Fyrirlestur á vegum Nafnfræðifélagsins 11. nóv. 2006 (hér í styttri útgáfu).
Fjallað er um örnefni út með Eyjafirði að austan – og lítillega vestan mynnis Eyjafjarðar, þ.e. í Hvanneyrarhreppi (áður Siglufjarðarhreppi, nú tilheyrandi Fjallabyggð).
I. Tilurð örnefna: almenn umfjöllun
Flest fær heiti sem heiti þarf á. Elstu heiti frá tíð landnáms – síðan stöðugt að bætast við, heiti breytast, afbakast – enn annað týnist. Kveikjan að smíð örnefnis – nokkur dæmi:
1. Örnefni sem vegvísir, sbr. Hornin tvö austan Hornafjarðar, Reykir o.s.frv.
2. Menn flytja með sér örnefni frá átthögum (t.d. Noregi), sbr. Vorsabær, Sogn, Mæri; Laufás við Laufásveg (eftir Laufási við Eyjafjörð).
3. Fjölnotkun heitis, einföld lýsandi heiti: Langhóll, Stóragil; eða til á hverjum bæ: Leyningur, Sel, Kvíaból; en einnig viðameiri heiti, t.d. innan sama hrepps: Útburðarskál (þrjár), Þjófadalur (tveir) o.m.fl.
4. Eyktamörk: Nónhnjúkur, Hádegisfjall.
5. Líkindi með einhverju: Stóll, Kista, Sæti, Seti; eða minnir á dýr: Hestur, Göltur, sbr. náttúrunafnakenningu Þórhalls Vilmundarsonar.
6. Atburðir stakir: Snjóflóðagjá, Orustuhóll.
7. Bæjarheiti
– háð: Kálfskinn á Árskógsströnd (norskt), Fótaskinn í Aðaldal, sbr. Ívar beinlausi – uxahúð rist í afarlanga ræmu, markaði svo úthlutað landsvæði; Tumsa, Glóra, í Rotum, Brakandi, Látalæti. Í þorpum: Hrynjandi, Bráðræði, Ráðaleysi o.s.frv. (einelti!).
– sætleiki: Unaðsdalur, Munaðarnes; Fagriskógur og Fagribær standast á.
– oflæti: Glæsibær. 8. Fjallaheiti skáldleg t.d. eyfirsk og vestfirsk: Þerna, Blæja, Darri, Lútur, Rytur, Kögur, Ernir, Stigi, Hæll, Högg, Horn, Hrafnaskálarnúpur.
9. Sjónarhornið skiptir máli: Láglend nes fá heitið nes eða skagi – menn sjá yfir það: Skagi, Tjörnes, Langanes – menn hafa yfirsýn. Yfir hálenda skaga sjá menn ekki, skynja þá síður sem nes eða skaga – því er hvorugu megin Eyjafjarðar talað að fornu um skaga (eins og gert er nú) – frekar að meginlandið nái út að hafi, en að fjörður gangi svo inn í landið – það er annað mál. Heitið Tröllaskagi var aldrei notað í æsku minni og ekki þekkt fyrr en Björn Pálsson flugmaður tók að nota það (upprunalega frá Helga Péturs eða Þorv. Thoroddsen nálægt aldamótum 1900). Heitið er vel lukkað. En enginn leit áður fyrr á þetta landsvæði sem skaga.Nútímamaðurinn er alltaf að skoða kort – vill nefna skaga-nafni allt sem er nær umlukið sjó – af landakortum gætu menn skilgreint 30 nes og skaga á Vestfjörðum – fornmenn skynjuðu ekki svo – aðeins ystu múlar fá þar nes-heiti.Heilu fjallgarðarnir eru án (heildar-)heita – sbr. engin yfirsýn yfir. Dæmi: fjallgarður milli Flateyjardalsheiðar og Leirdalsheiðar.
10. Örnefni tengd trú og örlögum, sjá umfjöllun í kafla II.
