Skip to main content

Pistlar

Möðruvallabók – AM 132 fol.

Möðruvallabók er stærsta varðveitta miðaldasafn Íslendingasagna og þekktasta handrit þeirra. Bókin er talin skrifuð um miðja fjórtándu öld. Í henni eru Njáls saga, Egils saga Skallagrímssonar, Finnboga saga ramma, Bandamanna saga, Kormáks saga, Víga-Glúms saga, Droplaugarsona saga, Ölkofra saga, Hallfreðar saga vandræðaskálds, Laxdæla saga og Fóstbræðra saga. Bókin er aðalhandrit flestra sagnanna og í mörgum tilvikum eina miðaldahandritið sem hefur að geyma þær heilar. Af því leiðir að Möðruvallabók er eitt mikilvægasta handrit Íslendinga. Bókin er bundin inn í tréspjöld og er alls 200 blöð á bókfelli. Hún er ekki aðeins þykk og efnismikil heldur er hún einnig í stóru broti eða um 33,5 x 24 cm. Textaflöturinn er tvídálka og spássíur eru stórar. Hér er því um verulega fínt handrit að ræða og sérstaklega veglegt þegar haft er í huga að það hefur að geyma Íslendingasögur en ekki lög eða efni tengt messugjörð kirkjunnar en yfirleitt var mest lagt í slíkar bækur.

 

Bókin er ekki fullrituð eins og hún er nú, ef marka má athugasemd neðst á bl. 61v: „Láttu rita hér við Gauks sögu Trandilssonar. Mér er sagt að …. Grímur eigi hana“. Sagan var hins vegar aldrei skrifuð í handritið og er nú glötuð. Fremstu sjö sögurnar eru í landfræðilegri röð, og Gauks saga, sem var sunnlensk — Gaukur er talinn hafa búið á Stöng í Þjórsárdal —, átti að vera á eftir Njáls sögu og hefði því verið á réttum stað í röðinni. Röðin á sögunum gæti þó verið tilviljun því að fjórar síðustu sögurnar falla ekki inn í þessa landfræðilegu röð. Þeirri hugmynd hefur verið hreyft að Njáls saga og Gauks saga hafi átt að vera sér í bók og Egils saga ein í annarri bók en hinar sögurnar saman í þriðju bókinni. Samsetning handritsins er með þeim hætti að það getur vel staðist, en ef svo hefur verið, verður að gera ráð fyrir að saga (eða sögur) hafi týnst sem var næst fyrir framan Finnboga sögu ramma. Það má einnig hugsa sér að upphaflega hafi verið um tvær bækur að ræða, Egils sögu annars vegar og hinar sögurnar hins vegar, en að Egils sögu hafi svo verið smeygt inn á milli sagna þegar frá leið. Það vantar fremstu blöðin í Njáls sögu og öftustu blöðin í Fóstbræðra sögu svo að það er einnig hugsanlegt að Njáls saga hafi ekki átt að vera fremst í handritinu, heldur hafi hún átt að vera aftast, þ.e. fyrir aftan Fóstbræðra sögu, og Gauks saga átt að reka lestina. Hafi svo verið, má halda því fram að Egils saga hafi verið sett fremst í handritið en ekki á milli sagna. Það er athyglisvert að við upphaf tíu sagna af þessum ellefu er skorið eins konar bókmerki lóðrétt í skinnið og strimill þræddur í raufarnar, hugsanlega til að gefa til kynna hvar ætti að opna bókina.

Njáls saga, Egils saga Skallagrímssonar og Fóstbræðra saga eru ekki varðveittar heilar í Möðruvallabók. Það er líklegt að um aldamótin 1700 hafi vantað sex eða sjö blöð í Fóstbræðra sögu og eftir 1760 hafa týnst níu blöð til viðbótar úr henni auk tveggja blaða úr Egils sögu. Fremst í Njáls sögu vantar um það bil eitt kver (átta blöð) úr upphaflegu bókinni en eyðurnar í henni eru fylltar með 11 skinnblöðum frá sautjándu öld, auk leifa af því tólfta. Engu er líkara en að eigandi bókarinnar á þeim tíma hafi ákveðið að skrifa söguna upp á nýtt — eða láta skrifa hana fyrir sig — og setja inn í bókina í staðinn fyrir upphaflega textann, því að stærð flestra nýju blaðanna er sú sama og gömlu blaðanna og kjalgötin eru þau sömu. Síðan er eins og horfið hafi verið frá því ráði og aðeins bundin inn þau blöð af nýja hlutanum sem nauðsynleg voru vegna týndra blaða eða ólæsilegra blaðsíðna. Stundum skarast texti á gömlu og nýju blaði. Eitt nýja blaðið, það níunda af þeim, hefur síðar verið skorið úr svo að það sjást aðeins nokkrir bókstafir á ræmunni sem eftir varð.

