Uppruni og notkun
Orðið sóttkví og orðasambandið að setja (e-n) í sóttkví eru á allra vörum um þessar mundir. Sóttkví er kvenkynsorð sem er notað um það þegar fólki er gert að loka sig af tímabundið til að draga úr smithættu og afstýra útbreiðslu smitsjúkdóma. Það er sett saman úr orðunum sótt ‘veiki’, sem einkum er haft um smitsjúkdóma, og kvenkynsorðinu kví ‘aflokað svæði’. Síðara orðið er ekki mjög algengt eins og sést á því að rithættinum „sótthví“ bregður nokkuð fyrir – og hann er vitnisburður um að flestir landsmenn gera engan greinarmun á kv- og hv- í framburði og þar af leiðandi heyrist enginn munur á orðunum kví og hví.
Þótt orðið kví sé tiltölulega fátítt nú á dögum kemur það alloft fyrir sem síðari liður samsettra orða eins og eldiskví, flotkví, herkví, þurrkví – og sóttkví. Áður fyrr var orðið algengara og þá sérstaklega um litlar réttir heima við bæi þar sem ánum var safnað til að mjólka þær. Kvíar gátu verið úr færanlegum grindum og af því sprettur orðasambandið að færa út kvíarnar sem nú er einkum notað í yfirfærðri merkingu um það að efla starfsemi sína eða auka umsvif sín.
Samsetta orðið sóttkví er einungis notað í eintölu og beygingu þess má sjá í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls (BÍN).
Aldur og saga
Það kemur nokkuð á óvart að í Ritmálssafni Orðabókar Háskólans sé bara eitt dæmi frá síðari hluta 20. aldar um orðið sóttkví. Fyrir því geta verið tvær ástæður, annaðhvort að orðið sé yngra en búast mætti við eða að eldri dæmi hafi af tilviljun ekki ratað í safnið. Það er fljótlegt að ganga úr skugga um að hér á það síðarnefnda við því á vefnum Tímarit.is má finna dæmi allt frá upphafi aldarinnar, þegar sóttkví var eitt af fáum úrræðum til að hefta útbreiðslu alvarlegra smitsjúkdóma eins og taugaveiki, mislinga og ekki síst spænsku veikinnar.
- Voru svo þessir bæir í sóttkví og samgöngubanni, sumir fram að vertíð og sumir fram á Góu. (Fjallkonan 1903)
- Flateyri er nú í sóttkví, af því að mislínga hefur orðið vart á Sólbakka. (Bjarki 1903)
- Er Siglufjörður í sóttkví, þar eð veikir menn voru á vélbát, sem þangað kom frá Rvík. Er vonandi, að varnirnar beri árangur. (Landið 1918)
Sögulegar heimildir sýna að áður en orðið sóttkví og orðalagið að vera í sóttkví og setja í sóttkví urðu ríkjandi um slík úrræði voru önnur skyld orð talsvert notuð. Þar má einkum nefna sögnina sóttkvía ‘setja í sóttkví’, lýsingarorðið sóttkvíaður ‘vera í sóttkví’ og nafnorðið sóttkvíun ‘það að setja í sóttkví’. Dæmi um öll þessi orð má bæði finna í ritmálssafninu og í blöðum og tímaritum á Tímarit.is, sérstaklega frá fyrstu áratugum 20. aldar, og í Íslensk-danskri orðabók Sigfúsar Blöndals er orðið sóttkví ekki, einungis sóttkvía (so.) og sóttkvíun (no.).
Svo virðist sem það orðalag sem nú tíðkast hafi farið að festast í sessi í kjölfar spænsku veikinnar og nú heyrast önnur orð en sóttkví lítið sem ekki.
Síðast breytt 24. október 2023