Skip to main content

Pistlar

Örnefnaspjall þriggja bræðra: Upptaka frá 1970

Örnefnalýsingar eru til fyrir nær allar jarðir á Íslandi og eru nú að stórum hluta aðgengilegar á vefnum nafnið.is. Að baki hinu gríðarstóra safni liggja margs konar gögn: Handrit, örnefnalistar, rissaðir uppdrættir, bréf heimildarmanna til starfsmanna safnsins (áður Örnefnastofnunar) og fleira. Þessi gögn eru oft afar forvitnileg, ekki síst því þau gefa innsýn í það flókna ferli sem liggur að baki tilbúnum skrám og geta gefið til kynna margbrotnari viðhorf til viðfangsefnisins en síðan sjást í endanlegri gerð örnefnalýsingar. Efniviðurinn er misflókinn eftir jörðum en ein þeirra sem geymir mörg skjöl og nokkrar lýsingar, sem sumar hverjar hafa verið leiðréttar og uppfærðar, er Hæll í Gnúpverjahreppi. Árið 1970 bar Gísli Gestsson elstu örnefnalýsingarnar – aðra eftir Brynjúlf Jónsson frá Minna-Núpi en hina eftir Þorstein Bjarnason frá Háholti – undir bræður sína, Einar og Steinþór Gestssyni. Samtalið var tekið upp og er varðveitt á örnefnasafni. 

Hluti af loftmynd af Hæli og nágrenni. Sigurgeir Skúlason merkti inn örnefni.

Hlerum nú samtal þeirra bræðra. Það fer þannig fram að Gísli les upphátt úr skránni og hinir tveir ýmist jánka eða gera athugasemdir við það sem kemur fram. Já, já-já, jú-jú, ég man, ég hafði gleymt þessu, þetta passar ekki alveg, neeei, nei-nei, ég held nú ekki, við notuðum það nafn eiginlega ekki, ekki myndi ég nú lýsa því svona, það er vitleysa o.s.frv. Jafnvel leggur einn bræðranna til í gríni að Þorsteinn sé barasta tekinn í gegn. Sumar athugasemdir eru smávægilegar, t.d. að Flosateigur sé í raun Flosteigur og Grenjagil var talið réttara Grengil. Á köflum ríkir óvissa um hvað sé réttast og þá þarf að ræða málin og sammælast um einstök atriði. Bræðurnir velta stundum fyrir sér hvort tiltekin nöfn eigi heima í opinberri skráningu eða ekki – eða hvort þau séu yfirhöfuð örnefni. Meðal þeirra eru Harðlífi sem var hluti af áveitu með flóðgarði. Það var reyndar lítið notað nafn líkt og mörg önnur sem voru gefin þegar áveiturnar voru nýjar en „sumar urðu í rauninni aldrei áveitur.“ Svo eru Bunuvellir nefndir af strák, Sigga á Fljótshólum, sem var að sækja kýrnar þegar þær voru með skitu. Það kalla þeir „leiknafn“ og má skilja sem svo að það sé tæplega alvöru örnefni. Einn bræðranna er fremur ósáttur við öllu venjulegra nafn, Miðhús, sem samkvæmt honum er „…svo ungt nafn, að það er ekki nema rétt svo, að ég vilji viðurkenna það.“ Örnefnið Mígandaskarð er einnig kallað Smjörvörðuskarð í lýsingu Þorsteins sem þeir eru allir mjög ósáttir við og telja að heimildarmaður hans hljóti að hafa nefnt það svo „af kurteisi“.  

Samtalið hafði ýmiss konar áhrif þegar örnefnalýsing Hæls var uppfærð af starfsmanni Örnefnastofnunar nokkrum árum síðar. Þar er til dæmis tekið fram að Harðlífi sé sjaldan notað, Bunuvellir hafi verið nefndir í gáska af lítilfjörlegu atviki (en reyndar er ekkert minnst á eðli bununnar) og Miðhúsa er einungis getið í neðanmálsgrein.

Birt þann 24. mars 2022
Síðast breytt 24. október 2023
Heimildir

Skjöl í örnefnasafni Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.