Skip to main content

Pistlar

Skrifari og listamaður: Falið andlit í AM 226 fol.

Á miðöldum virðist hafa verið algengt að skrifarar sæju einnig um lýsingar (skreytingar) í handritum. Hér verður fjallað um skrifara handritsins AM 226 fol. sem dæmi um slíkt.

AM 226 fol. er Stjórnar-handrit frá seinni hluta 14. aldar og samanstendur af 158 blöðum. Textinn er í tveimur dálkum og er stærsti hluti hans með einni hendi. Blöðum 62‒69 var bætt við á 15. öld eða í upphafi 16. aldar og eru með annarri hendi. Handritið geymir þýðingar úr nokkrum bókum Gamla testamentisins, Rómverja sögu, Alexanders sögu og Gyðinga sögu og er varðveitt í Den Arnamagnæanske Samling í Kaupmannahöfn. AM 226 fol. er talið skrifað með sömu hendi og Skarðsbók Jónsbókar (AM 350 fol.), sem er oft sagt vera eitt fallegasta miðaldahandrit Íslands, en í því handriti eru ótalmargir skreyttir upphafsstafir og eru þeir oftast skreyttir með mannsandlitum. Listfræðingurinn Lena Liepe telur að skrifari handritsins sé einnig ábyrgur fyrir lýsingunum sem prýða það. Í handritinu AM 226 fol. eru sjaldnast andlit í upphafsstöfum en talið er að Magnús Þórhallsson, annar af tveimur skrifurum Flateyjarbókar, hafi skreytt AM 226 fol.

Þó að skrifari textans í AM 226 fol. hafi ekki séð um skreytingar í handritinu, eins og hann gerði í AM 350 fol., má engu að síður finna falið listaverk eftir hann því á blaði 92r, í línu 11, er smágert andlit eins og sést á myndinni hér fyrir neðan.

Kaupmannahöfn, Den Arnamagnæanske Samling, AM 226 fol., bl. 92r. Mynd: handrit.is.

Eins og sjá má er upphafsstafurinn í miðju textans en ekki við upphaf nýs kafla. Blað 92r er annars óskreytt og líklega hefur skrifarinn aðeins verið að leika sér. Þetta andlit minnir á andlitin í AM 350 fol. og má segja að það styðji þá tilgátu Lenu Liepe að skrifarinn hafi sjálfur lýst handritið.

Áðurnefndur Magnús Þórhallsson er líklegast þekktasta dæmið um að skrifari hafi tekið að sér að skreyta handrit. Á blaði 1v í Flateyjarbók greinir Magnús sjálfur frá því hver hafi borið ábyrgð á hverjum verkþætti bókagerðarinnar: „hefr skrifat Jon prestr þordar son f eíreki víjðforla ok olaafs sogurnar baadar. en magnus prestr thorhallz sun hefr skrifat vpp þaðan ok sua þ er fyrr skrifat. ok lyst alla.“ Því miður eru slíkar skýringar sjaldgæfar í íslenskum miðaldahandritum en dæmið sýnir að einn og sami maðurinn gat sinnt báðum verkþáttum bókagerðarinnar, þ.e. skrifað og lýst.

 

Reykjavík, Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, AM 350 fol., fol. 81r. Mynd: handrit.is.

Vinnslu Skarðsbókar (AM 350 fol.) lauk árið 1363. Stefán Karlsson dagsetti AM 226 fol. um 1360. Gera má sér í hugarlund að sá sem skrifaði bæði handritin og lýsti jafnframt hið fyrrnefnda hafi nýlokið vinnu sinni við lýsingar í Skarðsbók Jónsbókar þegar hann skrifaði textann í AM 226 fol. og hugur hans hafi verið við andlitsskreytingar. Ef til vill hefur hann ekki verið sáttur við hlutverk skrifara einvörðungu og viljað leyfa listgáfu sinni að njóta sín. Önnur skýring gæti verið að honum hafi einfaldlega leiðst og því brugðið á það ráð að teikna andlit í upphafsstafinn A. Hver sem ástæðan er, er uppátækið skemmtilegt og ber að þakka skrifaranum fyrir þennan óvænta glaðning.

Birt þann 22. apríl 2022
Síðast breytt 24. október 2023
Heimildir

Liepe, Lena. 2009. Studies in Fourteenth Century Book Painting (Reykholt: Snorrastofa).

Stefán Karlsson. 1967. Introduction. Sagas of Icelandic bishops: fragments of eight manuscripts. Stefán Karlsson, ritstj. Early Icelandic manuscripts in facsimile 7 (København: Rosenkilde og Bagge).