Skip to main content

Pistlar

Örnefni og ljóð, örnefni sem ljóð

Þegar leitað er að örnefnum tengdum kveðskap eða skáldum í nýjum nafnagagnagrunni Árnastofnunar, nafnið.is, birtast ýmsar niðurstöður, til dæmis Ljóðafoss, Ljóðalaut og Ljóðateigur. Uppruni síðasttalda dæmisins er tíundaður í örnefnalýsingu fyrir Grafardal í Hvalfjarðarsveit: „Fékk hann það nafn 1935. Þá var Pétur Beinteinsson kaupamaður í Grafardal og sló þessa spildu og orti langt kvæði þann dag“. Sjá nánar hér. Önnur örnefni innihalda forliðinn skáld- og þar á meðal eru a.m.k. fimm bæjarnöfn: Skáldabúðir (Árnessýsla), Skáldalækjarey (Dalvíkurbyggð), Skáldalækur (Dalvíkurbyggð), Skáldsstaðir (Reykhólahreppur) og Skáldsstaðir (Eyjafjarðarsveit). Þar að auki eru heiti á öðrum kennileitum, t.d.: Skáldabúðaheiði, Skáldsstaðaveita, Skáldaflöt, Skáldá, Skáldagrímsfjall, Skáldseyjarsker, Skáldalækjarás, Skáldalækjareyja, Skáldalækur o.s.frv. Í flestöllum tilvikum eru engar skriflegar heimildir til sem varðveita upplýsingar um uppruna örnefna, þó að sum séu gömul og þeirra er getið í ritheimildum frá miðöldum.

Svavar Sigmundsson bendir á að í nokkrum tilfellum sé mögulega um hljóðbreytingu að ræða, þannig að upprunaleg merking þessara örnefna hafi ekki alltaf tengst ljóðskáldi: „Forliðurinn skáld- getur í einhverjum tilvikum átt við skáld í merk[ingunni] ‘poeta’, sérstaklega bæirnir Skáldstaðir, sem líklega hafa verið kenndir við skáld sem búið hafa þar. Hitt er ólíklegra að náttúrunöfnin séu kennd við skáld, en bæði orðin skolli og skalli koma til greina. Þau eru bæði til sem forliðir örnefna, Skallabúðir og Skollagróf, svo að dæmi séu tekin. Í þeim hefði þá orðið sams konar breyting á -ll- og varð í Kallaðarnes > Kaldaðarnes, Balljökull > Baldjökull o.fl. orðum. Langt /á/ í fornu máli líktist /o/ í síðari tíma máli svo að ruglingur gat orðið milli orðanna skáld- og skoll- á ákveðnu skeiði“. Sjá pistil á vefsíðu Árnastofnunar. Hins vegar, í ljósi þess mikilsverða hlutverks sem ljóðagerð hefur þjónað innan veggja heimilisins og í samfélaginu í menningarlegu samhengi á Íslandi um tímans rás, kemur ekki á óvart að til séu mörg örnefni sem vísa í kveðskap eða skáld.

Örnefni er oft að finna í ljóðum og í höndum skálda verða þau ekki síst öflug tæki til að skapa tilfinningu eða hugmynd um stað: örnefni tengja ljóð og yrkisefnið við raunverulegt eða ímyndað landslag. Dæmi má finna í bókmenntahefð til forna og í nútímanum. Það er löng og samfelld saga á Íslandi þar sem örnefni koma fram í samhengi frásagna í bundnu og óbundnu máli frá miðöldum til dagsins í dag. Staðanöfn og náttúrulýsingar urðu mikilvæg atriði í ljóðum eftir rómantísk skáld, útgangspunktur fyrir vangaveltur sem leiddu yfir í önnur þemu (ást, dauða, framrás tímans o.s.frv.). Í þessu samhengi má nefna Jónas Hallgrímsson og kvæðin hans. Ljóðið „Gunnarshólmi“ er frábært dæmi þar sem staðurinn og örnefnin ýta af stað hugrenningum um umfangsmeiri viðfangsefni − þjóðerni, menningararf og liðinn tíma. Þegar tekið er tillit til ferðalaganna um Ísland sem Jónas lagði í til að safna gögnum fyrir rannsóknir sínar um náttúrufræði þá er ekki skrýtið að kvæði hans skyldu innihalda mörg örnefni og ítarlegar staða- og landslagslýsingar. Sér í lagi í ljóðasafninu Annes og eyjar þar sem frásögn af ferðalagi samanstendur af tólf kvæðum: Lesandinn leggur af stað réttsælis í kringum Ísland og nemur staðar á Ólafsvíkurenni, Hornbjargi, Drangey, Kolbeinsey, Máney, Skrúði, Suðursveit, Réttarvatni, Hestkletti, Arnarfellsjökli, Sogi og Tómasarhaga. Eins og í lífinu, eru örnefni í kveðskap stundum notuð á minnistæknilegan (e. mnemonic) hátt: þau vekja einstaklingsbundnar eða samfélagsbundnar minningar hjá lesendum varðandi sögu (eða skynjaða sögu) staði (og því geta þau skapað samkennd – eða ekki). Örnefnin skapa tengingar á milli lesandans og raddar skáldsins í tíma og rými. 

