Skip to main content

Pistlar

Af vergirni Gunnhildar konungamóður

Konur í íslenskum miðaldabókmenntum eru sjaldnast aðalpersónur en þó oft áhrifaríkar og frásögninni nauðsynlegar. Í sumum sögum er þáttur kvenna ríkari en öðrum; Laxdæla saga er jafnan ofarlega í huga þeirra sem fjalla um konur og miðaldabókmenntir. Sumar þekktustu Íslendingasagna geyma eftirminnilegar kvenpersónur en þær verða seint kallaðar aðalpersónur. Íslenskar miðaldabókmenntir, líkt og bókmenntir fleiri alda, endurspegla heim karlsins; þær fjalla um karla og eru að öllum líkindum skrifaðar af körlum.

Þó að konur séu alla jafnan ekki helsti brennipunktur miðaldabókmennta gegna þær konur sem þar birtast oft og tíðum veigamiklum hlutverkum og geta haft mikil áhrif á atburðarásina. Jómsvíkinga saga er 13. aldar saga og er engin undantekning frá reglunni. Þar eru konur fáar og engin þeirra leikur stórt hlutverk. Þar birtist hins vegar kona sem virðist hafa verið allfræg, jafnvel alræmd, á Íslandi ef marka má fjölda þeirra heimilda sem greina frá henni: Gunnhildur konungamóðir. Flestir kannast sennilega best við þátt Gunnhildar í Njálu þar sem hún er í hlutverki nokkurs konar hjónadjöfuls sem leggur álög á Hrút:

Hon tók hendinni um háls honum ok kyssti hann ok mælti: „Ef ek á svá mikit vald á þér sem ek ætla, þá legg ek þat á við þik, at þú megir engri munúð fram koma við konu þá, er þú ætlar þér á Íslandi, en fremja skalt þú mega vilja þinn við aðrar konur. Ok hefir nú hvárki okkat vel: þú trúðir mér eigi til málsins.“ (6. kafli)

Hrútur fellur í sömu gryfju og margir karlmenn fyrr og síðar, hann tekur ekki mark á konunni heldur gengur hlæjandi á braut. Afleiðingarnar verða misheppnað hjónaband hans og Unnar Marðardóttur, eins og frægt er. Fjölkynngi Gunnhildar er víðar getið; Egill Skalla-Grímsson er meðal þeirra sem fær að kenna á henni en þau tvö elduðu jafnan grátt silfur. 

Laxdæla saga er sú heimild sem einna mildustu höndum fer um persónu Gunnhildar þar sem styttri frásögn en í Njálu birtist af samskiptum þeirra Hrúts. Gunnhildur „lagði miklar mætur á hann“ og kveður hann við skip með þeim orðum að enginn sé hans jafningi, hvorki að atgervi né vitsmunum. Þá er tekið fram að hún hafi brugðið skikkju að höfði sér og gengið snúðug heim. Hún virðist í tilfinningalegu uppnámi og því skýlt sér þannig að viðbrögð hennar sæjust ekki. Ekkert ber á fjölkynngi nokkurs konar. Þessi mynd Gunnhildar í Laxdælu sker sig úr öðrum frásögnum þar sem mynd hennar í íslenskum heimildum er jafnan fremur neikvæð.

Sneypuleg er hin skamma frásögn af Gunnhildi í Jómsvíkinga sögu. Í fyrri hluta sögunnar ríkir Haraldur Gormsson í Danmörku en Haraldur gráfeldur, sonur Gunnhildar, í Noregi. Hákon jarl er staddur hjá Haraldi og hefur hug á að ná völdum í Noregi. Hákon bruggar ráð með Haraldi Gormssyni í þeim tilgangi að ná gráfeldi til Danmerkur og losna við hann í eitt skipti fyrir öll. Hákon ráðleggur Haraldi að bjóða nafna sínum í Noregi heim með fullri virðingu en til þess að tryggja að Haraldur komi örugglega telur Hákon vissara að bjóða móður hans einnig:

Það skaltu og fylgja láta orðsendingunni,' segir hann, 'attú ætlar að biðja Gunnhildar móður hans, en eg kann skaplyndi hennar að því, þótt hún sé nakkvað aldri orpin, að hún mun þá mesta stund á leggja að fýsa son sinn fararinnar, ef þetta liggur við, þvíað lengi hefir hún þótt nökkvat vergjörn. (5. kafli)

Höfundi Jómsvíkinga sögu hefur væntanlega verið á huldu ritið Historia Norvegiæ þar sem þau eru sögð systkini, Haraldur Gormsson og Gunnhildur. Hvað sem því líður heppnast ráðabrugg Hákonar og Haralds, þau mæðgin halda af stað frá Noregi án nokkurra grunsemda um að það verði þeirra hinsta för. Haraldur er drepinn á Limafirði en Gunnhildur nær landi þar sem hennar bíða grimm örlög:

Og nú er það spyrst, að Gunnhildur er við land komin, lætur Haraldur aka vögnum í mót henni og liði hennar, og er hún þegar sett í einn virðilegan vagn, og sögðu menn henni, að dýrleg veizla var búin í móti henni að konungs. Þeir óku með hana um daginn. Og um kveldið er myrkt var orðið, þá komu þeir eigi að höll konungs, heldur var hitt, að eitt fen mikið varð fyrir þeim, og tóku þeir Gunnhildi höndum og hófu hana úr vagninum ---[1] síðan út á fenið og drekktu henni þar og lét hún svo líf sitt, – og heitir þar síðan Gunnhildarmýrr.

Þegar konungur fær tíðindin svarar hann: „'Þá hafi þér vel gert,' segir hann 'hefir hún nú þann sóma er eg hugða henni.'“ (5. kafli)

Ef Jómsvíkinga saga væri eina heimildin um Gunnhildi væru þetta nokkuð snautleg eftirmæli. Og þó að litið sé til annarra heimilda er líklega algengt að fólk beri enga hlýju í brjósti til Gunnhildar.

Það hlýtur þó að gefa auga leið að Gunnhildur hefur verið „stórbrotin kona“ eins og Sigurður Nordal orðaði það.[2] Völd hennar og áhrif hafa ljóslega verið umtalsverð, ekki eru aðrar drottningar norrænar sem hljóta viðlíka athygli í norrænum heimildum og hún. Synir hennar eru þekktari sem Gunnhildarsynir en Eiríkssynir og hún er oft í ráðum með þeim. Aðrir konungar Noregs virðast ekki hafa tekið tillit til móður sinnar á þeirra valdatíð. 

Birt þann 22. júní 2018
Síðast breytt 24. október 2023
Heimildir

[1] Handrit ólæsilegt á þessum stað.

[2] Sigurður Nordal, „Gunnhildur konungamóðir: flutt 23. febrúar 1941,“ Samtíð og saga 1 (1941), 135–155. [Mannlýsingar I, 1986, 277–296].