11. Persónugerving náttúrunnar, sjá umfjöllun í kafla IV.
II. Örnefni tengd trú og örlögum
Fátt örnefna er kennt beint við gömlu goðin:
– Þór: Þórsnes (-þing), Þórsnes við Lagarfljót, Þórshöfn, Þórsmörk, Þórsá, Þóra heitir fjall í Fjörðum, einnig klettur í Höfðahverfi, ef það tengist þá Þór.
– Óðinn?
– Týr?
– Baldur: Baldursheimur í Mývatnssveit.
– Freyr: nokkur dæmi.
– Njörður: Njarðvíkur.
– Ullur: Ullarfossar tveir: í Skjálfandafljóti og í einni af þverám þess. Sbr. og Goðafoss, Goðasteinn.
– Freyja, Frigg, Sif, Gefjun: ekki í örnefnum. (Svipað gildir um mannanöfn. Iðunn hét dóttir Molda-Gnúps og önnur Iðunn er dóttir Arnar landnámsmanns er bjó í Arnarnesi við Eyjafjörð. Sjá Freydís. Mannanöfn ekki mörg eftir goðum beint (ef fráskilinn er forliðurinn Þór-, Þor-, Goð- og síðari liður -þór). Goðaheiti koma fyrir í stöku jurtaheitum: friggjargras.
– Kristur: aðeins eitt örnefni á Íslandi, Kristnes í Eyjafirði. Þar er ekkert nes!
Annað í örnefnum er tengist trú og örlögum:
– Reynir: á reyni, reynivið, var helgi í heiðnum sið, sbr. Gylfaginningu (reynirinn er björg Þórs) og Geirmundar þátt heljarskinns (sbr. og Reynitrén í Möðrufellshrauni). Staður í Reynisnesi (Skagafirði), Reynivellir í Kjós (semsé þónokkur dæmi). Aðrar trjátegundir lítið notaðar í örnefnasmíð.
– Lundur, Þórir snepill, landnámsm. í Fnjóskadal blótaði lundinn, nefndi bæ sinn
Lund. Lundarbrekka í Bárðardal, bústaður Gnúpa-Bárðar. Fleira þessu skylt þekkt.
– Vékvíar heita á Flateyjardalsheiði, líklega blótstaður.
– Hof algengt bæjarheiti.
– Kirkju- algengt eftir kristnitöku, ath. þarf Kross.
– Öxi og kross: "þeir mörkuðu svo landnám sitt að þeir settu öxi í Reistarnúp (að norðan), settu örn fyrir vestan ... og kross á Krossás, svo helguðu þeir sér allan Öxarfjörð" (úr Landnámu). Öxi og brynja marka landnám Ingólfs Arnarsonar.
– Afmörkun lands (jarðar) Heiðarhúsa á Flateyjardalsheiði: mörkin Ófeigsá og Eilífsá.
– Trúarminni tengd Helga magra: Í frásögum af landnámi Helga magra og konu hans, Þórunnar hyrnu Ketilsdóttur flatnefs, glittir í hin og þessi trúarminni – og tengjast örnefnum: "Helgi var blandinn mjök í trú; hann trúði á Krist, en hét á Þór til sjófara ok harðræða" segir Landnáma. Helgi hefur kynni af fleiri kúltúrum en bara norrænni heiðni. Hann er alinn upp í írskri kristni – kúltúr sem hafði tengsl víða um lönd.
(Í Suðureyjum réði um hríð Ketill flatnefur – Helgi fær síðar Þórunnar hyrnu Ketilsdóttur. Auður djúpúðga, systir Þórunnar, er kona Ólafs hvíta herkonungs yfir Dyflinni. Sonur þeirra, Þorsteinn rauður, lagði undir sig Katanes (Caithness, NA-Skotlandi), átti Þórríði systur Helga magra. Helgi bjólan (keltneskt viðurnefni) Ketilsson var prímsigndur, hann nam land um Kjalarnesþing. Jórunn manvitsbrekka dóttir Ketils er og kristin, býr að Kirkjubæ (V-Skaft.). Ætt þessi er gjörkunnug írskri menningu).
