Skip to main content

Pistlar

Sögur af Sæmundi fróða í AM 254 8vo

AM 254 8vo er handrit sem að mestu er skrifað af Árna Magnússyni sjálfum. Það er 388 blaða pappírshandrit (engin blöð eru númer 244–253 þannig að blaðtalið nær upp í 398), nú í þremur bindum, og hefur að geyma ýmsar minnisgreinar hans um Íslendingabók, athugagreinar um örnefni á Suður- og Vesturlandi og kafla úr Maríu sögu.

Í öðru bindinu er að finna minnisgreinar um Sæmund fróða (bl. 313–397) og þar með fylgja, á bl. 314–330 og 380–397, nokkrar þjóðsögur um hann sem Árni hefur safnað eða fengið uppskrifaðar. Sæmundur Sigfússon fróði kemur við sögu Íslendingabókar og er það sjálfsagt þess vegna sem Árni Magnússon hefur safnað þarna saman fróðleik um hann. Þennan fróðleik nýtti Árni til að skrifa ævisögu Sæmundar á latínu, Vita Sæmundi multiscii, og hefur hún verið prentuð tvisvar.

Í bréfi frá 11. maí 1699 segir Árni Birni Þorleifssyni (1663–1710) Hólabiskupi að hann viti „ad menn á Islandi um Sæmund froda oteliandi Fabulosas relationes haf[i]“ og biður hann að segja sér allar þær sem hann kann (Arne Magnussons private brevveksling (1920), bls. 565). Ári seinna minnir hann Björn á þessa beiðni sína (bls. 571) og enn árið 1701, þegar Árni sendir Birni beinlínis lista yfir 23 atriði sem hann vill fá frá honum. Númer fjögur á listanum eru „Allar þær relationes um Sæmund fróda er Monfrere veit, hversu heimskulegar sem þær eru, Ecki eru það ockar lyte þótt menn so ohygner hafi vered þvílíkum Fabulis ad trua, enn eg hefi vissan tilgáng efter þeim ad spyria, og vona i sumar þeirra er Monfrere þar af man, og þæge eg helldur þær være dilucidé (ef so skal seigiast) uppteiknadar enn compendiosé“ (bls. 576). Á undan sögunum í handritinu hefur Árni síðan skrifað að mag. Björn hafi sent honum nokkrar það ár, líklega þær sem eru á bl. 314–330 og líklega a.m.k. sumar skrifaðar upp af Halldóri Þorbergssyni (1623–1711) annálaritara, sem var þá á Hólum. Ekki er það þó frumritið frá Birni sem varðveitt er í AM 254 8vo heldur hefur Árni skrifað sögurnar upp aftur eða fengið Magnús Arason (1684–1728) til þess og ef til vill hent frumritunum. Hönd Magnúsar er á sögunum á bl. 314–317, 382 og 385, en annað hefur Árni skrifað sjálfur.

Þegar Jón Árnason (1819–1888) hóf að safna íslenskum þjóðsögum á 19. öld hafði hann veður af því að Árni Magnússon hefði safnað sögum af göldrum Sæmundar fróða og í bréfi sem hann skrifar 15. nóvember 1859 biður hann Guðbrand Vigfússon (1827–1889) í Kaupmannahöfn „að líta eptir fyrir [s]ig í Arna-Magnussonar safninu, ... hvort [hann] kynn[i] að finna nokkrar munnmæla sögur um Sæmund fróða með hendi Arna sjálfs ...“  Hvort sem það er vegna bréfs Jóns eða af algjörri tilviljun segir Guðbrandur Konrad Maurer (1823–1902) frá því í bréfi sem skrifað er á milli 19. og 23. nóvember sama ár að hann hafi verið „uppá turni, og beiddi í sakleysi mínu um opera og annotationes Arna við Íslendíngabók Ara. Þar er meðal annars mikið um Sæmund fróða og meðal annars kerlingasögur um hann. Ein þeirra er svo merkil. að eg verð strax að segja þér hana.“ Á eftir fylgja fjórar sögur úr handritinu sagðar með orðum Guðbrands sjálfs, ein er um feluleik þeirra Sæmundar og kölska og önnur um konu Sæmundar sem varð svo drambsöm að hún þvoði sér ekki úr öðru en mjólk. Sú þriðja segir frá því að Sæmundur hafi trúlofast norn einni á Saxlandi áður en hann fór til Íslands. Hún beið hans lengi en taldi síðan víst að hann ætlaði að svíkja sig. Þá sendi hún Sæmundi gullsleginn kistil sem hann fór svo með upp á Heklu og fleygði þar. Þá er sagt að Hekla hafi gosið fyrst. Fjórða sagan er síðan um Ólaf tóna en ekki Sæmund.

Guðbrandur skrifaði sögurnar aldrei upp fyrir Jón Árnason því Jón nýtti sér sögurnar af Sæmundi úr kveri sem nú er varðveitt í handritasafni Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns og ber safnmarkið JS 609 4to. Þar eru sögurnar af Sæmundi í uppskrift Jóns Ólafssonar (1691–1765) lögréttumanns á Grímsstöðum á Snæfellsnesi og segir þar: „Þetta er uppskrifað eptir uppskrift sem skrifuð var efter lausum blöðum ä Biblioth: sem allt var með hendi Arna Magnussonar.“

Af skrifum Árna Magnússonar má sjá að hann hefur ekki lagt mikinn trúnað á þjóðsögurnar um Sæmund fróða. Þær hafa samt vakið athygli ýmissa skrifara og fræðimanna á ýmsum tímum og eru líklega aðalástæða þess að þeir hafa flett í handritinu AM 254 8vo. Auk uppskriftarinnar sem Jón á Grímsstöðum skrifaði eftir á 17. öld og endursögn Guðbrands á sögunum á 19. öld finnst uppskrift Jóns Ólafssonar úr Grunnavík (1705–1779) á sögunum um Sæmund í AM 427 fol. Bjarni Einarsson (1917–2000) prentaði síðan allar sögurnar í riti sínu, Munnmælasögur 17. aldar, sem kom út árið 1955.

Rósa Þorsteinsdóttir,
janúar 2019

Birt þann 1. janúar 2019
Síðast breytt 24. október 2023