Skip to main content

Pistlar

Sagan af Argenis í SÁM 78

Skáldsagan Argenis eftir skosk-franska skáldið John Barclay (1582−1621) er pólitísk allegóría sem kom fyrst út árið 1621, skömmu eftir andlát höfundar, og hlaut góðar viðtökur samtímamanna. Sagan var margsinnis prentuð á 17. og 18. öld og þýdd á ýmsar tungur, m.a. á íslensku. Íslenska þýðingin hefur ekki verið prentuð en ljóst er að sagan hefur notið vinsælda hér eins og annars staðar því að til eru varðveitt a.m.k. átta handrit af henni. Þýðandinn, Jón Einarsson (1674−1707), útlagði söguna úr latínu árið 1696 þegar hann var kennari við latínuskólann í Skálholti en hugsanlega hefur hann kynnst sögunni á meðan hann var við nám í Kaupmannahöfn á árunum 1693−1694. Þá hefur það verið á latínu því sagan var ekki þýdd á dönsku fyrr en löngu síðar, eða 1746. Jón varð síðar konrektor við latínuskólann á Hólum í Hjaltadal en lést fyrir aldur fram í stórubólu 1707. 

Eitt af þeim átta handritum sem varðveita söguna hefur safnmarkið SÁM 78 og er í eigu Árnastofnunar, keypt þangað af bóksala í ágúst 2006. Handritið er skrifað í Flatey á Breiðafirði árið 1884 af Eyjólfi E. Jóhannssyni (1852−1900) kaupmanni. Á titilsíðu segir: „Sagan af Argenis dóttur Melanders kóngs í Sikiley. Útlögð úr latínu á íslenzku af æruverðugum mjög vel lærðum designato rectore til Hóla-dómkyrkjuskóla, Jóni sáluga Einarssyni anno 1696. Skrifuð að nýju af Eyjólfi E. Jóhannssyni veturinn 1884.“ Í sumum handritum er titillinn „Sagan af Argenide dóttur Meleandri kóngs í Sikiley“. Sagan skiptist í 17 kafla og er fyrirsögn fyrir hverjum um sig. Handritið er 303 tölusettar blaðsíður auk titilsíðu. Dregið er fyrir leturfleti með blýanti. Blöðin eru bundin í hörð spjöld sem klædd eru dökkleitum pappír en leður á kili og hornum.

Ekki er vitað handa hverjum Eyjólfur skrifaði söguna, ef til vill handa sjálfum sér. SÁM 78 er yngsta handrit sem vitað er um að varðveiti söguna af Argenis og vitnisburður um að handritamenning lifði góðu lífi á Íslandi við lok 19. aldar.

Birt þann 27. maí 2019
Síðast breytt 24. október 2023