Möðruvallabók er nú bundin í þykk eikarspjöld. Þau eru aðeins of lítil fyrir handritið og líklegt að þau séu yngri en það. Bandið er opið í kjölinn. Kverin eru saumuð á fimm þvengi sem eru festir við spjöldin. Sterkar vísbendingar eru um að kver bókarinnar hafi ekki verið bundin inn í spjöldin fyrr en snemma á tuttugustu öld og að þau hafi legið laus í spjöldunum fram að því og jafnvel legið í stafla án spjalda um langa hríð. Það var því þeim mun meiri hætta á að blöð glötuðust úr handritinu og röð kvera ruglaðist.

Að því er best verður séð hefur Möðruvallabók verið að minnsta kosti 27 kver í upphafi. Öll kverin hafa verið með átta blöðum, nema það aftasta sem kann að hafa verið aðeins sex blöð. Bókin hefur því líklega verið 214 blöð, sé miðað við núverandi röð sagnanna og ekki tekið tillit til þess að hugsanlega hafi glatast úr henni saga eða sögur.

Handritið er með nokkuð vandaðri rithendi sem einnig kemur fyrir á brotum úr að minnsta kosti fimm öðrum handritum; flest hafa þau kirkjulegt efni að geyma. Þessi aðalskrifari bókarinnar hefur skilið eftir eyður fyrir 16 vísur í Egils sögu (og hluta af þeirri sautjándu). Annar maður hefur svo fært inn vísurnar allar nema tvær. Þessir skrifarar hafa að líkindum verið atvinnumenn. Þriðji skrifarinn hefur skrifað 23. vísu Eglu, sem er aðeins fjögur vísuorð, á bl. 83ra ásamt 13 orðum fyrir framan hana. Fjórði maðurinn hefur svo skrifað allar fyrirsagnir í bókinni og hugsanlega einnig gert upphafsstafina og sá fimmti hefur skrifað fyrrnefnda athugasemd um Gauks sögu Trandilssonar. Gera verður ráð fyrir að þessir skrifarar hafi verið samtímamenn og talið er að þeir hafi starfað norðanlands. Til þess benda áttatáknanir í texta sagnanna. Sjötti maðurinn hefur skrifað nokkur orð við mynd af Agli Skallagrímssyni og Ljóti bleika, sem bætt hefur verið við síðar á bl. 61v, og sá sjöundi hefur skrifað Arinbjarnarkviðu á bl. 99v, en ekki er víst hvenær, en hugsanlega hefur það þó gerst strax um miðja fjórtándu öld.

Vera kann að Möðruvallabók hafi verið skrifuð í Eyjafjarðarsýslu þótt ekkert verði um það fullyrt. Nafn handritsins vísar til elstu heimildar um heimilisfesti þess, en 3. maí árið 1628 skrifaði Magnús Björnsson nafn sitt í bókina „í stóru baðstofunni á Möðruvöllum“, eins og stendur á bl. 18v. Hann bjó á Munkaþverá í Eyjafirði og varð síðar lögmaður. Ekki er ljóst hvort átt er við Möðruvelli í Eyjafirði eða Möðruvelli í Hörgárdal, en oftast hefur verið talið að hér sé átt við fyrrnefnda staðinn enda var hann í eigu Magnúsar á þessum tíma og móðir hans, Elín Pálsdóttir, bjó þar. Á hinn bóginn var til „stórabaðstofa“ á Möðruvöllum í Hörgárdal samkvæmt úttekt frá árinu 1694, og ábúendasaga þess staðar gerir hann jafnvel líklegri en hinn sem heimkynni handritsins. Um þessar mundir bjó þar Halldór Ólafsson lögmaður — sem var af ríkum höfðingjaættum ekki síður en Magnús — og einmitt árið 1628 var hann í verulegum fjárkröggum og gæti því hafa selt eignir til að létta á skuldunum og þar með verðmæt handrit. Sonur Magnúsar, Björn sýslumaður á Munkaþverá, tók bókina með sér til Kaupmannahafnar árið 1684 og gaf hana Thomasi Bartholin fornfræðingi konungs og hollvini Árna Magnússonar. Tilgangur Björns með gjöfinni hefur trúlega verið sá að liðka fyrir því að hann fengi aftur sýslumannsembættið sem dæmt hafði verið af honum. Ef svo var, hafði hann árangur erfiðis síns. Eftir andlát Bartholins árið 1690 komst bókin í hendur Árna Magnússonar.

Guðvarður Már Gunnlaugsson,
júlí 2018

 

 

 

Birt þann 1. júlí 2018
Síðast breytt 24. október 2023