Kvæði ‚Suðursveit‘ og ‚Kolbeinsey‘ í eiginhandarriti Jónasar Hallgrímssonar, KG 31 a II 31
Kvæði ‚Suðursveit‘ og ‚Kolbeinsey‘ í eiginhandarriti Jónasar Hallgrímssonar, KG 31 a II 31

Það mætti einnig hugsa um eða túlka örnefnin sjálf sem ljóð. Enska skáldið Edward Thomas (1878−1917) gaf árið 1909 út bók sem hét The South Country. Í bókinni fjallar hann m.a. um héraðssögu og skrifaði þetta um nöfn: „The names of the local families ... what histories are in them, in the curt parish registers, in tombstones, in the names of fields and houses and woods ... If only those poems which are place-names could be translated at last, the pretty, the odd, the romantic, the racy names of copse and field and lane and house“ (134−135). Eitt einkenni kveðskapar er samþjöppuð tjáning: frásögnum, merkingum og tilfinningum er miðlað í knappara formi en í óbundnu máli og hefur oftast sterkari áhrif. Í örnefnum kristallast merkingar, frásagnir og sjónarhorn: þau eru burðarafl ímyndunar, eða lendingarstaður; akkerispunktur. Beint eða óbeint draga þau fram minningar og tengja fortíð við nútíð. Þekking á þeim getur styrkt tilfinningu manns varðandi samfélagsleg tengsl og geta einnig kveikt alls konar hughrif, jákvæð og neikvæð. Hægt er að velta fyrir sér örnefnum eins og Ódáðahraun, Gálgagil, Illagil annars vegar og hins vegar Sóleyjardalur, Fagnaðarbrekka, Kærleikshvammur, Ástarlaut (um uppruna þess síðastnefnda skal bent á skýringu í þessari örnefnaskrá). Tækni á borð við stuðlun og hljóðlíkingu er oft notuð í kveðskap til að styrkja merkingu eða auka áhrif. Hljómur leikur einnig mikilvægan þátt í örnefnum: þau eru stundum hljóðgervingar og kynna í gegnum hljóð eitthvað af einkennum sínum í landslaginu: Hugsið dæmin Dettifoss, Dynjandi, Axarhraun, svo að nokkur dæmi séu nefnd. 

Í lokin mætti nefna að það er eitthvað ljóðrænt og mikilfenglegt við glötun eða hvarf örnefna úr örnefnaforða (e. toponomasticon) lands eða svæðis. Tvö íslensk kvæði frá tuttugustu öld gefa okkur þetta til kynna á áhrifaríkan hátt.

Ofan byggðar eftir Hannes Pétursson.

Háspennustaurar og símastaurar
stika langfættir í röð
vermannaleiðina fornu
vestur yfir lyngheiði.

Staur eftir staur
stikar vestur heiðina.

Í móti þeim kemur áin
missirinn, birtan – veðrin
hvert af öðru
og ávalar hæðir.

Allt eins og var
allt eins og forðum var

nema örnefnin hafa flagnað
af flestöllum kennileitum.

 

Glötuð orð eftir Gyrði Elíasson.

Framundan var vegurinn
einsog strikaður jafnóðum á
fölgrænt gamalt landakort
sem við ókum eftir í þögn

Bílljósin lýstu upp skilti
sem sandfokið hafði máð
allt letur af

 

Birt þann 28. janúar 2021
Síðast breytt 24. október 2023
Heimildir

Gyrðir Elíasson. Ljóðaúrval 1983–2012. Reykjavík: Dimma, 2015. 

Hannes Pétursson. Ljóðasafn. Reykjavík: Mál og menning, 2005. 

Jónas Hallgrímsson. https://www.snerpa.is/net/kvaedi/jonas.htm#link12 

Thomas, Edward. The South Country. Stanbridge, Dorset: Little Toller Books, 2009. First published 1909.  

 

Myndefni 

Hægt er að sjá myndina í eiginhandarriti Jónasar Hallgrímssonar, sjá vefsíðu.