Helgi magri "nam Eyjafjörð allan millim Sigluness ok Reynisness", hann er verkstjóri í landnámi héraðsins. Hann þarf að taka mikilvæga ákvörðun – er hann leitar ætt sinni staðar að búa á. Hann kannar allt hérað og gengur upp á fjall eitt, nefnir það Sólarfjall (hví svo?) (Kristnes kallar Helgi bæ sinn – það er hið einasta örnefni á Íslandi kennt beint við Krist).
Útmörk landnáms síns kennir þessi maður tveggja siða við reyni – en á reyni var helgi í heiðnum sið; reynirinn var björg Þórs samkvæmt Gylfaginningu Snorra. (Siglan gat og verið kristið tákn, enda kross að formi. Þá væru útmörk landnámsins mörkuð kristni og heiðni, sitt hvoru megin). Semsé: Siglunes, Reynisnes – og bústaðurinn Kristnes.
Fornt minni úr frjósemisátrúnaði í Landnámu: Þau hjón, Helgi og Þórunn hyrna, eru vetur að Bíldsá, austan fjarðarbotns – en það er ákveðið að setja sig endanlega niður vestan ár, í Kristnesi. Þau þurfa þá vestur yfir: þvert yfir óshólma Eyjafjarðarár: (í búfærslunni) á leiðinni þá fæðir Þórunn (kona Helga) barn þar í hólmunum; (óshólmar: staður frjósemdar yfirleitt – jarðar og gróðurs og manns, tákn). Barnið sem móðirin fæddi í Þórunnarhólma var mær og var hún kölluð hólmasól en fullu nafni Þorbjörg hólmasól.
Ferðin vestur yfir óshólmana geymir samanþjappað efni:
1. Hólmarnir eru tákn frjósemi.
2. Konan fæðir þar barn, annað tákn frjósemi.
3. Hólmasól vísar bæði til óshólma og Sólar, Sólarfjalls Helga (og enginn veit nú hvert fjall það var).
4. Mærin er nefnd Þorbjörg, eða björg Þórs (heiðni); björg Þórs er reynirinn (Snorri) sbr. Reynisnes (örnefnið nú óþekkt, Gjögurtá eða Kjálkanes?).
5. Helgi gerði eld mikinn við hvern vatnsós, helgaði sér svo allt hérað (ósar stóránna: Svarfaðardalsár, Hörgár, Fnjóskár og Eyjafjarðarár) – óshólmaminnið á ný eða helgi fljótsins sem þekkt er meðal fornþjóða, m.a. Kelta).
Sá er sólina hefur skapað er stundum til kallaður í fornkúltúr okkar Íslendinga, meðal annars hjá venslafólki Þórunnar hyrnu í Reykjavík – Þorkell máni er oft tekinn sem dæmi: hann lét á banadægri bera sig út í sólargeisla og fal sig þeim á vald er sólina hafði skapað. Þorkell var Þorsteinsson, sonarsonur Ingólfs í Reykjavík Arnarsonar. Helga Ingólfsdóttir var mágkona Þórunnar hyrnu.
Á þann er sólina hefur skapað treystir Þorsteinn Ingimundarson í Vatnsdælu. Þorsteinn er elsti sonur Ingimundar gamla (Freysdýrkanda). Frásagnir af landnámi Ingimundar gamla og Helga magra eru reyndar undarlega líkar. Kona Ingimundar fæðir líka barn í flutningum. Eins fór fyrir Ingunni konu Ketils hængs á Rangárvöllum. Hvert á að rekja þessi fornu minni?
Helgi magri er kannski ólíkur norskum landnámsmönnum. Veröld Helga er ekki einskorðuð við heiðna heimsmynd – hann er gerkunnugur írskum kúltúr sem enda hafði tengsl víða um heim. Biblían er þýdd á gelísku mörgum mannsöldrum fyrir fæðingu Helga. Hann hafði kynni af mörgu öðru en heiðni – það orðar Landnáma svo að hann var blandinn í trú.
Að þeim gömlu hjónunum föllnum, Helga og Þórunni, tók við í Eyjafirði (meðal afkomenda) frjósemisdýrkun að heiðnum sið með Frey í fyrirrúmi – sbr. Freysdýrkun einnig hjá frændum þeirra, Svínfellingum.
