a.m.k. tvö nöfn tengd búskapnum: Álfhóll og Beljubakki. Á Austurhlíð í Eystrihreppi heitir Kirkjulundur, en þar var girtur reitur þar sem krakkar grófu hunda, ketti og fleiri vini sína. Þar var meira að segja reist kirkja sem einn gat setið inni í. Allt eru þetta áhugaverðar vísbendingar um hvernig börn nefndu staði til að búa til umgjörð um leiki, skapa sína eigin veröld sem sótti ýmsar hugmyndir í heim hinna fullorðnu en laut þó sínum eigin lögmálum.

Flest örnefni sem heimildir eru um að börn hafi gefið tengjast stöðum í námunda við bæi. En annars konar staðir fjær bæjum eru líka til vitnis um störf barna og sýn þeirra á veröldina. Smalar voru oft krakkar á aldrinum átta til fimmtán ára þótt dæmi hafi verið um enn yngri börn. Smalakofar voru algengir í námunda við sumarbithaga á tímum fráfærna, oftast einfaldar grjóthlaðnar tóftir á góðum útsýnisstöðum. Þar var hægt að leita skjóls, hvílast og hafa um leið yfirsýn yfir fjárhópinn, stundum í samfélagi við smala frá öðrum bæjum. Dæmi um þetta er Félagshóll í Samtúnum í Kræklingahlíð, þar sem margir smalakofar risu. Oft vísa örnefni eins og Smalaskáli eða Smalakofahóll á slík mannvirki en það eru líka dæmi um að þau hafi borið sérstök nöfn, t.d. Markúsarkofi, Bensagerði og Rönkukofi sem líklega hafa verið nefndir eftir þeim krökkum sem reistu þá og notuðu. Önnur smalakofaörnefni eru til að mynda Bræðraborg, Krummastaðir og Barnabaðstofa.

 

Birt þann 20. nóvember 2020
Síðast breytt 24. október 2023
Heimildir

Elín Ósk Hreiðarsdóttir. 2011. Smalakofar. Í: Mannvist. Sýnisbók íslenskra fornleifa, bls. 248−259. Opna, Reykjavík.

Sesselja G. Guðmundsdóttir. 2007. Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi (ofan Gamla-Keflavíkurvegarins). 2. útgáfa aukin og endurskoðuð. Lionsklúbburinn Keilir.

Örnefnalýsingar í Örnefnasafni Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.

Ljósmyndir: Þjóðminjasafn Íslands og Fornleifastofnun Íslands.