Skinnbókin AM 561 4to er talin hafa verið skrifuð um 1400. Á henni er ein rithönd en skrifarinn er ókunnur. Hún hefur nú að geyma þrjár sögur á 41 blaði: Reykdæla sögu, Gull-Þóris sögu (Þorskfirðinga sögu) og Ljósvetninga sögu. Allar eru sögurnar skörðóttar, bæði vegna þess að a.m.k. 17 blöð hafa týnst úr handritinu og vegna þess að texti á sjö blaðsíðum hefur verið skafinn burt.
Árni Magnússon segir að Elín Þorláksdóttir hafi sagt sér að faðir hennar, Þorlákur Skúlason (1597–1656) Hólabiskup, hafi átt handritið, en ekkert er vitað um sögu þess að öðru leyti.
Það vantar tvö kver framan á bókina, því að Reykdæla saga (1r–16v), sem er fremsta sagan, byrjar í 13. kafla og miðað við textamagn annars staðar í handritinu hefði fyrri hluti hennar átt að ná yfir um 12 blöð. Líklega vantar meira framan af handritinu, því að það er ósennilegt að handrit hafi byrjað á fjögurra blaða kveri. Milli 15. og 16. blaðs vantar blað og tvær blaðsíður hafa verið skafnar (9r og 16r). Það eru því tvær eyður í Reykdæla sögu, önnur ein blaðsíða og hin þrjár blaðsíður, auk þess sem það vantar sennilega 12 blöð framan af henni.
Í Gull-Þóris sögu (16v–32r) eru tvær tveggja blaðsíðna eyður vegna þess að blöð 23v–24r og 31v–32r hafa verið skafin. Reyndar hefur fræðimönnum tekist að lesa nánast allan textann á síðastnefndu síðunni, þótt efstu línur hennar hafi ekki verið lesnar að fullu, og þar með bjargað sögulokunum frá glötun.
Í Ljósvetninga sögu eru þrjár eyður. Í fyrsta lagi vantar tvinn milli 34. og 35. bl. og fyrst það vantar aðeins tvö blöð er ljóst að Sörla þáttur, Ófeigs þáttur og Vöðu-Brands þáttur hafa aldrei verið í handritinu. Enn fremur hefur sagan um viðskipti Guðmundar ríka á Möðruvöllum og Þóris Helgasonar verið styttri en í C-gerð sögunnar. Í öðru lagi er bl. 37v skafið og í þriðja lagi vantar tvö bl. í aftasta kverið, þ.e. fremsta og aftasta. Aftasta kverið hefur ekki verið meira en 6 blöð og af því leiðir að síðari hluti Ljósvetninga sögu, þ.e. sagan af Eyjólfi Guðmundarsyni og Fnjóskdælum og Þórarins þáttur ofsa, hefur aldrei verið í handritinu.
Ljóst er að Ljósvetninga saga í AM 561 4to hefur aðeins náð yfir sögu Ljósvetninga (fjóra fremstu kaflana) og söguna af viðskiptum Guðmundar ríka við ýmsa héraðsmenn (13.–21. kafli). Hún hefur endað á kafla um draumfarir Guðmundar og dauða hans.
Ekki er ljóst af hverju textinn á nokkrum blöðum hefur verið skafinn en sennilega hafa kverin losnað úr bandinu og útsíður þeirra verið orðnar mjög máðar og jafnvel ólæsilegar þegar það sem sást af skrift var skafið út. Þó hafa ekki útsíður allra kvera orðið fyrir þessum skakkaföllum, t.d. útsíður fremsta kversins. Á bl. 9r var síðan skrifað upphafið á kómískri rímu, sem ekki er ljóst hver er, og á bl. 23v, 24r og 16r er 5. ríma Úlfhams rímna (Vargstakna). Blöð 31v og 32r eru auð núna en á bl. 37v hefur verið skrifaður útdráttur úr þeim kafla Ljósvetninga sögu sem stóð á síðunni. Þessar viðbætur á sköfnu síðunum eru frá 17. öld.
Síðast breytt 24. október 2023