Menn þurfa ekki að trúa orðum Landnámu staf fyrir staf – en minni þessi eru þarna af einhverjum ástæðum. Þáttur Landnámuritarans er óljós en gæti verið mikill. – Sé hér ýjað að átrúnaði á sólina er aðeins átt við að sólin hafi í hugum manna búið yfir miklum mætti – ekki að því hafi fylgt ýtarlegt form eða trúar/pólitískt kerfi. Það hafa sjálfsagt ekki verið nein skýr skil á milli hinna ýmsu kúltúra þessara tíma – kannski gátu kúltúrar skarast eða þrifist hlið við hlið – eða tekið eitthvað til láns frá öðrum siðum – eða heimilað náttúrutrú með nýrri sið – frjósemisdýrkun, eða átrúnað á þann er sólina hefur skapað, jafnvel í nánd við kristni og heiðni. Líklega hafa menn mátt velja sér guði í friði.
Helgi bjólan og Auður djúpúðga, systkin Þórunnar, eru bæði vel kristin, en afkomendur beggja snerust til heiðni. Jórunn manvitsbrekka Ketilsdóttir var og kristin. Bróðir þeirra, Björn austræni, var heiðinn alla ævi, Þór var hans leiðtogi (Þórsnesþing). Vinur Björns var Hrólfur í Mostur og trúði á Þór, því var hann kallaður Þórólfur, segir þar (Þór- skeytt framan við).
Ekki er í frásögum af systkinum Helga magra neitt er hafi áberandi svip af frásögum af Helga og Þórunni. Systur Helga voru: Björg, Þórhildur og Þórríður (NB nöfnin!). Bróðir hans var Snæbjörn, er nam Vatnsfjörð við Djúp; föðurbróðir Helga er Þrándur mjöksiglandi, er nam land í Gnúpverjahreppi. Systkin Þórunnar hyrnu: mikið lagt í frásögur af þeim þótt ekki minni neitt sérstaklega á frásögur af Helga magra og Þórunni. Börn Helga magra og Þórunnar hyrnu voru: Hrólfur (sbr. Hrólfssker á miðjum Eyjafirði utanverðum) og Ingjaldur, Þóra, Þórhildur, Þorbjörg Hólmasól, Helga, Ingunn og Hlíf.
Nöfn minna á fornar konungaættir, s.s. Skjöldunga, Helgi, Ingjaldur, Hrólfur, sbr. og Hleiðargarður í Eyjafirði.
III. Eyjafjörður – vangaveltur um nokkur örnefni
Lítið virðist um gelísk nöfn á Eyjafjarðar-svæðinu.
Auðkennandi er þegar örnefni ber á góma að þau eru mjög gjarnan höfð með greini – tal manna verður allt að því kumpánlegt – eins konar persónugerving.
Algengt er að sama heiti sé að finna á fleiri en einum stað í einum og sama hreppi.
Dæmi úr Grýtubakkahreppi: Þjófadalur (2), Trölladalur (2), Eilífsá (2), bæjarnafnið Hóll (2), Þverá (a.m.k. 5 austan Eyjafjarðar), Útburðarskálar (3), Járnhryggur (5), Leyningur (6). Fernir Möðruvellir eru í Eyjafjarðar-héraði (bæir). Tvennir Geirhildargarðar í Eyjafjarðarsýslu (bæir). Landsendi, Olnbogi, Skip, Dys, allt fjölnota heiti.
Skipt um örnefni: Purká í Náttfaravíkum er nefnd Svíná fyrrum, skv. Sóknarlýsingum frá 1840, nú algerlega týnt, eftir hálfa aðra öld. Árbaugsá, Árbugsá, yst í Fnjóskadal, er kölluð Þverá í Sóknarlýsingum 1840. Nafnið á ánni er týnt, en hefur haldist á bænum.
Tvítekning t.d. Engidalsdalur, Hvanndaladalsá.
Grenivík (ungur taldi höfundur þessara orða Grenivík vera miðju heims, allir staðir þar við miðaðir: landakort sýndu allt x-margar gráður "west from Greenwich").
