Skip to main content

Pistlar

íþróttir og sport

Í fljótu bragði virðist mega líta á orðin íþrótt og sport sem samheiti. Í nýlegum orðabókum, bæði í Íslenskri orðabók og Íslenskri nútímamálsorðabók, er sport skýrt sem ‘íþrótt(ir)’. Orðið sport kemur aftur á móti ekki fyrir í skýringum á orðinu íþrótt: 1 ‘leikni, fimi ...’; 2 ‘kerfisbundnar æfingar til að þjálfa líkamann (oft til að ná e-m tilsettum árangri, setja met o.þ.h.)’.

Samheitapör þar sem annað orðið er tökuorð en hitt af innlendum stofni eru talsvert algeng í íslensku. Innlenda orðið er þá annaðhvort nýyrði eða gamalt orð, sem stundum hefur orðið fyrir merkingarbreytingu fyrir áhrif erlenda hugtaksins. Almennt eru samheiti sjaldan svo jafngild að merkingu, notkun og stíl að hægt sé að setja annað í stað hins hvar og hvenær sem er. Þetta á einnig við um mörg samheitapör af þessu tagi, þar á meðal orðin íþrótt og sport eins og kemur í ljós þegar notkunardæmi með þeim eru borin saman.

Uppruni og saga

Orðið íþrótt hefur verið notað í íslensku frá fornu fari. Í fornmálsorðabók Fritzners er það skýrt sem ‘leikni eða kunnátta í einhverju sem maður hefur tileinkað sér, list eða athöfn sem krefst slíks’. Dæmi varðveitt í safni fornmálsorðabókarinnar í Kaupmannahöfn (ONP) endurspegla þetta.

  • þetta var einkis manns kast annars því að hann var betur búinn að íþróttum en flestir menn aðrir. (Gísla saga Súrssonar)
  • Konungur [...] kvað honum mikla íþrótt í skáldskap sínum. (Hallfreðar saga)

Svipuð merking birtist í síðari tíma máli allt til nútímans.

  • Íþróttir eru þessar kenndar: skrift, uppdráttalist, saungur og leikir. (1842)
  • kvað svo ramt að niðurlæging íþróttanna [...] að sund og skautaferðir var bannað með lögum í ýmsum löndum álfunnar. (1909)
  • Við höfum kannski ekki eins mikla þörf fyrir að fá útrás í íþróttum og þið. (1990)
  • Náttúrumyndirnar í bókinni eru gerðar af íþrótt. (2008)

Eins og dæmin sýna hefur orðið alla tíð verið notað bæði um líkamlega og andlega færni eða kunnáttu.

Orðið sport kemur fyrst fyrir í íslenskum textum seint á 19. öld og þá í svipaðri merkingu og íþrótt.

  • myndir af mönnum á skautum, skíðum, fugla-, dýra- og fisk-veiðum og alls konar „sporti". (Fjallkonan 1888)

Orðið virðist þó ekki notað að ráði fyrr en kemur fram yfir aldamótin 1900. Það er tökuorð úr ensku, sennilega í gegnum dönsku eins og títt var á þessum tíma, en enska orðið á rætur í fornfrönsku orði, desport ‘skemmtun, gaman’.

Notkun og stíll

Nú er algengast að orðið íþrótt vísi til líkamlegrar iðkunar sem lýtur ákveðnum reglum og er æfð skipulega. Þannig er knattspyrna íþrótt svo og glíma, sund, körfubolti, golf og ótalmargar aðrar greinar. Oft eru greinarnar iðkaðar með keppni að markmiði en líka í líkamsræktar- og ánægjuskyni. Orðið er einnig notað um slíka iðkun almennt sem eins konar yfirheiti um ólíkar íþróttagreinar og þá er það oftast í fleirtölu.

  • Ég álít, að hollt sé að iðka almennar íþróttir á hvaða aldri sem er. (1938)
  • Sund er góð íþrótt. Ég synti mikið, þegar ég var yngri. (1988)
  • Keppt var í íþróttum og dansað og krakkar fengu að kaupa sér sælgæti og gos. (2008)

Fleirtalan íþróttir er talsvert miklu algengari í textum en eintalan, bæði í eldra og yngra máli.

Í gagnasöfnum er fjöldi dæma um orðið sport þótt þau séu miklum mun færri en um íþrótt. Áhugavert er að bera saman notkun þessara orða. Orðið sport er algengast í eintölu. Það kemur fyrir í ýmsum heitum, t.d. á íþróttarásum fjölmiðla og fyrirtækjum, í merkingunni ‘íþróttir’. Í öðrum dæmum vísar sport yfirleitt til iðkunar sem ekki telst til hefðbundinna íþróttagreina en felur eigi að síður í sér líkamlegar athafnir og áreynslu ásamt útivist, s.s. veiðar af ýmsu tagi, siglingar, göngur og hestamennska, samanber samsettu orðin veiðisport, hestasport, mótorsport o.fl.

Orðið sport kemur líka fyrir í orðasamböndum þar sem íþrótt væri síður eða ekki notað, t.d. þegar sagt er að „eitthvað sé (ó)dýrt sport“ – í bókstaflegri eða yfirfærðri merkingu, að það „sé mikið sport í einhverju“ eða að „eitthvað sé gert upp á sport“ þar sem merkingin er eiginlega ‘til gamans’.

  • systrunum finnst það mikið sport að príla í þessum girðingum. (1954)
  • [...] skotveiði er einnig mjög vinsælt sport. (1997)
  • Er hestamennska ekki stórhættulegt sport, fólk að detta af baki og slasa sig? (2015)
  • Mér fannst mikið sport í því þegar ég fékk fyrst að mjólka. (2013)

Dæmin sýna að þrátt fyrir sameiginlegan merkingarkjarna er notkun orðanna íþrótt og sport um margt ólík og í mörgum tilvikum kæmi tæplega til greina að skipta öðru út fyrir hitt í sama samhengi. Það kemur jafnvel fyrir að orðin komi fyrir í sömu málsgrein.

  • Fólk getur brotið bein í hvaða sporti sem er og slasað sig í alls konar íþróttum. (2015)
Birt þann 25. maí 2020
Síðast breytt 24. október 2023
Heimildir

Fritzner, Johan. 1973. Ordbog over Det gamle norske Sprog. II. 4. útgáfa. Oslo / Bergen / Tromsø: Universitetsforlaget. (Aðgengileg á vefnum: https://www.edd.uio.no.)
Íslensk nútímamálsorðabók. (veforðabók í vinnslu). Ritstjórar: Halldóra Jónsdóttir og Þórdís Úlfarsdóttir.
Íslensk orðabók. 2007. 4. útgáfa. Ritstjóri: Mörður Árnason. Reykjavík: Edda.
Íslenskt textasafn.
Mörkuð íslensk málheild (MÍM): <malheildir.arnastofnun.is>.
ONP = Ordbog over det norrøne prosasprog. Institut for Nordiske Studier og Sprogvidenskab, Københavns Universitet.
Risamálheildin (2018): <malheildir.arnastofnun.is>.
Ritmálssafn Orðabókar Háskólans.