Skip to main content

Njáls bíta ráðin – AM 555 c 4to

Á sautjándu öld voru biskupssetrin í Skálholti og á Hólum lærdómssetur þar sem fjöldi handrita var skrifaður upp. Þorlákur Skúlason biskup á Hólum var með marga skrifara á sínum snærum og það sama á við um Brynjólf biskup Sveinsson í Skálholti.

Einn af skrifurum Þorláks biskups var Halldór Guðmundsson. Um hann er ekki mikið vitað annað en að hann var norðlenskur maður, nánar tiltekið frá Rúgstöðum í Eyjafirði. Seinna eignaðist hann hlut í Sílastöðum í Kræklingahlíð og bjó þar lengst. Hann mun hafa starfað sem skrifari á árunum 1630–1667. Faðir hans og afi voru líka skrifarar – enda gekk bókagerð í ættir – en efnið sem Halldór skrifaði er mun fjölbreyttara en það sem varðveitt er með hendi föður hans og afa. Skýringin er eflaust sú að á dögum Halldórs jókst mjög áhugi á fornum bókmenntum, þar með talið Íslendingasögum og öðrum sögum.

 

Halldór skrifaði að minnsta kosti fjórar lögbækur og þrjár dóma- og skjalabækur, en auk þess Sturlunga sögu, Árna sögu biskups, Njáls sögu, riddarasögur, rímur, ýmiss konar fróðleiksgreinar og samtímakveðskap. Hann hefur haft bókagerð að atvinnu, en jafnframt skrifað handa sjálfum sér. Hönd hans er smá, falleg og skýr.

 

Eitt þeirra handrita sem Halldór skrifaði, sennilega fyrir Þorlák biskup á Hólum, er AM 555 c 4to. Í því er núna Njáls saga og inntak úr Guðmundar sögu biskups en upphaflega var þetta hluti af stærra handriti með fleiri sögum, m.a. Úlfs sögu Uggasonar og Vatnsdæla sögu. Árni Magnússon hikaði ekki við að taka handrit sín í sundur og raða þeim aftur saman til þess að hafa sömu texta á sama stað.

Handritið er eindálka og þétt skrifað. Á spássíum er gefið til kynna þegar nýr kafli hefst og einnig er merkt við þar sem málshættir, orðtök og vísur koma fyrir. Stundum er vakin athygli á því að málshátturinn er fyndinn, þ.e. „málsháttur með kímni“ eða dregið fram að sumar vísur eru betri en aðrar með því að skrifa á spássíu: „vísa vel kveðin“. Stefán Karlsson dró þá ályktun af öðru handriti sem Halldór Guðmundsson skrifaði að hugðarefni hans hefðu verið „lögspeki, kveðskapur – ekki sízt kerskinn –, spakmæli og hnyttileg tilsvör“ (Halldór Guðmundsson, norðlenskur maður, Opuscula iv, bls. 107).

Halldór virðist hafa þekkt efni Njálu vel og mun hafa haft skoðun á því hvað væri mikilvægt í sögunni, því að athugasemdir hans eru til dæmis þessar: Njáls bíta ráðin, Svikaundirbúningur Njáls brennu, Klæðnaður Skarphéðins á Alþingi. Þegar greint er frá því að Hrútur hafi sagt Gunnari í óspurðum fréttum allt um skapferli Hallgerðar hefur skrifari sett á spássíu: „Allt ófregnt“. Með því vildi hann sennilega undirstrika að það getur haft slæmar afleiðingar að bera út óþarfa vitneskju. Eða með öðrum orðum að kjaftasögur geti haft vondar afleiðingar. Halldór hefur líka haft skoðun á persónum Njáls sögu. Þegar Skafti Þóroddsson segist nú að Njáli látnum vera sá eini sem kunni með lög að fara hefur hann skrifað: „Sjálfhælni“.

Heimildir okkar um Halldór Guðmundsson eru fáar og stafar það eflaust af því að hann mun hvorki hafa hlotið menntun í skólum landsins né farið til útlanda. Athugasemdir á spássíu sýna hins vegar að hann hefur verið vel að sér í Njálu. Hann lét sér ekki nægja að skrifa söguna upp heldur túlkaði hana og útskýrði fyrir verðandi lesendum.

 

Birt þann 16.09.2019
Heimildir

Stefán Karlsson, Halldór Guðmundsson, norðlenzkur maður, Opuscula IV (København 1970), bls. 83–107.

Stefán Karlsson, Halldór Guðmundsson á Sílastöðum, Stafkrókar (Reykjavík 2000), bls. 399-402.