Grenjá, j-hljóð segir heitið komið af so. grenja, grenjandi kvikan á víkinni, algengt
mál, sbr. Grenjaðarstaður, fossar Laxár þagna aldrei; en suður af hefst Þegjandadalur; (í Grímsey er líka Grenivík).
Ódáinsakur á Hvanndölum – fræg þjóðsaga þarum; samhljóma örnefni er í landi Dalabæjar á Úlfsdölum. Hvanndalir eru einangruðust byggð við N-Atlantshaf.
Kjarnafjölskylda hestsins: Hestur, Meri, Folald, Eistu (sker við Látraströnd), Hesturinn, Fyla-skálar, Folalda-skálar (í röð í fjalllendi Héðinsfjarðar); fyla: hryssa. Brettingsstaðir bratti, brekka, bringur (sbr. hljóðbreytingar í gátt - gekk, gakktu - gáttu fram, þýska ging, sbr. enska uppspretta, spring, sbr. og springur á viði (algengt mál), sprakk – spretta, spratt; sprettutíð spring, enska vorið, sprettutíð, sbr. haustið kennt við uppskeru).
Skuggabjörg – Ljósavatn: myndin er í svarthvítu: andstæður sem afmarka (fyrra) landnám Þóris snepils, um Köldukinn endilanga, suður að Ljósavatnsskarði. Nyrst í Köldukinn eru miklir hamrar yfir bænum á Björgum. – Í landi Skuggabjarga í Dalsmynni er aftur hvergi klettur, en þar á skugginn sér björg, þar sér ekki sól margar vikur í skammdeginu. (Skuggabjörg heita og í Deildardal austan Skagafjarðar).
Náttfaravíkur: Helgastaðir, svo heitir ævaforn tótt í vel grónu landi ofarlega á Kotadal upp af Náttfaravíkum. Náttfari hafði numið sér land í Reykjadal. Eyvindur kom af Hörðalandi og rak Náttfara af landinu, út í Náttfaravíkur. Eyvindur bjó síðan að Helgastöðum í Reykjadal. Eru tengsl milli Helgastaðanna? Helgastaðir í Náttfaravíkum sel?
Oddakofi, óljósar tættur á Flateyjardal, undir Mosahnjúk – Stjörnu-Oddi kom þar við sögu. Sjá einnig Arnargerði í Flatey, vitað er að Oddi var um hríð í Flatey.
Vékvíar (Véskvíar) á Flateyjardalsheiði, í gili Dalsár, á miðri heiðinni, gróinn bás, eitt hundrað m að dýpt inn, í gilbarminn milli tveggja kamba, Finnbogakambur norðan megin, Almannagjá heitir upp úr bás-botninum. Eru þetta Gunnsteinar, blótstaður Eyvindar landnámsmanns?
Þær Fjörðurnar, nú oft fallbeygt eins og vörðurnar – samhliða "rétt og rangt" í gangi; oft er sagt út í Fjörður – en út í Fjörðu er og ennþá mikið notað, og er eldra. u-beyging, sbr. synir um sonu, birnir um björnu. Algengt er að kyn breytist við fleirtöluna: látur, Látrar; eitt gil, Giljar; eitt nes, Nesjar; Skipar, Lyngar, Fljótar o.s.frv. (sbr. Laugar, "austur í Lauga"; Flugleiðir, ég vinn fyrir Flugleiði).
Steindyr: heiti á tveim jörðum.
Ámá bær og Ámárá er áin, í Héðinsfirði. Áin fellur bratt ofan, í mörgum hvítum fossum. Því varla merkingin svartur; frekar áma, enda stampur undir hverjum fossi.
Naustalág/dæld geymir þær upplýsingar að bátar hafi verið dregnir þangað upp,
Skipapollur líka. Í landi Grýtubakka, nú 2 km frá sjó.
Men, Menin, þau menin í landi Hjalla á Látraströnd, engjakragi, kringum holt, skylt jarðarmen? Mön, sem landræma?
Spælaskál/-torfur sitt hvoru megin mynnis Héðinsfjarðar, í snarbröttu landi.
