Skip to main content

„Öl er annar maður“ – málsháttur í nokkrum handritum Grettis sögu

Eitt af því sem helst vekur forvitni þeirra sem rannsaka texta í handritum er þegar vart verður við misritun eða tilbrigði í texta sem skrifaður er upp úr einu handriti í annað. Sú hugmynd sótti á höfund þessa pistils að hugsanlega hefði slíkt getað átt sér stað þar sem hin fleygu orð úr Grettis sögu „öl er annar maður“ kemur fyrir vegna þess að til er annar og þekktari málsháttur sem hefur svipað yfirbragð, þótt merkingin sé önnur: „öl er innri maður“. Einungis skeikar örfáum dráttum í bókstöfunum sem mynda setningarnar. Því voru gerðar stikkprufur á vefnum Handrit.is þar sem finna má ljósmyndir af nokkrum handritum sögunnar. Grettis saga er varðveitt í meira en 50 handritum auk þess sem út af henni voru ortar fimm gerðir rímna og ófá kvæði önnur. Ekki er hægt að segja að athugunin sem hér er greint frá hafi verið tæmandi á nokkurn hátt.

Í AM 571 4to, sögubók frá fyrri hluta 16. aldar, stendur greinilega ritað: „öl er annar maður“.

Í handriti Grettis sögu frá fyrri hluta 17. aldar, AM 163 b fol, stendur skrifað: „Því það er satt sem mælt er að ölið sé annar maður.“ Sömu sögu er að segja um handrit sögunnar frá lokum 17. aldar, AM 150 fol, og AM 939 4to frá upphafi 18. aldar. Ýmist er ölið með eða án greinis og ýmist er sögnin að vera í viðtengingar- eða framsöguhætti og eru þar með upp talin tilbrigðin.

Í Grettisrímum frá 15. öld, sem finna má í Kollsbók, tekur óþekkt rímnaskáld málsháttinn ekki inn í rímnakveðskapinn. Á 17. öld skautar rímnaskáldið Kolbeinn Grímsson líka yfir þennan tiltekna málshátt í sínum Grettisrímum. Rímnaskáldið Magnús í Magnússkógum munstrar aftur á móti málsháttinn inn í rímur sem hann orti árið 1828. Þær finna má í eiginhandarriti Magnúsar, Lbs 369 4to:

Það í vakir þagnar hlé

þó nú okkur gjörum kátt

er máltakið ölið sé

annar maður líka þrátt.

Tæpri hálfri öld síðar, árið 1874, var gefin út í Kaupmannahöfn Lestrarbók handa alþýðu á Íslandi eftir Þórarin Böðvarsson. Þar má finna lista af orðskviðum. Meðal þeirra er „öl er innri maður“. Virðist þar komin elsta ritheimild um þau sannindi sem náskyld eru því sem gjarnan er vitnað til á latínu: in vino veritas. Á listanum í riti Þórarins Böðvarssonar er aftur á móti ekki að finna málsháttinn um að ölið sé annar maður.

 

 

Birt þann 15.07.2019