Áin í Hvalvatnsfirði ekkert klárt yfirheiti: Austurá, Gilsá, Fjarðará, Fjarðaá,Tindaá
og Hvalvatnsfjarðará.
Dalkinnungar heita hvor sínu nafninu; fram á dalinn þýðir "uppímóti"; heimari- algengt (t.d. Heimari-Lambá); fjallkambur er rönd eða röð eða röðull.
Fjöll – sum heiti er lagt meira í en önnur, vottar fyrir poetic. Blámannshattur á Skessuhrygg, Kaldbakur, Þerna, Einbúi, Gjögur, Blæja, Þóra, Lútin, Darri,Yggla, Bakrangi, Galti, Bræður tveir, Strákar tveir, Blámenn tveir,Vigga og Sigga.
IV. Persónugerving við örnefnagift
Við örnefnagift eru menn oft að persónugera náttúruna.
Áður var nefnt að fyrir norðan eru örnefni gjarnan notuð með greini – þá er viðhorfið til landsins orðið einsog kumpánlegt – um leið persónugert: "hann var kominn upp í Lútina", "það hefur gránað í Laufáshnjúkinn", "það er komin þoka í Kaldbakinn".
Menn sjá oft í náttúrunni verur í heilu líki: steindrangar fá þá heitin Karl og Kerling, Sveinar, Systur, Maður o.s.frv. eða fjöll: Bræður, Strákar, Bóndi, Kerling, Jómfrú.
Fjær byggðum þá þarf lítið til að vekja dul og ótta: skessur, tröll, þjófar, útilegumenn – mörg örnefni kennd við slíkt – sbr. og örnefni eins og völuleiði (völvu-), -dys, eða kennt er við útburði, drauga, dauðsmanns-örnefni kennd við þetta allt mjög algeng.
Menn sjá alltaf í náttúrunni verur: allir þekkja álfa, huldufólk – ennþá sprelllifandi trú. Allt er þetta að persónugera.
Heil fjöll eru persónugerð: Þorfinnur, Þorbjörn, Finnurinn, Bjólfurinn, Ingjaldur, Þóra, Vigga, Sigga.
Ég sem þetta rita tala af eigin reynslu – ég persónugerði í æsku minni ótal margt – margir hafa sagt mér af svipaðri reynslu. Við persónugerum vindinn – hann er á austan, hann er að hvessa, Kári. Lækirnir höfðu ætlan og skap, einkum á vorin, þegar þeir hlupu í vöxt.
Menn sáu svipi í náttúrunni: fjöllin fyrir ofan okkur …hver hnjúkur hafði svip af þeim bónda sem þar undir bjó.
Þarna sé ég haus, þarna höfuð,
þarna er svipur – hugur
sé þarna nef, brún, enni,
þar var kinn, vangi, háls
öxl, bak, hryggur, bringa
olbogi.
Myndir dýranna sjást í fjöllunum, í sjávarbökkum, á skerjum: Hestur, Meri, Folald, Eistu, Hrafnabjörg, Arnarfell, Kálfstindar, Hafursfell, Hestur í Grímsnesi, Hestur í Önundarfirði, Reyðurin(n) Reyðarfirði, Húnkubakkar (enska Hunchback, humpback).
Menn sáu í náttúrunni flest það er manninn má prýða. Persónugerving.
Eftirfarandi líkamsheiti eru þekkt í örnefnum: Höfuð, Haus, Höfði, Hnakki, Hvirfill, Kollur, Skalli, Enni, Brún, Augu, Nef, Hlust, Vangi, Kinn, Munni, Mynni, Kjaftur, Kjálki, Kverk, Tunga, Svíri, Háls, Bak, Öxl, Hryggur, Bringa , Brjóst (í Skotlandi), Geirvörtur, Fingur, Þumall, Olnbogi, Hnúfur, Mjöðm, Nári, Rass, Klof, Eistu, Læri, Hné, Sköflungur, Hæll, Tá, Fótur, Maður.
Kenning : að persónugerving náttúrunnar sé talsverður þáttur í smíði örnefna.
Síðast breytt 24. október 2023